Fulltrúi Simon Cowell verður á söngkeppni framhaldsskólanna

Söngkeppni framhaldsskólanna verður endurvakin á næsta ári en keppnin var ekki haldin í ár, í fyrsta skipti síðan 1990. Keppnin verður haldin á Akureyri en Samband íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, hefur fengið utanaðkomandi aðila til þess að halda keppnina. Stefnan er að vekja keppnina aftur til lífs en síðustu ár hefur áhugi á henni verið lítill. Gert er ráð fyrir að erlendir aðilar úr tónlistarheiminum verði viðstaddir keppnina, m.a. fulltrúi frá útgáfufyrirtæki Simon Cowell.

„Síðastliðin ár hefur keppnin farið fram í samstarfi við Sagafilm og vegna umfangs hennar lent mikil vinna á framkvæmdastjórn SÍF við undirbúning. Af þeim sökum sá stjórnin sér ekki fært að vinna að þeim málum sem SÍF vildi beita sér fyrir; að gæta hagsmuna framhaldsskólanema,“ segir Davíð Snær Jónsson, formaður SÍF. Áhugi fyrir keppninni hafi verið lítill og fjármagn til þess að halda hana af skornum skammti. Hann segir þó að eftirspurnin eftir keppni eins og þessari sé enn fyrir hendi. „Við sjáum skóla sem nær að fylla Eldborg í Hörpu árlega í sinni undankeppni,“ segir Davíð en hins vegar voru aðeins 100 miðar seldir á aðalsöngkeppnina í fyrra. „Það lá því í augum uppi að nauðsynlegt væri að gera breytingar á formi keppninnar. Hana vantaði hjarta. Nemendur þurfa að upplifa að þeir eigi aðild að sinni keppni. Kynningarefni var ábótavant og engin hliðardagskrá í boði. Það leiddi til þess að keppnin var farin að snúast of mikið um framleiðslugildi en ekki stökkpall fyrir upprennandi tónlistarfólk,“ segir Davíð en stjórn SÍF ákvað að auglýsa eftir áhugasömum aðilum í ágúst sl. sem myndu vilja taka að sér að halda keppnina. „Við fengum nokkrar tillögur sem lagðar voru fram á aðalþingi SÍF í september. Ein tillaga var kosin og við höfum síðustu mánuði unnið að samningi við þá aðila sem ætla í samstarfi við okkur að vekja keppnina aftur til lífs. Meirihluti vinnunnar verður í höndum framkvæmdaaðila en almennar ákvarðanatökur verða í höndum sérstakrar söngkeppnisnefndar þar sem nemendur fá tækifæri til þess að móta keppnina í samráði við framkvæmdaaðila,“ segir Davíð.

 

Hefur lengi sóst eftir að halda keppnina

Umboðsmaðurinn Sindri Ástmarsson fer fyrir hópnum sem mun sjá um keppnina á næsta ári. „Ég hef í raun lengi sóst eftir þessu. Vinir mínir sáu um keppnina þegar hún var í hæstu hæðum á árunum 2007-2011 og ég vann eitthvað í kringum hana á þeim tíma. SÍF óskaði eftir hugmyndum um framkvæmd keppninnar og við vorum með mjög metnaðarfulla áætlun um hvernig við myndum blása lífi í þessa fornfrægu keppni sem hefur verið mikilvægur vettvangur fyrir ungt fólk á leið inn í tónlistarbransann,“ segir Sindri sem leggur sérstaka áherslu á að keppnin sé stökkpallur fyrir ungt fólk. „Það er aðalástæða þess að ég vildi komast inn í þetta; að uppgötva ungt hæfileikafólk sem gæti átt framtíðina fyrir sér í bransanum. Það er hægt að telja upp endalaus dæmi um fólk sem hefur vakið fyrst athygli á sér í keppninni. Glowie er t.d. frábært dæmi um söngkonu sem enginn hafði heyrt um og stígur sín fyrstu skref þarna. Vonandi getum við haldið áfram á sömu braut. Við ætlum að vera dugleg að tengja þetta unga fólk við reynt fólk úr bransanum hér heima og fara t.d. allir þátttakendur í gegnum vinnuhelgi þar sem þeir fá liðsinni landsþekktra söngvara og annarra sem hafa allir að markmiði að kreista fram það allra besta úr hverju atriði,“ segir Sindri en erlendir gestir verða einnig viðstaddir keppnina á næsta ári, m.a. fulltrúi frá útgáfufyrirtæki Simon Cowell, Syco, sem hefur marga af þekktustu tónlistarmönnum heims á sínum snærum. „Ég var á fundi fyrr á þessu ári hjá Syco-plötufyrirtækinu þar sem þeir voru að sækjast eftir því að semja við Glowie, sem ég er umboðsmaður fyrir. Þegar ég var að útskýra hvaðan hún kom inn á sjónarsviðið á Íslandi sagði ég þeim frá keppninni og útskýrði hugmyndina á bak við hana. Þeir urðu allir mjög áhugasamir og þó að við hefðum farið annað með Glowie hélt samtalið áfram um keppnina og hugmyndir um hvernig væri hægt að útfæra þetta erlendis. Einnig eru að koma menn bæði frá Noregi og Danmörku í sömu erindagjörðum en þessi keppni er séríslenskt fyrirbæri,“ segir Sindri og má því segja að keppnin á næsta ári geti orðið verulegur stökkpallur fyrir ungt hæfileikafólk hér á landi.

 

Keppnin haldin á Akureyri

Keppnin verður haldin á Akureyri á næsta ári og má segja að sannkallaðri framhaldsskólahátíð verði slegið upp í bænum. „Við stefnum á að halda keppnina í mars eða apríl á næsta ári en dagsetningin verður kynnt á næstu dögum. Við ætlum að vera með góða og heilnæma hliðardagskrá og gera meira úr þessu en áður. Það verður því stíf dagskrá fyrir krakkana um leið og þau koma norður á föstudeginum og svo verður dagskrá yfir daginn á laugardeginum, keppnin um kvöldið og svo dansleikur fram á nótt. Það ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi fyrir norðan þessa helgi,“ segir Sindri spurður út í hvað verði í boði fyrir gesti keppninnar. Ástæða þess að Akureyri verður fyrir valinu er sú að þar hafa fjölmennustu keppnirnar verið haldnar í gegnum tíðina en fyrirhugað er að á næstu árum muni keppnin ferðast víðar um landið. „Okkar tillaga er svo að fara á flakk með hana á næstu árum og halda hana helst í einhverju bæjarfélagi þar sem hún hefur aldrei verið haldin áður. Við höfum nefnt meðal annars Vestmannaeyjar, Egilsstaði og Ísafjörð sem dæmi fyrir árið 2019 en við munum kanna aðstæður um leið og keppninni 2018 er lokið,“ segir Sindri sem vonast til að vekja áhuga fleira fólks bæði á að koma á keppnina og horfa á hana en Sindri er í viðræðum um þessar mundir við sjónvarpsstöðvar um útsendingu frá henni. Þeir Sindri og Davíð eru bjartsýnir á að keppnin á næsta ári og dagskrá henni tengd muni takast vel. „Ég efast ekki um að Akureyrarbær muni iða af lífi og nemendur vera sjálfum sér og skólum sínum til sóma,“ segir Davíð að lokum.

Sara Pétursdóttir, Glowie, sigraði keppnina árið 2014 fyrir hönd Tækniskólans.

 

Fréttin birtist fyrst á k100.mbl.is, þann 14. desember 2017.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: