Líf með líkamsímyndunarröskun

„Einu sinni, þegar ég var táningur, sat ég inni í herberginu mínu á geðdeild og reyndi að útskýra fyrir hjúkrunarfræðingnum mínum hvernig það væri að vera með líkamsímyndunarröskun (sem ég trúði reyndar ekki þá að ég væri með). Það er sennilega ómögulegt að lýsa kvalræðinu sem því fylgir en mér kom til hugar ágætis fyrirkomulag til að skýra víðerni vandans. Ég leiddi hana fram á gang og sagði henni að hún skyldi labba að útidyrahurðinni án þess að sjá spegilmynd sína á leðinni. Hún fór af stað en ég stoppaði hana því hún hafði ekki passað sig á glerinu í gluggunum sem þekja aðra hlið gangsins. Nú skildi hún betur hvað ég meinti og prófaði aftur; í þetta sinn horfði hún einungis beint fram. En glerið í afgreiðslubúrinu varð á vegi hennar. Einnig gekk til móts við okkur læknir sem hún heilsaði án þess að átta sig á lítilli spegilmynd frá gleraugunum sem hann bar. Klósettdyrnar voru líka opnar og hún slysast til að líta inn þegar hún arkar fram hjá. Baðherbergisspegillinn blasir við. Ég segi henni að passa sig á hurðarhúnum – stundum eru þeir þannig að maður speglast í þeim. Hjúkrunarfræðingurinn er gáttaður og ég veit að markmiðinu var náð. Þannig er nefnilega mál með vexti að allt er spegill ef maður er hræddur við það sem birtist í honum. Síma-, tölvu- og sjónvarpsskjáir, hnífapör, bílhurðir, sturtugler, snyrtivörupakkningar, flöskur… jafnvel skuggamyndir geta sent mann á stað þar sem allt er tilgangslaust og framtíðin svo skelfileg að maður vill helst deyja strax.“

Hvað er líkamsímyndunarröskun?

Líkamsímyndunarröskun (e. Body Dysmorphic Disorder) er geðsjúkdómur sem hrjáir um 2% jarðarbúa, jafnt karla sem konur. Einkennin birtast sem óöryggi yfir eigin útliti og þráhyggja fyrir raunverulegum eða ímynduðum göllum. Flestir eru óánægðir með eitthvað í fari sínu og myndu gjarnan breyta ef þeim stæði það til boða. En líkamsímyndunarröskun, LÍR til styttingar, gerir fólki ókleift að lifa án stöðugra hugsana um ljótleika og lýtaaðgerðir. Það er algeng, en skiljanleg, rangtúlkun að LÍR sjúklingar séu hégómagjarnir eða yfirborðskenndir. En raunar hefur sjúkdómur þeirra lítið með útlit að gera. Hann er fremur ábreiða yfir illskaddaða sjálfsmynd. Margir þeirra sem af honum þjást neyðast til að hætta í skóla eða vinnu og eiga það til að einangra sig frá fólkinu í lífi sínu. Samt sem áður er samþykki annarra þeim gríðarlega mikilvægt og aðstandendur gætu þurft að þola þrálátar spurningar um hvort nefið sé bogið, brjóstin misstór eða bólurnar áberandi. En sama hvað LÍR sjúklingar heyra um sjálfa sig, trúa þeir eingöngu hinu neikvæða og það sem þau sjá í speglinum staðfestir þeirra versta ótta.

Hvað skal gera ef maður þjáist af LÍR?

Líkamsímyndunarröskun er langveiki og er í rauninni ólæknanleg. Það þýðir þó ekki að þeir sem hún hrellir, geti ekki lifað löngu og hamingjuríku lífi. Einkennunum er hægt að halda niðri með lyfjum og/eða samtalsmeðferð. Fyrsta skrefið, líkt og á öðrum sviðum, er að viðurkenna vandann. Oft er sjúklingnum hreinlega hulið að um sjúkdóm sé að ræða. LÍR er geðröskun sem helst í hendur við aðrar geðsjúkdóma, s.s. kvíða, þunglyndi og átröskun. Annað skrefið er að leita sér hjálpar frá fagaðila. Á Íslandi eru biðlistar til geðlækna langir og sálfræðitímar dýrir sem er algjörlega óásættanlegt vegna þess að viðeigandi aðstoð getur ráðið úrslitum. Þriðja skrefið er svo tekið út frá þörfum hvers og eins. Sjálfsstyrking og viðhorfsbreyting getur tekið langan tíma og krefst átaks af hálfu sjúklingsins. Í því felst að hann þarf að sleppa haldinu af hugsanaskekkju, sem hefur lengst af verið miðpunktur tilveru hans, og takast á við það sem að baki býr. Ástandið versnar áður en það batnar og það gerist ekki á einni nóttu. En í lokin er það þess virði. Líf með líkamsímyndunarröskun mun ávallt vera ljótt á köflum – en maður kann bara betur að meta fegurðina fyrir vikið.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: