Erlendir og íslenskir nemendur eyddu helgi á Hvammstanga

Sólrún Freyja Sen

Helgina 20. til 21. október stóð Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) fyrir verkefninu Menningarþræðir, þar sem íslenskir og erlendir nemendur eyddu stundum saman á Hvammstanga að kynnast og fræðast um stöðu innflytjenda og annara flóttamanna á Íslandi. Izzy Kristín Tarbox, alþjóðafullltrúi framkvæmdarstjórnar SÍF mætti að sjálfsögðu og segir verkefnið vera afar mikilvægt.

,,Verkefnið snýst um að koma saman erlendum og íslenskum framhaldsskólanemum vegna flóttamannavandans og vegna aukins fjölda innflytjenda á Íslandi. Við viljum að íslenskt samfélag sé opnara, og við viljum að bæði Íslendingar og útlendingar séu fróðari um það sem er í gangi. Það er líka mikilvægt að erlendir nemendur upplifi sig velkomna í íslensku samfélagi.”

Lengi vel voru fáir útlendingar á Íslandi, og Izzy segir að útlendingar sem hingað komu hafi margir hverjir upplifað sig sem eitthvert viðundur, og jafnvel að þeir væru hafðir útundan.

,,Með verkefninu vildum við líka skýra fyrir fólki muninn á því að vera flóttamaður eða að vera innflytjandi, og afhverju fólk kemur hingað til lands.”

Sjálf er Izzy hálf bandarísk. Hún ólst upp í Seattle í Washington, en kom svo til Íslands fyrir rúmu ári þegar móðir hennar sem er íslensk vildi flytja aftur hingað. Izzy talar enga íslensku og hafði aldrei búið hér áður, þess vegna tengir hún augljóslega við aðra sem hafa upplifað neikvæðar hliðar þess að vera útlendingur á Íslandi.

,,Ég og vinur minn tókum viðtöl við erlenda nemendur og spurðum út í upplifun þeirra að flytja til Íslands, hvaðan þeir væru, hvernig gengi að læra íslensku, hvort þeir upplifðu að íslenskt samfélag byði þau velkomin eða ekki og hvort þau höfðu upplifað útlendingahatur eða einhversskonar fordóma.”

Izzy segir að helgin á Hvammstanga sé fyrsta skrefið í verkefninu, og að öllum líkindum muni framkvæmdarstjórn SÍF skipuleggja fleiri sambærilega viðburði. ,,Á síðasta degi helgarinnar hvöttum við svo nemendurna til að fara af stað með eigin verkefni ef þeir væru með hugmyndir um hvernig ætti að opna íslenskt samfélag fyrir útlendingum. Við fræddum þau til dæmis um það hvernig hægt væri að sækja um styrki fyrir slíkum verkefnum.”

Izzy vonar að þetta verkefni veki fólk til umhugsunar og að fólki finnist þessi málefni mikilvæg. Það verður áhugavert að fylgjast með áframhaldinu og vonandi mun verkefnið bara stækka og stækka.

 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: