„Skapar persónur byggðar á staðalímyndum sem þær passa ekki í“ – Birgitta Björg Guðmarsdóttir gaf út bók

Melkorka Gunborg Briansdóttir

„Á stað sem þessum er hvergi hægt að hverfa. Hér er ekkert sem heitir sjálfvirkni. Bærinn er lokaður. Brimgnýrinn og bert grjótið króar þig af og það er öldugangur í skuggunum. Eina leiðin til að geta lifað af hér er að fylgja múgnum. Hún þarf að muna eftir öllum smáatriðum. Minna sig á hverja einustu smáhreyfingu. Hugsa um að færa hvert einasta smábein.”

Í ágúst síðastliðnum kom út skáldsagan Skotheld eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur. Bókin er frumraun Birgittu á ritvellinum, en hún er tuttugu ára gömul og nýútskrifuð úr Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Skotheld fjallar um fjögur ungmenni sem búa í litlu sjávarþorpi úti á landi og hvernig sögur þeirra vefast saman á örlagaríkan hátt. Í þorpinu er ekkert til sem heitir öðruvísi, allir verða að þrífast innan sama þrönga rammans. Sagan er full af spennu, þar sem persónurnar eru í stöðugri baráttu við þau forneskjulegu viðhorf sem ríkja í umhverfi þeirra. Ímyndin er fyrir öllu, en hvað gerist þegar henni er ógnað?

Bókin er gefin út af bókaútgáfunni Kallíópu, sem er tilraunaverkefni sem hefur það að markmiði að skapa vettvang fyrir unga rithöfunda til að stíga sín fyrstu skref. Auk bókar Birgittu Bjargar hefur útgáfan gefið út ljóðabókina Ceci n’est pas une ljóðabók eftir Sjöfn Hauksdóttur.

Birgitta hefur áður birt eftir sig ljóð í Beneventum, skólablaði MH, og í 2.tölublaði af Portrett. Viðbrögðin við bókinni hafa verið jákvæð, en fyrsta upplagið seldist upp á fjórum dögum.

Hvenær byrjaðir þú að skrifa?

Í lok tíunda bekkjar fékk ég hugmynd að smásögu. Það tók mig hálft ár að skrifa hana, en mér fannst ótrúlega gaman að vinna í henni. Á fyrsta ári í menntaskóla sendi ég umsókn í rithöfundanámskeið fyrir unglinga á vegum Norðurlandaráðs og komst inn. Í námskeiðinu felst ferð til Svíþjóðar, við dvöldum í lýðháskóla í Biskops-Arnö, sem er yndislegur staður. Ég fann mig algjörlega í þessari viku á námskeiðinu. Í fyrsta skipti á ævinni kynntist ég fólki sem hafði sömu ástríðu og ég: Fólki sem vildi skrifa, deila sögum og yrkja. Mér leið eins og ég væri í himnaríki.

Um hvað fjallar Skotheld, í þínum eigin orðum?

Hún fjallar um eftirvæntingar og g staðalímyndir. Ég fékk grunnhugmyndina úti í Svíþjóð. Þá var ég að velta fyrir mér fólki sem gæti verið alveg tómt, eins og speglar. Fólki sem endurspeglar bara þá persónuleika sem það sér í kringum sig. Við nánari umhugsun áttaði ég mig á því að það er ekki hægt út af væntingunum sem samfélagið gerir til þín. Ef þú ert kona, þá þarftu að vera svona og hinsegin og haga þér á ákveðinn hátt. Kyn, aldur, búseta, litarhaft, allt hefur þetta áhrif á samfélagslegar væntingar. Það er ótrúlega erfitt og þröngt að búa í samfélagi eins og því sem er lýst í Skotheld. Það er alveg sama hvort það er borg eða bær, heilt land eða allur heimurinn, það er aldrei hægt að búa á stað þar sem allir eru á móti þér. Það er til dæmis ástæðan fyrir því að ég nefndi ekki bæinn í bókinni. Þetta er saga sem gæti gerst hvar sem er, hvenær sem er.

Hvaðan kom innblástur fyrir persónurnar? Sóttir þú hann að einhverju leyti í raunveruleikann eða fólk sem þú þekkir?

Nei, ég get ekki sagt það. Persónurnar eru fyrst og fremst byggðar á þeim staðalímyndum sem þær eiga að falla inn í. Þeim líður samt sem áður mjög illa í þeim skorðum. Þú finnur þig aldrei í staðalímynd, því fólk er miklu flóknara en það. Mér fannst áhugavert að geta sett persónurnar á mismunandi skala hvað varðar mannréttindi og forréttindi. Til dæmis búa stelpurnar í bókinni við mismunandi félagslegar aðstæður. Agnes er ofarlega í goggunarröðinni: Hún er hvít, vinsæl, falleg og nýtur virðingar, en Freyja er dóttir innflytjanda, dökk yfirlitum og býr í hrörlegra hverfi. Ég bjó til samfélag sem ber keim af þessu.

Hvernig safnar þú hugmyndum?

Ég æli öllu út úr mér. Ég er með glósubók á mér við öll tilefni. Þar safna ég alls konar hugmyndum, skrifa til dæmis niður falleg orð. Bókin er full af illlæsilegum setningum sem enginn skilur nema ég. Það er líka mjög gaman þegar kærastinn minn reynir að lesa í hana, þá gefur hann mér stundum hugmyndir þegar hann les setningarnar vitlaust.

Hvar færðu flestar hugmyndir?

Á tónleikum. Ég held það sé bara það að sitja og hugsa. Á tónleikum get ég týnst inni í hausnum á mér, og þá finnst mér gott að geta skrifað allt niður svo ég gleymi því ekki. Allt sem mér dettur í hug skrifa ég niður, setningar, lýsingar, samtöl. Svo fer ég á bókasafn eða kaffihús og vinn. Þá púsla ég þessu saman, einhvern veginn veit ég hvað á að vera hvar.

Hvað var erfiðast í ferlinu?

Að hætta. Ég var alltaf að laga eitthvað, mér fannst ég alltaf geta breytt einhverju eða bætt það.

Ég fékk óvænta endurgjöf þegar ég var búin að sætta mig við að ég væri búin með bókina. Þá fór ég í algjört kerfi og ákvað að ég þyrfti að laga hana. Þegar ég las söguna inn á hljóðbók breytti ég líka ýmsu. Ég tók eftir setningum sem mér fannst þurfa að vera öðruvísi.

Hvað var skemmtilegast í ferlinu?

Það var skemmtilegast að hreinskrifa. Maður byrjar oftast á fyrsta uppkasti og það er alltaf hræðilegt. Mér fannst skemmtilegt að vinna upp úr fyrsta uppkastinu, hreinskrifa textann og finna stílinn í málinu. Ég er enn mjög ánægð með suma kafla afþví mér finnst ég hafa náð fram því stílbragði sem ég vildi hafa í textanum.

Hvar er hægt að nálgast bókina?

Það er hægt að nálgast hljóðbókina, rafbókina og kiljur með því að hafa samband við Kallíópu, bókaútgáfuna, á heimasíðunni þeirra. Það má líka hafa samband við mig í gegnum síma eða skilaboð. Svo er bókin til sölu í Eymundsson, á Skólavörðustíg og Austurstræti.

Hvað tekur við hjá þér?

Ég er að vinna að öðru verkefni, en ég ætla að taka mér svolítið mörg ár í það. Ég er bara búin að ákveða það, ég ætla að vera lengi að því. Ég er að læra íslensku í HÍ og var að senda smásögu í smásögukeppni. Svo skrifa ég alltaf hjá mér hendingar, við og við.

Melkorka Gunborg Briansdóttir tók viðtal og vann texta

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: