Fimm leiðir til að vera góður við umhverfið

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir

Núna er mikið verið að tala um umhverfið og það er mjög nauðsynleg umræða sem þarf að taka. Sannleikurinn er sá að ef við höldum áfram eins og við gerum núna eigum við ekki mikið eftir. Við erum hreinlega komin á þann stað að það þarf að gera eitthvað róttækt, eða jörðin mun gefast upp á okkur. Þetta vandamál sýnist þó vera svo ótrúlega stórt og yfirþyrmandi. Oft á tíðum líður manni eins og það sé ekkert sem maður getur gert, vandamálið sé orðið það stórt. Það þarf þó ekki að vera það, við getum öll gert eitthvað. Við getum öll hjálpast við að gera heiminn að betri stað.

  1. Nota fjölnota poka

Þetta er einn af hlutunum sem er búið að vera að tala um mjög lengi og margir hafa byrjað á því að gera. Plastpokar eru að meðaltali notaðir í 20-30 mínútur og síðan er þeim hent, sem er auðvitað ekki umhverfisvænt þar sem flestallir enda þeir á ruslahaugum. Plast er eitt af stærstu vandamálunum ásamt gróðurhúsaáhrifunum og þess vegna er mjög mikilvægt að reyna nota sem minnst af þeim.

  1.   Álfabikarinn

Margar konur notast við dömubindi eða túrtappa, fari þær á túr. Sniðug leið til þess að vera umhverfisvænni er að nota álfabikarinn. Hann er einfaldari, ódýrari þegar til lengri tíma er litið og betri. Þú getur verið með hann í allt að 12 tíma í senn, farið með hann í sund og æft án þess að taka eftir honum. Að kaupa einn álfabikar er um 4000-5000kr en einn pakki af dömubindum fer upp í 500kr á pakkann. Segjum að þú notir einn pakka í mánuði og þá er álfabikarinn strax farinn að borga sig eftir að minnsta kosti 5 skipti.

  1.  Endurnýtanleg rör

Rör eru einnig eitt af þeim sem margir virðast vera að taka eftir. Sum fyrirtæki virðast loksins vera að gera eitthvað í því og t.d. er Starbucks með áætlun sem snýr að því að losa sig við öll plaströr á nokkrum árum. Plaströr eru þó líka í heimahúsum en það er hægt að kaupa stálrör til að nota og þau mega fara í uppþvottavélina eða vera handþvegin.

  1. Nota eldspýtur

Þetta sýnist vera eitthvað örlítið en ég minni á að margt smátt gerir eitt stórt. Það er einfaldlega þannig að eldspýtur eru umhverfisvænni heldur en kveikjarar. Ef maður spáir í því segir það sig einfaldlega sjálft. Hvort er umhverfisvænna lítil einnota prik í litlu pappírsboxi eða plasthylki fullt af jarðefnaeldsneyti sem er ekki hægt að fylla á?

  1.  Talaðu um umhverfið

Ennþá eru svo margir sem trúa því ekki að gróðurhúsaáhrifin séu í alvörunni eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Fyrir þá sem trúa því ekki, þá langar mig bara að ítreka að þetta er í alvörunni vandamál sem við erum að stríða við. Einfaldlega með því að afla sér meiri upplýsinga um málefnið og deila þessum upplýsingum með öðrum ertu að halda þessari umræðu gangandi.

Vertu breytingin sem við þurfum því með engu umhverfi er ekkert samfélag.

Mynd eftir Maríu Árnadóttur

 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: