Þú gætir verið rekinn fyrir að vera hommi

Ritstjórn
Höfundur: Ritstjórn

Ísland hefur lengi vel verið talin vera einstök útópía fyrir hinsegin fólk. Hér á landi eru Hinsegin Dagar haldnir hátíðlegir ár hvert, og rúmlega þriðjungur þjóðarinnar mætir í Gleðigönguna til að fagna fjölbreytileikanum sem lifir og dafnar í íslensku samfélagi. Samkynja pör mega ganga í hjónaband og Páll Óskar er einn ástsælast tónlistarmaður þjóðarinnar. Þrátt fyrir þetta er réttindabarátta hinsegin fólks á Íslandi ekki komin jafn langt og við höldum.

Evrópusamtök hinsegin félaga (ILGA-Europe) gefa á hverju ári út svokallað Regnbogakort. Regnbogakortið er úttekt á réttindum og stöðu hinsegin fólks í öllum löndum Evrópu og er sú úttekt gerð eftir viðmiðum og skilyrðum ILGA-Europe. Löndin skipa svo sæti sem ákvarðast af því hversu mörg prósent af skilyrðunum þau uppfylla. Árið 2016 var tilkynnt að Ísland væri í 14. sæti á regnbogalistanum, með aðeins 59% af viðmiðunum uppfyllt. Það er 2 sætum lægra en við vorum árið á undan, með 63% skilyrða uppfyllt. Rétt er að minnast á að þrátt fyrir að prósentan lækki þá þýðir það ekki að Ísland sé að fjarlægja réttindi hinsegin fólks, heldur hafa skilyrðin tekið breytingum.

Eitt sem kom reyndar í ljós árið við gerð Regnbogakortsins árið 2016 var að Ísland hafði verið að fá stig fyrir löggjöf sem er ekki til hérlendis. Gert hafði verið ráð fyrir að það væri ólöglegt að reka einstakling úr starfi sökum kynhneigðar, en það er fullkomlega löglegt hér á landi. Þetta er staðreynd sem kemur mörgum á óvart, enda er Ísland kjörið dæmi um land þar sem að samfélagið stendur framar löggjafanum.  

Þetta er bara eitt dæmi af fjölmörgum um hvað vantar í íslenska löggjöf um rétt hinsegin fólks. Til að mynda er ekki neitt til sem segir um rétt intersex fólks, og eru ennþá framkvæmdar ónauðsynlegar skurðaðgerðir á intersex ungabörnum hér á landi. Réttur trans fólks er sáralítill enn, og þurfa trans einstaklingar fyrst að vera greindir með geðsjúkdóminn kynáttunarvanda áður en þeim er leyft að ganga í gegnum kynleiðréttingarferli. Svo má ekki gleyma hinsegin hælisleitandanum Amir sem var vísað úr landi fyrr á árinu. Hann er staddur í Ítalíu eins og er, og er mögulegt að hann verði sendur aftur til heimalands síns þar sem að hann er réttdræpur sökum kynhneigðar sinnar.

Ísland er því engin hinsegin paradís og við eigum ennþá mjög langt í land. Nú er bara spurningin hvað ætla ráðamenn þjóðarinnar að gera í þessu? Ætla þeir að sitja hjá og leyfa Íslandi að detta enn lengra aftur úr í baráttunni, eða munu þeir taka sig á og gæta mannréttinda þeirra minnihlutahópa sem minnst mega sín?

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: