Samkynhneigð í Egyptalandi

Sara Mansour

„Hommafælið fólk felur sig á bak við trúna.“

Mohamed er 29 ára verkfræðingur frá Alexandríu, næststærstu borg Egyptalands, sem hefur gaman af lestri, hlaupaíþróttum og söfnun mynta. Hann sker sig þó frá mörgum samlöndum sínum því hann er opinberlega samkynhneigður og er í ástarsambandi með öðrum manni. „Við erum búnir að vera saman í þrjú og hálft ár. Minn helsti innblástur eru hamingjusöm pör af sama kyni í Mið-Austurlöndum.“

Aðspurður segist Mohamed alltaf hafa vitað að hann væri ,öðruvísi‘ en það var um 13 ára aldur sem hann áttaði sig á eigin kynhneigð. Til viðbótar liðu 13 ár þar til hann kom út úr skápnum fyrir vinum og fjölskyldu. Jákvæðustu viðbrögðin komu frá félögum hans en þau neikvæðustu frá foreldrunum. „Ég varð þeim ókunnugur. Fjölda samkynheigðra er útskúfað af fjölskyldu sinni. Ég flutti út fyrir mörgum árum.“

Samkvæmt Mohamed er staða hinsegin fólks afar slæm í Egyptalandi. Verst er ástandið í Suður-Egyptalandi en þó er það ekki mikið betra annars staðar. Í landinu ríkja lög um samkynheigð, sem kveða m.a. á um að pör af sama kyni geti ekki gengið í hjónaband. Afstaða almennings til hinsegin fólks er afturhaldssöm og gerir líf þeirra erfitt. Mohamed hefur ekki upplifað mismunun í formlegum aðstæðum en kynheigð hans hefur oft leitt til vandræða á öðrum sviðum. „Almennt er ég andlega þenkjandi. Trúarbrögð hafa gríðarleg áhrif á félagslega stöðu mína. Hommafælið fólk felur sig á bakvið trúna.“

Mohamed er efins í garð framtíðarinnar fyrir hinsegin fólk í Egyptalandi. Sjálfur hefur hann reynt að heyja baráttu fyrir réttindum þeirra en árangurinn er afar takmarkaður. „Hér er enginn vilji fyrir hendi til þess að skilja samkynhneigð. Það er nauðsynlegt að einstaklingar og smærri einingar taki saman höndum gegn hatri, en til þess þarf fleira fólk að koma út úr skápnum.“ Það gætir vonleysis í svörum hans en þó telur hann breytingar ekki ómögulegar. „Ég vil óska Íslendingum til hamingju með framsækin viðhorf til samkynhneigðar og mannréttinda. Ef það er hægt að bæta ástandið þar [á Íslandi] þá er það líka hægt hér [í Egyptalandi].“

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: