Viðtal við leikstjóra Listó

Karitas M. Bjarkadóttir

Listafélag Verzlunarskólans er að setja upp sýningu í ár, eins og öll árin á undan . Listósýningin er sett upp í hátíðarsal skólans og er í sýningu núna fyrir áramót. Frumsýningin er í byrjun nóvember, þann níunda þetta árið. Það sem er óvenjulegt við sýninguna í ár er að leikstjórarnir eru allir nýútskrifaðir úr skólanum, og að mestu alveg óreyndir þegar kemur að því að leikstýra. Þeir Höskuldur Þór Jónsson og Viktor Pétur Finnsson sátu fyrir svörum.

Hvað eruð þið að setja upp í Listó í ár?

 

 

Við erum að setja upp leikritið Shawshank Redemption, sem heitir í uppsetningunni okkar Shawshank fangelsið.

Hvernig hefur vinnan verið og gengið fyrir sig?

 

 

Fyrsta verkefnið okkar var að velja verk og gera leikgerð úr því. Við erum náttúrulega að setja upp verk byggt á þessari bíómynd og bók, sem hefur aldrei verið sett upp á svið á Íslandi áður. Það hafa bara verið tvær eða þrjár uppsetningar í heiminum sem við fundum, allavega. Í sumar fórum við í bakvinnuna að finna út hvernig við myndum færa þessa sögu yfir á Ísland og unglinga, og ákveða hvernig við gætum gert leikritið fjölbreyttara. Það er til dæmis ekkert kvenhlutverk í upprunalegu sögunni, en við ákváðum eiginlega strax í byrjun að við myndum ekki ákveða kyn hlutverkanna fyrirfram, heldur vinna með þá leikara sem okkur litist best á og pössuðu best í hvert og eitt hlutverk, óháð kyni eða kynþætti. Við höfðum allt opið.

Við erum með frábæran hóp af hæfileikaríkum krökkum sem eru að standa sig alveg ótrúlega vel. Þetta eru fjórtán leikarar sem er óvenjulega stór hópur fyrir Listó, en krakkarnir hafa náð að útfæra hlutina þannig að allt gangi smurt fyrir sig, og sviðið er alls ekki of lítið. Þar að auki erum við með ellefu sviðsmenn sem stökkva af og til í aukahlutverk, bæði svo við séum ekki alltaf með sömu fangana í klefunum, og svo fangelsið virki stærra. Þannig þetta eru tuttugu og fimm manns í heildina sem stíga á sviðið.

Hvernig er upplifunin að leikstýra menntaskólaleikriti?

 

 

Það er geggjað að fá að leikstýra, bara yfir höfuð. Fyrir okkur, verandi báðir leikarar, er einstakt að fá að finna nýja hlið á leiklist, það er gott að prófa að sitja hinum meginn við leikstjóraborðið, og fá að horfa á fólk gera nákvæmlega það sama og við höfum gert áður. Hérna erum við ekki bara að pæla í okkur sem einstaklingum, heldur öllum, og öllu verkinu í heild sinni. Það sýnir líka bara hvað það er mikilvægt að huga að öllu, hvort sem þú ert að leika eða leikstýra.

Er ekkert skrítið að leikstýra fólki sem er svona nálægt ykkur í aldri?

 

 

Já og nei. Það eru náttúrulega kostir og gallar við allt. Við náum meira til þeirra, og það er meiri jafningjagrundvöllur. Við höfum meira gaman og skiljum þeirra húmor, það er stutt síðan við stóðum í þeirra sporum, bara síðast núna í vor vorum við báðir að leika í verki hér í skólanum. Í atvinnuleikhúsum er þetta auðvitað oft svona, að leikstjórar eru jafnaldrar eða jafnvel yngri en leikararnir, þannig í staðinn fyrir að taka á okkur eitthvert „kennara“ hlutverk erum við í rauninni bara að leiðbeina þeim í rétta átt.

 

Eins og minnst var á áðan er frumsýning þann 9. nóvember í hátíðarsal Verzló.

 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: