Íslenskar stuttmyndir á RIFF

Melkorka Gunborg Briansdóttir

RIFF, alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík var í ár haldin í fimmtánda sinn, en hátíðin stóð yfir frá 27.september til 7.október. Árlega flykkjast íslenskir sem erlendir kvikmyndaunnendur á hátíðina til að sjá það besta og ferskasta í alþjóðlegri kvikmyndagerð. Í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands var sjónum beint að sjálfsmynd í ár: Sjálfsmynd þjóða, hópa og einstaklinga.

Auk þess býður hátíðin upp á fjölbreytta viðburði og upplifanir. Gestum býðst að spjalla við leikstjóra um verk sín, sækja málþing og fyrirlestra, fara á tónleika og listasýningar, og að sjá kvikmyndir við óhefðbundin skilyrði, til dæmis í sundi, helli eða stofunni hjá þekktum kvikmyndagerðarmanni.

Á hátíðinni voru sýndar bæði íslenskar og erlendar stuttmyndir. Yfirleitt er talað um að stuttmyndir séu frá einni mínútu upp í fjörutíu mínútur að lengd, þó þær geti samkvæmt skilgreiningunni verið allt að 74 mínútna langar. Þó sumir líti á stuttmyndir sem æfingu kvikmyndagerðarfólks áður en það snýr sér að kvikmyndum í fullri lengd, þá eru þær heill ævintýraheimur út af fyrir sig. Fjölbreytni viðfangsefna og tjáningaraðferða er takmarkalaus og hugmyndaflugið er nánast það eina sem setur manni skorður. Hið knappa form gerir jafnframt kröfur um agaðan frásagnarmáta.

Meðal þeirra mynda sem sýndar voru á hátíðinni voru íslensku stuttmyndirnar Afsakið, Ég, Móðurást og Umskipti.

 

Afsakið eftir Ísak Hinriksson

Maður festir skóinn sinn undir bíl. Þessi stuttmynd er mjög knöpp, aðeins 9 mínútna löng, en létt og full af húmor, hún uppskar mikinn hlátur í salnum. Hér er unnið mjög skemmtilega úr einfaldri grunnhugmynd. Ísak Hinriksson er aðeins tuttugu ára gamall en hefur þrátt fyrir það unnið mikið við kvikmyndir, bæði fyrir aftan og framan myndavélina. Önnur stuttmynd eftir hann, Skeljar, var einnig sýnd á hátíðinni.

Ég eftir Völu Ómarsdóttur og Hallfríði Þóru Tryggvadóttur

Ung trans manneskja frá litlu þorpi ferðast til borgarinnar í leit að frelsi til að vera hán sjálft. Við gerð myndarinnar unnu kvikmyndagerðarkonurnar náið með Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur, en hún er ötul talsmanneskja trans fólks á Íslandi. Reynsla hennar varð innblástur að myndinni. Kjarni sögunnar er frelsið sem fylgir því að fá að vera maður sjálfur, sem eru sönn mannréttindi. Hún er sjónrænt mjög sterk og kemur skilaboðum sínum vel til skila þrátt fyrir lítið tal. Stór hópur stendur að gerð myndarinnar, en í honum eru aðeins konur. Leikkonan Snæfríður Ingvarsdóttir fer með aðalhlutverkið.

 

Móðurást eftir Ara Allansson

Kúrdísk móðir og dóttir hennar fá ekki landvistarleyfi á Íslandi. Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og á brýnt erindi við samtímann. Það færir hana ískyggilega nálægt raunveruleikanum að aðalleikona myndarinnar, Didar Farid, er hælisleitandi frá Írak. Hún kom hingað til lands ásamt manni sínum og ungum syni fyrir ári síðan. Nú í byrjun október var greint frá því í Fréttablaðinu að Didar og eiginmaður hennar hafi fengið synjun um hæli hjá Útlendingastofnun og verður þeim því vísað aftur til Frakklands á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar. Myndinni tekst á beittan hátt að miðla þeim ótta og óvissu sem einkennir stöðu hælisleitenda.

 

Umskipti eftir Sesselíu Ólafsdóttur

Þrjár vinkonur fara saman í sumarbústaðarferð á þrettándanum. Brátt taka dularfullir atburðir að eiga sér stað, þegar verur úr íslenskum þjóðsögum blanda sér í leikinn. Smám saman verður fríið að martröð. Myndin er aðeins 18 mínútur og einstaklega óhugnaleg. Hún er einföld og sannfærandi, vel leikin og samtöl vinkvennanna eðlileg. Aðstæðurnar eru súrrealískar, myndinni tekst á skemmtilegan hátt að flytja þjóðsögurnar í nútímabúning.

 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: