Ályktanir frá sambandsstjórnarþingi SÍF 11.-12. nóvember

Framkvæmdastjórn

Á sambandsstjórnarfundi Sambands íslenskra framhaldsskólanema sem haldinn var í Menntaskólanum við Hamrahlíð 11.–12. nóvember 2017 voru eftirfarandi ályktanir samþykktar.

Þriggja ára kerfið

Innan skólakerfisins er almennur skortur á þekkingu og reynslu á þriggja ára kerfinu. Nemendur leggja til að komið verði á samráðsvettvangi þar sem reynslumeira starfsfólk miðlar þekkingu sinni til starfsmanna þeirra skóla sem nýverið tóku upp þriggja ára kerfið. Kennarar sem óvanir eru þriggja ára kerfinu eru oftar en ekki óskipulagðir og óöryggir og enn að laga sig að auknu símati.

Skortur er á kynningu hæfniþrepa innan skólanna og hæfniþrepaskipting óskýr. Ákveðnir grunnáfangar sem teljast undanfarar framhaldsáfanga hafa verið teknir út sem leiðir af sér að nemendur eru skildir eftir með lélegri grunn til áframhaldandi náms.

Með fjölgun áfanga á hverri önn, fjölgun símatsáfanga og skorti á samræmingu milli faga hvað varðar verkefnaskil, hefur álag á nemendur aukist meira en æskilegt er og ná þeir ekki að sinna náminu sem skyldi. Auk þess hefur álagið þær afleiðingar að nemendur geta ekki sinnt sínum persónulegum skyldum utan skóla sem aftur getur skapað félagslega einangrun. Endurskoða þarf námsmat til að jafnvægi sé á milli símats, prófa, og námsefnisins í heild sinni með tilliti til þess að nám hafi verið stytt um eitt ár.
Skortur á fjármagni til háskólanna mun leiða til þess að þeir verði ekki færir um að innrita þann fjölda nemenda sem útskrifast vorið 2018 en þá munu margir framhaldsskólar brautskrá tvo árganga. Sem dæmi má nefna þær námsgreinar innan háskólanna sem innrita takmarkaðan fjölda nemenda en í þeim greinum hefur plássum ekki verið fjölgað samhliða breytingum á menntakerfinu. Draga má líkur að því að fjöldi útskrifaðra framhaldsskólanema muni ekki geta sótt sér þá framhaldsmenntun sem hugur þeirra stendur til. Bein afleiðing þess verður dræm starfsvinda í íslensku samfélagi.

Sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum

Öllum framhaldsskólanemum skal vera tryggð gjaldfrjáls og aðgengileg sálfræðiþjónusta innan veggja skólanna. Allir nemendur sem á þurfa að halda eiga fá jafn marga gjaldfrjálsa tíma, óháð stærð skóla og staðsetningu. Mikilvægt er að sálfræðingar verði staðsettir í skólunum, hlutfallslega í samræmi við eftirspurn, ekki nægir að hann komi á nokkurra vikna fresti. Er það krafa nemenda að þjónustan skuli vera komin í framkvæmd eigi síðar en haustið 2018.

Einnig er afar mikilvægt að lögð verði aukin áhersla á fræðslu í skólum um geðræna heilsu. Mikil vitundarvakning hefur orðið undanfarin ár og hafa herferðir eins og #ÉgErEkkiTabú opnað umræðuna til muna. Frekari vinna til að draga úr skömminni sem oft fylgir því að eiga við geðræn vandamál er nauðsynleg og verða stjórnvöld að styðja við það átak.
Stjórnvöld, framhaldsskólanemendur og almenningur hafa mikilla hagsmuna að gæta, sjálfsvíg er algengasta dánarorsök ungra manna á aldrinum 18–24 ára og 44% nemenda ljúka ekki framhaldskóla á tilsettum tíma eða flosna úr skóla.

Stjórnvöld verða að fara að líta alvarlega á þá staðreynd að aukin sýnileiki og aðgengi að sálfræðingum getur bjargað lífi ungs fólks. Þetta mál verður að vera í forgangi og skora fulltrúar nemenda á Alþingi, heilbrigðisráðuneytið og menntamálaráðuneytið, að fara strax í aðgerðir og bæta stöðu framhaldsskólanema sem eiga við geðræn vandamál að stríða.

Félagsleg aðlögun innflytjenda og flóttamanna á Íslandi

Gæta þarf sérstaklega að hag ungra innflytjenda, flóttamanna og hælisleitenda í framhaldsskólum til að aðstoða þá við að finna sig í íslensku samfélagi.

Við viljum að skólakerfið hjálpi erlendum nemum að læra á íslenskt samfélag og styðji við þá í námi sínu, til dæmis með reglulegum fundum með námsráðgjöfum sem geta kennt þeim á kerfið og leiðbeint þeim. Mikilvægt er að leggja áherslu á íslenskukennslu án þess þó að aftra námi þeirra í öðrum fögum með því að kenna á íslensku þegar ekki er nauðsyn. Þörf er á sérstökum námsbrautum þar sem kennsla fer fram að jafnaði á ensku. Einnig er þörf á sértækum úrræðum fyrir nemendur sem tala hvorki íslensku né ensku, t.d.að bjóða þeim að sitja tíma sem kenndir eru á íslensku til að gefa þeim færi á að hlusta á málið.
Þá er lagt til að skólarnir fái nemendur til að vera tengiliðir/stuðningsfulltrúar erlendu nemanna í námi og félagslífi en mikilvægt er að þeir sem nýkomnir eru til landsins hafi greiðan aðgang að aðstoð.

Einnig er mikilvægt að nemendafélög þeirra skóla þar sem erlendir nemar stunda nám bæti aðgengi þeirra að félagslífi og bjóði þá velkomna í íslenskt samfélag, til dæmis með því að þýða viðburðaauglýsingar á fleiri tungumál og halda sérstakar kynningar á nemendafélaginu á erlendum tungumálum.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt

Start typing and press Enter to search

Ég er framhaldsskólanemi sem þarf sálfræðiþjónustu og þekki framhaldsskólanema sem þarf sálfræðiþjónustu
%d bloggers like this: