Met slegið í edrúpottinum

Sólrún Freyja Sen

Ágúst Orri Arnarson er formaður nemendafélags Menntaskólans við Sund (MS), en hann hélt hina árlegu ‘85 viku í síðustu viku. Í ‘85vikunni klæðast allir 80’s fötum og skólinn er skreyttur í 80’s stíl eins og nafn vikunnar gefur til kynna, fyrir utan að haldnir eru stórir og litlir (en allir skemmtilegir) viðburðir í vikunni.

Til að tryggja sem best að allir væru með og að hafa gaman var haldin kynning fyrir nýnema um hvað væri að fara að gerast í ‘85 vikunni. ,,Í fyrra vissu margir nýnemar ekkert hvað var í gangi og hvernig þeir áttu að vera. Enda voru mjög margir sem mættu á þessa kynningu og allir virtust mjög spenntir fyrir þessu.”

Það eru hinsvegar ekki allir sem eiga legghlífarnar, svitaböndin og spandexgallana til reiðu heima, en þá er um að gera að skella sér á Fatamarkaðinn á Hlemmi sem dregur fram allt sem MS-ingarnir þurfa fyrir vikuna árlegu. ,,Eitt kíló af 80’s fötum kostar 5900 kr sem er ágætis díll. Þau á Fatamarkaðnum safna þessum fötum saman yfir árið og selja okkur svo fyrir ‘85 vikuna.”

Fastir liðir í vikunni eru bílabíó, zúmba danstími þar sem einskonar James Fonda taktar eru teknir, Mysingurinn er gefinn út af Grautnum (myndbandanefnd) og ‘85 blað ritnefndarinnar er gefið út.

Í vikunni í ár var keila svo haldin í fyrsta sinn í þrjú ár, en eitt sinn var hún haldin í hverri ‘85 viku áður en það þurfti að banna hana vegna þess að nemendur gátu ekki hagað sér á mannsæmandi hátt. ,,Það hefur verið erfitt að fá að halda keiluna. Hún var reyndar haldin aftur fyrir þremur árum eftir að hafa verið bönnuð í nokkur ár, en var bönnuð strax aftur.”

Við vonum að allt hafi gengið vel í þetta sinn.

Á meðan flestir viðburðir vikunnar eru hugsaðir fyrir MS-inga, því miður fyrir aðra, þá áttu sumir sem eru ekki í MS möguleika á að mæta á ‘85 ballið. Það væri ekki frásögu færandi ef MS böllin hefðu ekki verið lokuð öðrum skólum frá árinu 2006 og þangað til ‘85 ballið var haldið í fyrra. Aldrei hafa eins margir miðar fyrir utanskólanemendur verið í boði og það er vegna þess að einungis þeir sem taka þátt í edrúpottinum mega bjóða á böll.

,,Böllin eru í raun hálf-opin. Nemendur sem taka þátt í edrúpottinum mega bjóða utanskólanemendum á böll, þannig þeir nemendur sem tóku þátt í edrúpottinum á nýnemaballinu mega bjóða á ‘85 ballið. Ég er stoltur að segja frá því að það var slegið met í þátttöku í pottinum, en 170 manns tóku þátt í edrúpottinum á nýnemaballinu. Það er rosalegt miðað við að vanalega höfum við danglað í þrjátíu til fimmtíu þátttakendum.”

 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: