Það sem ég hefði viljað vita áður en ég byrjaði að stunda kynlíf

Ritstjórn
Höfundur: Ritstjórn

Silja

Kynlíf elskan, tölum um þig og mig. Eða allavega um mig.

Ég byrjaði að stunda kynlíf sumarið eftir fyrsta menntaskólaárið mitt. Ég var spennt, stressuð og svo ung og óreynd. Ljúfir tónar Marvin Gaye í ástarballöðunni Sexual Healing slökuðu vissulega á taugunum þótt líklegast hafi það verið áfengið sem hjálpaði mest. Tilfinningarnar voru margar sem helltust yfir mig daginn eftir. Sú sem yfirgnæfði hinar var léttirinn. Ég fann fyrir létti yfir að þetta hefði ekki verið óbærinlega vont, það hefði ekki blætt og að þetta væri loksins búið. Ég var loksins búin að losa mig við meydóminn. Núna gat ég stundað það kynlíf sem ég vildi. Þetta er líklega það fyrsta sem ég hefði viljað vita áður en ég byrjaði að stunda kynlíf. Mýtan um hina örlagaríku stund þar sem þú “missir meydóminn” er rugl. Þú missir ekki neitt. Það hefur ekkert verið tekið frá þér. Sá hugsunarháttur að fyrsta skiptið er eitthvað sem þurfi að ljúka af er hinsvegar líka hættulegur. Fyrsta skiptið, rétt eins og kynlíf almennt, á að vera ánægjulegt fyrir báða/alla aðila. Mitt skipti var frábært og ég mun aldrei sjá eftir því. Ég vona að það sé reynsla sem flestra.

Ég vona einnig að sem flestir hafi heyrt tvö mjög mikilvæg orð. Kynferðislegt jafnrétti. Sjálf heyrði ég þetta hugtak fyrst í Ted talk þætti fyrir stuttu en mér fannst það undir eins vera svo viðeigandi. Það á ekki að stunda kynlíf til að þóknast einhverjum. Aðilunum á að líða vel í kynlífi og þora að segja hvað þeim finnst gott og ekki gott óháð kyni. Samskipti eru óendanlega mikilvæg. “þori ekki að vera ég sjálfur fyrir framan hana. Rúlla mér eina og við byrjum að tala saman” eins og skáldið sagði. Samskipti í kynlífi eru óendanlega mikilvæg eins og hann Floni veit.

Það á alltaf við. Alveg sama þótt kynlífið á sér stað í sambandi eða bara einnar nætur gaman.

Einnar nætur gaman getur verið mjög skemmtilegt en gott er að hafa í huga að það þarf ekki að vera meira. Þótt að hinn aðilinn biðji um númerið þitt þarftu ekki að gefa honum það og eiga hræðilegasta ástarsamband sem sögur hafa farið af sem endar á dramatískum sambandsslitum á rómantískum veitingastað við árbakka í Norður-Ítalíu. Það er allt í lagi að sofa hjá einhverjum og hitta manneskjuna aldrei aftur. Í sumum tilvikum hefði það verið nauðsynlegt.

Það sem er oft nauðsynlegt í kynlífi er smokkurinn. Allavega ef engin önnur getnaðarvörn er notuð og planið er ekki að komast í íslenska Teen Mom þáttinn sem ég er að vinna í að koma á Stöð 2. Ég býst ekki við að það séu til einhverjir raunveruleikaþættir um ungt fólk sem fær kynsjúkdóma en ef svo er mæli ég ekki heldur með að leika í þeim. Það er svo miklu auðveldara að nota smokkinn. Ég hefði viljað verið látin vita af því hve margir ætla sér ekki að nota smokk í kynlífi. Það hefði vissulega sparað mér 3 mánuði af áhyggjum yfir því hvort ég væri með klamydíu vegna þess að ég þorði/nennti ekki til kvensjúkdómalæknis. Ég hefði einnig viljað vita hvað skeiðasýklun, eða bacterial vaginosis, væri sem ég komst að að ég væri í raun með þegar ég dreif mig loksins til læknis. Til að taka það skýrt fram þá er það ekki kynsjúkdómur en deilir hinsvegar mörgum einkennum með klamydíu. Svona er kvenlíkaminn skemmtilegur.

Ég vona að núna sé ég ekki komin hættulega nálægt því að hljóma eins og íþróttakennarinn í Mean Girls sem varaði stöðugt við því að stunda kynlíf því afleiðingarnar yrðu undantekningarlaust klamydía og þar með dauði. Ég ætla að taka áhættuna á því og segja að kynlíf sé ekki hættulaust. Í kynlífi fara ýmsar bakteríur á kreik og því er mjög mikilvægt að manneskjur með píkur pissi eftir kynlíf. Mjög mikilvægt. Annars er hægt að fá þvagfærasýkingu og þú munt enn og aftur halda að þú sért mögulega komin með klamydíu. Þessu komst ég að fyrir nokkrum mánuðum á twitter. Tveimur árum of seint.

Allt getur gerst í kynlífi. Það er ekki heimsendir ef þú byrjar á túr í miðjum klíðum, píkuprumpar eða það er erfitt að koma honum inn. Það eru fleiri sem hafa lent í því. Munið bara að forleikur er gríðarlega mikilvægur sem og samþykki og samskipti.

Ég vona innilega að kynfræðsla verði gerð að áfanga í framhaldsskólum því ég er svo sannarlega ekki sérfræðingur þótt ég sé afar vitur.

 

Ónefndur strákur

Það er enginn eðlilegur aldur til að byrja að stunda kynlíf svo lengi sem það er á réttum forsendum beggja aðila.

Ég byrjaði að stunda kynlíf í sambandi sem ég tel vera kost, ef sambandið er heilbrigt. Í okkar sambandi gátum við rætt um kynlífið áður sem gerði það að verkum að það gerðist á náttúrulegan og eðlilegan hátt. Samt sem áður er alltaf hægt að fara yfir mörk og því er mjög mikilvægt að geta talað um það. Ég hefði viljað áttað mig betur á því hvað mörk fólks eru mismunandi og hversu mikilvægt er að gæta þess á öllum stundum að báðir aðilar séu sáttir. Eins gott og kynlíf er inniheldur það hættulegar breytur og það þarf að passa að það sé hvorki dansað á línu annarra né á þinni.

Ein af þessum breytum er tilfinningalegt gildi. Gott er að hafa í huga að kynlíf hefur mismikið tilfinningalegt gildi fyrir fólk. Það er því mjög mikilvægt að báðir aðilar hafi það á hreinu hvert eðli sambandsins sé utan kynlífsins. Ég hefði viljað gera mér grein fyrir hvað samskipti eru ótrúlega mikilvægur þáttur í kynlífi. Gott kynlíf er ekkert annað en samskipti með afar sérstakri líkamstjáningu.

Sem karlmaður með flöktrandi kynhneigð hefði ég viljað vita meira um samkynhneigt kynlíf áður en ég stundaði það fyrst. Eftir á að hyggja er það sú kynlífsreynsla sem rótaði hvað mest í tilfinningum mínum. Þar voru hlutir sem komu hvað mest á óvart. Það var ekki líkamlega hliðin heldur frekar andlegu þættirnir. Ég fann fyrst fyrir skömm að einhverju leyti í kynlífi. Í þessu atviki var dansað á bæði línunni og mörkunum. Samskiptin í kynlífinu voru ekki nógu góð til þess að halda þessu á góða svæðinu. Eftir á að hyggja horfi ég ekki tilbaka og hugsa um atvikið sem óþægilegt. Ég hefði hinsvegar viljað vita hvernig eigi að taka á því þegar báðir aðilar eru ekki á sama stað í kynlífi, þegar annar aðilinn er vanari á þessum grundvelli. Ég upplifði ekki jafningjasamband í kynlífinu.

Í samkynheigðu kynlífi eru engar reglur og engar hefðbundnar kynímyndir. Það er enginn sem á að taka eða vera tekinn. Þessi reynsla braut hinsvegar skemmtilega niður karlmannsímyndina sem ég finn að er 100% til staðar. Ég finn það því hún hindrar, heldur aftur af mér, minni tjáningu og tilfinningum.

Áfengi heldur oft aftur af manni líka. Kynlíf undir áhrifum áfengis leggur meiri áhættu í spilin. Það dregur úr ánægjunni.

Ég hefði viljað vita að það er í lagi að ná honum ekki upp. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því og það þarf ekki alltaf að vilja stunda kynlíf. Það er í raun það sem er hvað mest í lagi en hvað minnst viðurkennt. Að mínu mati er ekki heitt að finnast ekki vera búið að leggja grundvöll fyrir því sem koma skal.

Dýrmætast í þessu öllu er að átta sig á því hve mikilvægt er að koma til dyranna eins og þú ert klæddur (eða ekki klæddur). Að hafa ekkert að fela.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: