„Jæja. Þetta er ofmetið“ – Leikdómur um Fyrsta skiptið

Karitas M. Bjarkadóttir

Hópur ungmenna frumsýndi nú á dögunum leikverkið Fyrsta skiptið í Gaflaraleikhúsinu. Leikstjóri verksins er Björk Jakobsdóttir, sem hefur tvímælalaust unnið hörðum höndum að því undanfarin ár að gera Gaflaraleikhúsið að fremsta ungmennaleikhúsi landsins. Leikhópurinn sem hún fékk til að gera ungmennaleikrit leikhússins þetta árið samanstendur af fimm krökkum á aldrinum 19-20 ára, þeim Arnóri Björnssyni, Berglindi Öldu Ástþórsdóttur, Ingu Steinunni Henningsdóttur, Mikael Emil Kaaber og Óla Gunnari Gunnarssyni. Verkið fjallar í stuttu máli um fyrstu skipti okkar allra, eins og titillinn gefur til kynna, hvort sem það er fyrsta ástin, fyrsti kossinn, fyrsta skiptið sem við stundum kynlíf, fyrsta ástarsorgin eða fyrsta skiptið sem við leysum vind í návist makans, og hversu fullkomin eða ófullkomin þessi fyrstu skipti geta verið. Ofmetin eða vanmetin.

Leikritið er einstaklega einlægt og hugljúft, og krakkarnir standa sig frábærlega í því að túlka, ja, sjálf sig. Leikararnir nota sín eigin nöfn, og sínar eigin reynslusögur í bland við sögur vina sinna, og ná með þessu að skapa einstakt samband við áhorfendur sem sogast einfaldlega inn í heim krakkanna. Það er auðvelt að tengja við leikritið, vandræðaleikann og áhyggjurnar sem fylgja því að gera eitthvað í fyrsta skiptið, að allt standi undir væntingum og sé líkast rómantískri gamanmynd. Krakkarnir taka á alvarlegum hlutum á húmorískan hátt, húmorískum hlutum á alvarlegan hátt og undirrituð viðurkennir það fúslega að hafa bæði hlegið og grátið í bland, svo heiðarleg og einlæg var túlkun leikaranna. Inn á milli koma líka skemmtileg tónlistaratriði, nútímadans og tennisleikur og ótrúlega frumlegar viðlíkingar á hversdagslegum hlutum og „þeim sem ekki má nefna á nafn“.

Það er líka mikilvægt að hrósa krökkunum fyrir fjölbreytileika, þar sem þau pössuðu sig á áreynslulausan hátt að taka tillit til fleiri gerða af samböndum en þessu týpíska gagnkynhneigða unglingspari svo það er auðvelt að fullyrða að flestir geti tengt við leikritið á einn eða annan hátt. Núverandi, fyrrverandi og verðandi unglingar ættu allir að geta sett sig í spor krakkanna, hvað það er vændræðalegt að fara á fyrsta stefnumót, hvað kynfræðslu er ábótavant, og að fyrsti kossinn getur verið svo mikil vonbrigði að þú missir út úr þér að það sé nú eiginlega bara soldið ofmetið að kyssast.

Á heildina litið var leikritið hugljúft, bráðfyndið, tilfinningaríkt og einlægt, og leikhópurinn stóð sig snilldarlega í því erfiða verkefni að ræða fyrsta skiptið sitt á sviði fyrir framan 200 manns (og jafnvel tengdaforeldra sína). Undirrituð hikar ekki við að gefa verkinu fimm stjörnur, og hvetur alla til að sjá verkið sem fyrst. Allir ættu að geta lært eitthvað og hlegið helling, og jafnvel grátið. Það verður gaman að fylgjast með leikurunum blómstra í framtíðinni, því áhorfendur munu tvímælalaust sjá meira af þeim í framtíðinni.

Allir í leikhús!

 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: