Söngur Kanemu er nýútkomin heimildarmynd um leit hinnar söngelsku Ernu Kanemu að söngvum frá Sambíu, heimalandi föður síns. Hún ferðast ásamt fjölskyldu sinni til Sambíu, en úr verður einskonar pílagrímsferð þar sem hún drekkur í sig afríska menningu og myndar dýpri tengsl við ættingja sína þar. Hún kynnist tónlistarhefð forfeðra sinna og tekur loks brot af henni með sér heim til Íslands.

Erna Kanema ólst upp í Reykjavík ásamt yngri systur, Auði, íslenskri mömmu og sambískum föður. Fyrir Ernu felast bæði kostir og ókostir í því að alast upp á mörkum tveggja menningarheima. Oftast nýtur hún þess að vera öðruvísi og fá athygli vegna þess, en stundum óskar hún þess að falla inn í fjöldann.

Erna hefur tvisvar í barnæsku heimsótt Sambíu en þar fyrir utan er reynsla hennar af sambískri menningu að miklu leyti fengin í gegnum pabba hennar, Harry, sem hefur búið á Íslandi í 20 ár. Hún þráir að eiga sterkari tengsl við heimaland pabba síns og ættingja sína þar, en henni finnst hún ekki þekkja uppruna sinn nógu vel. Hún hefur mikinn áhuga á tónlist, syngur í kórum og lærir söng í FÍH. Tónlistaráhuginn leiðir hana af stað í ferð sem dýpkar skilning hennar á tónlistarmenningu í Sambíu þar sem margt er talsvert ólíkt því sem hún þekkir á Íslandi.

Leikstjóri myndarinnar er Anna Þóra Steinþórsdóttir, móðir Ernu, en hún hefur áður gert tvær heimildamyndir um heimsóknir Ernu til Sambíu og það hvernig þessir ólíku menningarheimar hafa áhrif á hana. Fyrri myndirnar voru gerðar þegar Erna Kanema var yngri og voru því miðaðar við þann aldurshóp.

Söngur Kanemu var að mestu leyti tekin upp sumarið 2016, þegar Erna var 18 ára gömul, á þröskuldi fullorðinsáranna. Þá dvaldi hún ásamt fjölskyldu sinni í Sambíu í fimm vikur, en síðustu tökur fyrir myndina voru í fyrravetur.

Aðspurð segir Erna að það sé svolítið fyndið að horfa á myndina í dag, tveimur árum síðar. ,,Maður þroskast og breytist svo mikið á þessum árum. Þó það sé ekki beint neitt sem ég vildi að ég hefði sagt eða gert öðruvísi í myndinni, þar sem þetta er líka heimildarmynd byggð á upplifunum og augnablikum, þá upplifði ég pínu svona ,,vó” yfir því að fólk sé að fara að horfa á hana og kynnast 18 ára mér á mjög persónulegan hátt. Ég held að þar spili sterkt inn í að mamma hafi oft verið á bak við myndavélina, svo að ég var ekki að þykjast vera nein önnur en ég er.”

Hún segir gerð myndarinnar hafa breytt viðhorfi hennar til Sambíu.

,,Ferðin til Sambíu 2016 hafði mikil og góð áhrif á mig, tengingu mína við fjölskylduna úti og rætur mínar í Sambíu. Ég var í fyrsta skipti að upplifa landið og samfélagið með fullorðinsaugum og ég myndaði mjög sterk bönd við fjölskylduna, fann að ég ætti í rauninni tvö heimili, sitt í hvorri heimsálfunni. Ég hafði alltaf litið á Sambíu sem landið hans pabba sem ég ætti eftir að heimsækja af og til á lífsleiðinni, en núna langar mig að flytja út yfir einhvern tíma. Í dag tel ég mig vera hundrað prósent sambíska alveg eins og ég er hundrað prósent íslensk.”

Erna er nýkomin heim úr annarri ferð til Sambíu ásamt fjölskyldu sinni.

,,Við sýndum myndina á Lusaka International Film Festival, sem var magnað. Það var algjör hápunktur fyrir mig að fá að bjóða sambísku fjölskyldunni að sjá myndina í bíó, þar sem þau eru svo stór partur af henni.”

Auk þess vann Söngur Kanemu verðlaun á Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda á Patreksfirði, sem besta mynd hátíðarinnar.

,,Við mamma erum alveg í skýjunum með viðbrögðin. Ég vona að hún komist inn á einhverjar erlendar hátíðir en núna erum við bara að bíða eftir frekari svörum.”

Söngur Kanemu er heimildamynd sem miðlar mikilvægum lífsgildum, í henni kemur mikilvægi góðra fjölskyldutengsla skýrt fram. Hún varpar einnig fram flóknum spurningum um rætur og uppruna, sjálfsmynd og menningarheima. Hún spannar víða breidd tilfinninga, en umfram allt er sagan sögð af mikilli hlýju og gleði.

 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: