#MÍNGEÐHEILSA – samfélagsmiðlaherferð á vegum SÍF

Samband íslenskra framhaldsskólanema fór í gær af stað með herferð á samfélagsmiðlum í þeim tilgangi að þrýsta á stjórnvöld að bjóða upp á ókeypis sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum.

Af viðbrögðunum og fjölda þátttakenda að dæma er ljóst að þörfin er mikil en hundruðir hafa nú sett inn nýjar prófílmyndir á facebook, myndir sem tákna ýmist að þeir séu framhaldsskólanemar sem þurfi á sálfræðiþjónustu að halda eða þekki framhaldsskólanema sem þurfi á sálfræðiþjónustu að halda (þriðja myndin táknar hvoru tveggja). Þá notast þátttakendur við myllumerkið #míngeðheilsa en hugmyndin er að þangað geti fólk deilt reynslusögum, ekki einungis nemendur heldur einnig fyrrum nemendur sem hafa þurft að hætta í framhaldsskóla vegna andlegrar vanlíðanar, foreldrar og starfsfólk skólanna.

Umræðan um gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum hefur lengi verið rædd meðal nemenda, skólastjórnenda og foreldra en einnig á Alþingi. Þrisvar hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga þar sem lagt er til að gjaldfrjáls sálfræðiþjónusta verði í boði í framhaldsskólum en hún hefur aldrei komist lengra en í fyrstu umræðu. Þá lýstu ýmsir fulltrúar framboðsflokkanna yfir stuðningi sínum við hugmyndina fyrir síðustu Alþingiskosningar en engu að síður svaraði enginn eftirfarandi aðila svöruðu tölvupósti frá framkvæmdastjórn SÍF þar sem bent var á að ekki væri gert ráð fyrir þjónustunni í fjárlagafrumvarpinu; mennta- og menningarmálaráðherra, heilbrigðisráðherra, aðstoðarmenn ráðherra, fulltrúa í allsherjar- og menntamálanefnd, fjárlaganefnd og velferðarnefnd.

Í Hvítbók: Umbætur í menntun sem Mennta- og menningarmálaráðuneytið lét gera árið 2014 kemur fram að aðeins 44% framhaldsskólanema ljúka námi á tilsettum tíma. Til að sporna við því var ákveðið að allir framhaldsskólar ættu að breyta námslengd stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú en eins og kemur fram í ályktun sem sambandsþing SÍF sendi frá sér telja nemendur að með því hafi álagið aukist meira en æskilegt er. Ein afleiðinga aukins álags sé svo aftur minni tími fyrir félagslíf og tómstundir sem dragi úr félagslegri virkni nemenda.

Komið hefur í ljós að þriðjungur háskólanema hér á landi mælist með þunglyndi og má leiða líkur að því að hlutfall framhaldsskólanema sé ekki ósvipað. Þá eru sjálfsvíg algengasta dánarorsök ungra karla. Herferðin #égerekkitabú studdi þessar tölur en þar steig fram fjöldi fólks sem deildi sögum sínu af geðrænum vandamálum af ýmsum toga. Umræðan virðist því vera að opnast og skilningur að aukast. En betur má ef duga skal. Rætt hefur verið um að efla sálfræðiþjónustu inn á heilsugæslum landsins. Skrefin þangað inn geta þó reynst mörgum þung og eins getur það viðhaldið feluleik málsins. Með því að færa sálfræðinga inn í skólana eykur það sýnileika þeirra, þeir verða eðlilegur hluti af daglegu umhverfi nemenda og leiðin verður styttri. Þá er ónefndur kostnaðurinn við að leita sér sálfræðiaðstoðar en fáir nemendur hafa efni á að greiða 15.000 kr. fyrir stakan tíma. Nokkrir viðtalstímar geta í mörgum tilfellum komið í veg fyrir að vanlíðan aukist sem aftur ýtir undir líkurnar á því að nemendur hætti í skóla.

SÍF kallar eftir samtali við ráðamenn ekki seinna en strax þar sem útfærsla sálfræðiþjónustu verður rædd og síðan framkvæmd enda nemendur orðnir langþreyttir á að ráðherrar menntamála og heilbrigðismála bendi hvor á annan.

Haldin var hugmyndasamkeppni meðal nemenda í grafískri miðlun í Tækniskólanum um merki herferðarinnar og hannaði Sara Dís Hafþórsdóttir, nemandi á fyrri önn það merki sem nú má sjá í tengslum við herferðina á samfélagsmiðlum. Myndirnar má sjá hér fyrir neðan.

Ég þarf sálfræðiþjónustu og er framhaldsskólanemi.

Ég þarf sálfræðiþjónustu og er framhaldsskólanemi.

Ég þekki framhaldsskólanema sem þarf sálfræðiþjónustu.

Ég þekki framhaldsskólanema sem þarf sálfræðiþjónustu.

Ég er framhaldsskólanemi sem þarf sálfræðiþjónustu og þekki framhaldsskólanema sem þarf sálfræðiþjónustu

Ég er framhaldsskólanemi sem þarf sálfræðiþjónustu og þekki framhaldsskólanema sem þarf sálfræðiþjónustu

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: