Hvað er þetta Kvennaverkfall?

Karitas M. Bjarkadóttir

Þann 24. október síðastliðinn var blásið til kvennaverkfalls á Íslandi í sjötta sinn. Ástæðan var í rauninni tvíþætt. Síðastliðið ár hafa frásagnir kvenna af misrétti og kynbundnu ofbeldi í atvinnulífinu verið í brennidepli fjölmiðla, og undirstrikað þannig mikilvægi öryggis kvenna og jaðarsettra hópa á vinnumarkaði. Auk þess er óútskýrður kynbundinn launamunur um 26% samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu, og það er ekki útlit fyrir að sú skekkja hverfi fyrr en árið 2047, eða eftir 29 ár.

Ef litið er á launamuninn hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við vinnu frá 9.00 til 17.00 sem telst vera fullur vinnudagur. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:55, þessvegna gengu konur út af vinnustöðum sínum þennan dag.

1975

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna helgaði áratuginn 1975 til 1985 málefnum kvenna. Í tilefni þess var ákveðið árið 1985 að skipuleggja dag þar sem konur lögðu niður vinnu, til að leggja áherslu á mikilvægi kvenna á atvinnumarkaði. Kvennasamtök, kvenfélög og stéttarfélög tóku sig saman og gerðu daginn að veruleika, 24. október varð fyrir valinu, en það er einnig dagur Sameinuðu þjóðanna. Konur söfnuðust saman víða um land og talið er að um 90% kvenna á Íslandi hafi lagt niður störf þennan dag og um 25.000 konur hafi safnast saman á Lækjartorgi. Þetta vakti gífurlega athygli um allan heim og dagurinn hefur öðlast sess í sögu alþjóðlegrar kvenréttindabaráttu.

1985

Þegar áratugur kvenna var að líða undir lok var ákveðið að blása til annars samstöðufundar á Lækjartorgi þann 24. október. Yfirskrift þess fundar var „Konur stöndum saman“, og þó svo að konur hafi ekki verið hvattar sérstaklega til að leggja niður vinnu var fundurinn haldinn á hefðbundnum vinnutíma, og talið er að um 18.000 konur hafi mætt á þennan samstöðufund.

2005

Þann 24. október, þrjátíu árum eftir fyrsta samstöðufundinn, var haldið upp á kvennafrí í þriðja skiptið undir yfirskriftinni „Konur höfum hátt“. Konur voru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:08 og boðað til kröfugöngu frá Skólavörðuholti niður á Ingólfstorg. Tímsetning verkfallsins var ákvörðuð út frá muninum á heildarlaunum kynjanna og um 50.000 manns söfnuðust saman í miðbænum á meðan samstöðufundinum stóð. Fleiri fundir voru haldnir um landið allt.

2010

Árið 2010 voru konur hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:25 þann 25. október, og kvennafríið haldið í fjórða sinn. Ástæðan fyrir dags-seinkuninni var sú að þann 24. október bar upp á sunnudag, og tímasetning verkfallsins reiknuð út frá þeirri staðreynd að konur höfðu aðeins 65,65% af heildarlaunum karla. Regnhlífarsamtökin Skotturnar stóðu fyrir fundinum ásamt samtökum launafólks. Kröfuganga var gengin frá Skólavörðuholti niður að Arnarhóli þar sem fundurinn var haldinn með yfirskriftinni „Já! – ég þori, get og vil“ og megináhersla fundarins var lögð á kynferðisofbeldi. Um 50.000 manns sóttu fundinn.

2016

„Kjarajafnrétti strax“ var yfirskrift fundarins 24. október 2016, sem haldinn var á Austurvelli. Samtök launafólks og samtök kvenna á Íslandi stóðu að fundunum, sem haldnir voru á 21 stað á landinu. Konur voru hvattar til að leggja niður vinnu kl 14:38 og mótmæla kjaramuni kynjanna. Tímasetning fundarins var enn sem áður reiknuð út frá upplýsingum Hagstofu Íslands og notast var við tölur frá árinu 2014. Samkvæmt þeim voru konur með 26,7% lægra meðaltal atvinnutekna..

2018

Þann 24. október 2018 var kvennafríið svo haldið í sjötta skipti með yfirskriftinni „Breytum ekki konu, breytum samfélaginu“. Konur voru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:55 eftir nýjum útreikningum Hagstofu sem leiddi í ljós að konur hefðu aðeins um 26% af launum karla. Samstöðufundurinn var haldinn á Arnarhóli og byrjaði kl. 16:30. Konur fjölmenntu til að mótmæla kynbundnum launamun og misrétti á vinnumarkaði.

 

Ljóð lesin á Kvennafríinu 2018

ekki of

ekki nóg.

ekki nógu dugleg

ekki nógu hávær

ekki nógu ákveðin

ekki nógu, þú.

allt of mikið

allt of starfsdrifinn

allt of hávær

allt of ákveðin

allt of mikið, ég.

þegar ég reyni að vera nóg,

er ég of mikið.

tek of mikið frá þér,

plássið þitt,

frelsi þitt til að kyngera mig,

rétt þinn til að brjóta á mínum,

tilvist mín skerðir þína.

þegar ég reyni að vera ekki of mikið

er ég ekki nóg.

gef of mikið eftir,

plássið mitt,

frelsi mitt til að standa með sjálfri mér

rétt minn til að eiga rétt

tilvist mín skerðir mína.

tólf til tuttuguogníu

samkvæmt nýjustu tölum

verða laun kvenna ekki jöfn karla

fyrr en árið tvöþúsundfjögurtíuogsjö.

samkvæmt nýjustu tölum

mun heimurinn farast í hamförum

ekki seinna en árið tvöþúsundogþrjátíu.

okkur hefur í alvörunni tekist

að eyða heillri plánetu

á styttri tíma

en okkur hefur tekist

að viðurkenna konur

sem menn.

tími til kominn

stundin er runnin upp.

heyri ég í útvarpinu,

sjónvarpinu,

það bergmálar

stundin er runnin upp.

heyrði mamma mín í útvarpinu,

sjónvarpinu, nema á fimmtudögum,

og það bergmálaði.

hún er runnin upp núna,

þegar við rjúkum á arnarhól,

krefjumst betri kjara

og eyðingu ofbeldis.

hún var runnin upp árið 1975,

þegar þær ruku á lækjartorg,

kröfðust betri kjara,

og enginn vissi um ofbeldið

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: