Hyggja fortíðarinnar

Ritstjórn
Höfundur: Ritstjórn

„Ef þú hatar gyðinga, hatar flóttamenn, elskar hakakrossinn og heillast af Hitler, hvað ertu?“

Sjálf hef ég alltaf talið heiminn þægilegri stað þeim minni hætta sem er á að sofa óvart hjá frænda mínum, en það er bara ég. Að vilja afmarka samfélag eftir þjóðerni er alveg gildur kostur líka, ef þú ert hrifinn af sifjaspelli. Sumir eru það. Sumir átta sig ekki alveg á hvað er liðin tíð og hvenær sé komin tími til að leggja hlutina á hilluna. Ekki ólíkt sifjaspelli vil ég meina að þjóðernishyggja sé hyggja fortíðarinnar. Hyggja þess tíma þegar nauðsyn var á að skilgreina þjóðir til að varðveita menningararf. Þetta er nú bara einnar konu skoðun en menning er ríkust þar sem fjölbreytileikinn er mestur. Því gætu næstu skref mannkyns verið að blanda mismunandi hugmyndum og aðferðum frá ólíkum stöðum. Tökum til dæmis Taco Bell, hátind siðmenningarinnar: Taco Bell hefði aldrei orðið til ef Glen Bell, skosk-bandarískur maður, hefði ekki heillast af matreiðslu Texas fylkis og Mexíkó. Hugsið ykkur heim án Taco Bell. Óhugsanlegur, í raun og veru. En í stað þess að gera þessa grein fagnaðaróð til Taco Bell (eins og hún svo auðveldlega gæti orðið) ætla ég að pæla aðeins í þjóðernishyggjunni.

Frá því ég var lítil stelpa að hlaupa og hrasa um Laugarnesið hef ég átt mér stóran draum. Draum sem hefur leiðbeint mér í gegnum lífið og gert mig að konunni sem ég er í dag. Sá draumur er og var að kýla nasista. En því miður hafa árin kennt mér eitt og annað. Þar með talið að friðsæl mótmæli eru tvöfalt líklegri til árangurs. Það að mæta ofbeldi með ofbeldi magnar hættuna á því að réttlæta málstað þess sem maður mótmælir. Margir þessara jaðarbundnu hægrisinna vilja meina að samfélaginu sé stillt upp á móti þeim, að hvítir séu kynþáttur í útrýmingarhættu. Þeir líta á sig sem riddara sannleika, með það göfuga markmið að breiða hann út. Öll von er ekki úti því það er samt hægt að mótmæla á skemmtilegan en friðsælan hátt. Þýski hópurinn Hægri Gegn Hægri (Rechts Gegen Rechts) tók upp á því að notfæra sér nýnasistagöngur í Wunsiedel til þess að safna peningum fyrir and-fasista hópum. Breytt var venjulegri gönguleið nasistanna í hlaupabraut og hvatningarorð skreyttu göturnar. Fyrir hvern metra sem þeir gengu ætlaði bærinn að gefa 10€ sem yrðu að 10.000€ þegar gangan kláraðist. Peningurinn rann til EXIT-Þýskaland (EXIT-Deutschland) sem aðstoðar fólk í öfga-hægri hópum að koma sér örugglega úr þeim. Þannig breytti bærinn göngu nýnasista í göngu gegn nýnasisma.

Eitthvað sem mér finnst einstaklega heillandi við netið er að ég get alltaf fundið einhvern sem hugsar aðeins eins og ég. Að sama skapi finnst mér ógnvekjandi að menn eins og David Duke, fyrrum forseti KKK, geta einnig alltaf fundið einhvern sem hugsar aðeins eins og þeir. Ég, líkt og öll djúpþenkjandi ungmenni, hef dundað mér við að hlusta á nýnasista hlaðvörp af og til. Þaðan komst ég að þeirri merkilegu staðreynd að jaðarbundnir hægrimenn og þjóðernissinnar eru ekki hrifnir af því að vera ávarpaðir sem nýnasistar. Þetta vekur upp álíka merkilega spurningu: Ef þú hatar gyðinga, hatar flóttamenn, elskar hakakrossinn og heillast af Hitler, hvað ertu? Nei, þetta er ekki gildra. Svarið er, eins og þú gætir hafa getið þér til um: NASISTI. Í myrkustu kimum netheimanna er nefnilega lifandi samfélag þjóðernishyggju, nýnasisma, rasisma og almennrar mannvonsku. Þannig hefur það verið undanfarin ár, en eitthvað er að breytast. Auðvitað höfum við öll grunað þessa örfáu snoðuðu vini um að bera í brjósti sér væga nýnasistadýrkun en það er ekki jafn auðvelt að meta hver er nýnasisti og það var á sjöunda áratugnum. Það er ekki lengur hægt að líta á hermannastígvél og rakaðan haus sem tryggingu fyrir jaðarhugmyndum. Nýnasistar nútímans geta alveg eins verið óþægilegir gaurar í jakkafötum sem segja stundum skrítna hluti þegar tal berst að því sem skiptir máli. Atburðir Charlottesville hafa breytt einhverju. Hvort sem ljósið sé farið að skína á þetta samfélag eða myrkrið að hellast yfir annað er ekki mitt að segja. Það er hins vegar víst að með því að færa hreyfinguna fram í ljósið geta þeir orðið kyndilberar fáfræðinnar, skínandi leiðarvísir fyrir þá sem finnst þeir smánaðir af fjölmenningu.

Ég skil ekki að labba út úr samfélagsfræði í sjöunda bekk, með myndir af hakakrossum og fangabúðum brenndum á sjónuna, og geta hugsað: „Svona vil ég vera“. Kannski missti ég af einhverjum sjarma, kannski fór dýrðin framhjá mér en ég þarf bara að spyrja: Hvers konar gróðrarstía haturs þarf heimurinn að verða til að endurvekja nasismann, minna en öld eftir að hann framdi sínar mestu hremmingar? Það er kannski ekkert svar við þeirri spurningu. Það er kannski ómögulegt að fullvissa að helförin verði alltaf mesti hryllingur nasismans.

 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: