post-dreifing situr fyrir svörum

Karitas M. Bjarkadóttir

Hvernig kom post-dreifing til?

Það má segja að byrjunarreiturinn hafi verið under-ground tónleikar sem haldnir voru úti á Granda, þar sem flestir þeir tónlistarmenn sem koma fram á Drullumall #1 safnplötunni voru að spila. Daginn eftir voru K.óla og Bagdad Brothers að spila á myndlistarmarkaði á Oddsson, og Korter í Flog strákarnir voru þarna líka. Þau fóru að ræða hugmyndir um að gera safnplötu af þeirri tónlist sem er í kringum þau, sem kom í ljós að flest voru búin að láta sér detta í hug á einhverjum tímapunkti. Þá var ákveðið að halda fund í jólafríinu, þar sem var meðal annars verið að reyna að ákveða nafn, og svo kom tímabil í byrjun árs þar sem var fundað mjög mikið.

Hver er sagan á bak við nafnið?

Fyrst átti þetta að heita Drullumall, en umræðan þróaðist út í vangaveltur um þessar listastefnur sem kenndar eru við post-eitthvað. Post-rokk, post-módernismi o.s.frv. Þá datt okkur í hug að nefna þetta post-útgáfa, en þar sem hefðbundin útgáfa á list hefur breyst töluvert eftir komu internetsins fannst okkur post-dreifing meira viðeigandi.

Hver er tilgangur post-dreifingar?

Tilgangurinn er í rauninni að skapa tækifæri og umhverfi þar sem listafólk getur gefið listina sína út sjálft, óháð efnahagi eða félagslegum bakgrunni, með hjálp vina sinna. Peningar eru klárlega óumflýjanlegt atriði í útgáfustússi, en lykilatriðið í post-dreifingu er að þetta er stór hópur af mismunandi fólk með mismunandi reynslu sem getur þannig hjálpast að við að gera hlutina án þess að peningar þurfi að standa of mikið í vegi fyrir fólki. Við viljum sýna að þú getur verið snauður af öllu nema vinum þínum, en samt skapað list og deilt henni með umheiminum. Við höfum gefið út fullt af dóti, bara á þessu ári, án þess þó að hafa nokkurn tímann haft meira á milli handanna samtímis en 100.000 kr., við höfum bara látið þetta virka.

Hvernig rekið þið félagið?

Við fundum bara í drasl. Við viljum ekki hafa miðstýringu, heldur að allir hafi jafnt vægi og þeirra hugmyndir séu metnar að jafn miklum verðugleikum og hinna í kollektívunni, það er enginn settur í forgang. Við kjósum ekki um hluti, heldur ræðum við þá í gegn þangað til allir eru sáttir við niðurstöðuna. Þetta snýst alls ekki um að meirihlutinn ráði, heldur að allir séu sammála. Hver sem er getur boðað til fundar, og hver sem er getur mætt á fundinn, það þurfa ekki allir að mæta alltaf, heldur reynum við að skipta verkefnunum á hópa. Þá þarf aðili sem er ekkert inn í því að skipuleggja Drullumall ekki að mæta á fundi þar sem það er einungis rætt o.s.frv. Við erum samt að endurskipuleggja okkur svolítið núna, og koma á allsherjarfundum þar sem allir eru boðaðir og skipulagshóparnir segja frá sínum ákvörðunum og áætlunum. Þá geta hinir í post-dreifingu komið sínum skoðunum á framfæri, og þá slegist í hóp með skipuleggjendum ef þær eru sterkar.

Hvað eruð þið helst að gefa út?

Við erum mest að gefa út tónlist, s.s. plötur, smáskífur og tónlistarmyndbönd. Við höfum reyndar gefið út fjórar bækur líka, og staðið fyrir myndlistarsýningu og tónlistarhátíð. Listafólkið sem við gefum út er allt mjög ólíkt, til að nefna nokkra höfum við verið að gefa út fyrir Gróu, K.ólu, Skoffín, Bagdad Brothers, sideproject og asdfhg svo eitthvað sé nefnt.

Getur hver sem er gengið til liðs við post-dreifingu?

Í raun og veru er eina skilyrðið að þú skiljir hugmyndafræðina á bak við post-dreifingu og styðjir hana. Svo lengi sem þú tekur undir sjónarmið post-dreifingar, og ert til í að leggja þitt af mörkum til að hjálpa öðrum í þeirra listsköpun og vinnu, þá ertu meira en velkomin/n.

Hver er framtíðarsýn ykkar fyrir post-dreifingu?

Í stóra samhenginu er markmiðið auðvitað bara að búa til langtímagrundvöll fyrir fólk til að skapa óháð fjárhagslegri stöðu þess. En það sem er á döfinni hjá okkur eru fleiri útgáfur, tónlistarhátíð í sumar og fullt af áhugaverðu dóti.

 

Fjórir listamenn sem post hefur gefið út

SKOFFÍN

Skoffín er hugarfóstur Jóhannesar Bjarka og byrjaði árið 2016 með útgáfu á EP plötunni ‚Í Hallargarðinum‘ sem tekin var upp í London. Tónlist Skoffíns má lýsa sem ærslafullri, hrárri og fjörugri rokktónlist þar sem textasmíðin fær að leika lausum hala og yrkisefnið margvíslegt. Tónleikagestum er alltaf lofað mikilli skemmtun þar sem spilagleðin tekur völd og á sviðinu ríkir skipulögð ringulreið. Með Jóhannesi spila Bjarni og Sigurpáll á gítara, Auðunn á bassa (áður Þrándur), Andrés á trommur og Kommi á slagverk. Nýlegasta útgáfa Skoffín var stuttskífan ‚Bína Bína / Lísa Lísa‘ sem nálgast má á Spotify. Um þessar mundir er Skoffín í stúdíói að taka upp sína fyrstu breiðskífu og er hún væntanleg vetur 2018. Post-dreifing gefur út tónlist Skoffíns og rófan er mangó túndrunnar.

HOT SAUCE COMMITTEE

Það er bara ein hot sause committee á ÍSLANDI. Hún sér um ákvarðanir sem beinast að sterkum sósum á ÍSLANDI. Stundum er ógreinilegt hvort sósan er alvöru sósa eða lag á ÍSLANDI. Stundum er fólk að ruglast á því hvort lagið er um sósurnar sem eru fluttar inn, eða þær sem eru heimaræktaðar á ÍSLANDI. Lögin sem nefndin semur eru kannski kannski kannski kannski kannski kannski kannski kannski kannski kannski kannski kannski já núna já núna kannski kannski bangsi kannski kannski kann kann kann ski ski ski ski kannski kannski kannski já núna já núna eitthvað sem er til nú þegar.

GRÓA

GRÓA er hljómsveit skipuð Fríðu Björgu Pétursdóttur, Hrafnhildi Einarsdóttur og Karólínu Einarsdóttur. Tónlist þeirra má lýsa sem einhverskonar pönki með grípandi melódíum og köllum. Þær stunda allar nám við Menntaskólann við Hamrahlíð og eru á fullu að semja ný lög. Þær gáfu út sýna fyrstu plötu í vor sem innihélt fyrstu 7 lögin þeirra en þær eiga líka lög á safnplötunum drullumall#1 og drullumall#2 sem voru gefnar út á þessu ári á vegum Post-dreifingar. Þær munu koma fram á Iceland airwaves hátíðinni núna í nóvember.

K.ÓLA

K.óla er listakona sem gerir tónlist og alls konar, bækur eða bara hvað sem henni dettur í hug. Um þessar mundir er hún í skiptinámi í Bretlandi að læra Creative Music Technology. Hún er að vinna að bókaseríu með Korkimon, semja og að vinna í plötu sem að kemur út á næsta ári.

 

STEFNUSKRÁ POST-DREIFINGAR

Post-dreifing er hópur af listafólki sem hefur það að markmiði að auka sýnileika og sjálfbærni í listsköpun í krafti samvinnu.

Við afneitum eindregið markaðs- og gróðahyggju í vinnu okkar; við stefnum á að búa til vettvang fyrir sjálfstætt listafólk til að halda áfram að skapa, burtséð frá fjárhalgslegri stöðu hvers og eins, og án hvers kyns gróðasjónarmiða.

Við afneitum allri stigskiptingu og mismunun og vinnum alltaf á jöfnum grundvelli innan post-dreifingar.

Okkar lýðræði er ekki fulltrúalýðræði, þar sem meirihlutinn ræður, heldur raunverulegt lýðræði, þar sem allir hafa eitthvað að segja.

           Við forðumst tilbrigðarleysi í listsköpun.

Dreifing er hafin.

 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: