5 skref til þess að verða skipulagðasta útgáfan af sjálfum sér

Sara Mansour

Lífið er fellibylur sem er stundum erfitt að standa af sér. En gott skipulag á því sem við höfum stjórn á getur verulega auðveldað hitt sem er utan okkar valds. Með þessum 5 skrefum til skipulagðari tilveru getur þú stórlega aukið skilvirkni og þægindi í lífi þínu.

Finndu hvar skipulags er ábótavant

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að fyrsta skrefið sé kortlagning á vandanum. Flest okkar höldum ágætis skipulagi á ákveðnum sviðum lífsins meðan önnur geta verið full af óreiðu. Komdu í veg fyrir að verkefnið virðist óyfirstíganlegt með því að velja eitthvað eitt sem krefst umbóta og einbeita þér að því.

Dæmi: Skóladótið þitt er í algjöru f****; taskan er að slitna undan þunga bókanna sem þú ert ekki alveg viss um hvort þú áttir yfir höfuð að kaupa, glósurnar eru skrifaðar á lánsblöð og servíettur, pennaveskið er fullt af yddurum en vantar blýanta og einhvers staðar frá er lykt af úldnu nesti. Það er kominn tími til að gerast ábyrgur námsmaður og taka frá helgi til þess að endurskipuleggja sig.

Rífðu niður og reistu aftur

Skipulagning á drasli er svolítið eins og að endurfæðast – maður verður að snerta botninn, maður verður að DEYJA áður en ferlið getur raunverulega hafist. Þess vegna er skref númer tvö einfaldlega að grafa upp allan skítinn svo þú getir byrjað með hreinan skjöld.

Dæmi: Það er ekki nóg að taka upp fagmöppuna en skilja restina eftir í skólatöskunni. Þú þarft að tæma hvert einasta hólf og skella henni svo í vélina. Þar á eftir þarftu að opna allar stílabækur og hreinsa þær að innan. Sorteraðu glósur, verkefni, æfingarpróf o.fl. gróflega niður til þess að hafa yfirsýn og geta unnið þig í gegnum hvern part sérstaklega.

Ekki láta deigann síga

Þegar þú ert búin að flokka allt niður í frumeindir sínar þá getur það sem framundan er litið út fyrir að vera yfirþyrmandi og þér liðið eins og uppgjöf sé árennilegasti kosturinn. En þá er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að halda áfram. Skref 3 er að forðast sjálfsvorkunn. Von bráðar muntu sjá fyrir endann og þá tekur við sigurtilfinning og stolt.

Dæmi: Bunkarnir hafa breyst í turna og allt í einu finnst þér vera klikkun að ætla að hreinskrifa og litakóða margra mánaða skólastarf. Það er ekkert athugavert að taka sér pásu en ekki gera það meðan þú ert í umræddu hugarástandi. Hugsaðu frekar um árangurinn og nytsemd verksins. Smám saman verður allt skýrara og hver eining færir þig nær markmiðinu.

Kláraðu með einhverju EXTRA

Öllu lýkur einhvern tíma og endurskipulagning er þar ekki undanskilin. Þá getur verið freistandi að fagna með smá upplyftingu eða blundi – en ekki ganga frá vinnu þinni án þess að vera viss um ágæti hennar. Síðan skaltu enda á slaufu (einhverju sem fer fram úr sjálfmiðuðum væntingum þínum og lætur þig vilja varðveita afurð erfiðis þíns).

Dæmi: Nú þegar allt virðist komið í réttan farveg skaltu framfylgja skipulaginu til enda og raða öllu eins og þú værir að fara í skólann. Sem slaufu gætirðu til dæmis keypt þér nýja tösku undir námsgögnin, sýnt vinum þínum ferlið á samfélagsmiðlum, verðlaunað þig með ís eða notast við annað sem virkar hvetjandi.

Viðhaltu skipulaginu

Skref 5 er sennilega strembnasta stykkið fyrir fólk sem er ekki endilega skipulagt í eðli sínu. Þegar allt er í toppstandi getur verið tælandi að slaka á kröfunum og leyfa hlutunum að falla aftur í fyrra form. Til þess að afstýra slíku þarf einfaldlega viljastyrk. Það kemur þannig yfirleitt í ljós hverjir hafa færnina í að tileinka sér skipulagðan lífsstíl og hverjir  ekki. Sem betur fer er hamingjan því óháð þótt vitaskuld finni sumir innri frið með röð og reglu hið ytra.

Dæmi: Skóladótið þitt hefur aldrei verið skipulagðara og vekur aðdáun samnemenda þinna. En breytir það einhverju fyrir almenna vellíðan þína? Ef svo er, dásamlegt! En ef ekki, er óþarfi að eyða frekari tíma og orku í það. Öll erum við ólík og skipulag er afstætt. Lífið snýst ekki bara um að standa af sér fellibylinn, heldur líka að læra að njóta sín í honum miðjum.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: