Hvíta tjaldið: Er hvítþvottur Hollywood ,negragervi‘ nútímans?

Sara Mansour

Seinustu árin hefur leikaraval og samsvörun ólíkra kynþátta verið mikið hitamál í bíóborginni Hollywood sem nær jafnan hámarki í kringum Óskarsverðlauna afhendinguna. Þetta er umræða sem má rekja langt aftur í kvikmyndasögunni eða síðan tíðkaðist að sverta andlit hvítra manna og setja þá í ,negragervi‘ (e. blackface). En á hvaða hátt eru leifar þessa niðurlægjandi atferlis á lífi? Og hvað getum við gert til þess að uppræta kynþáttahyggju í Hollywood?

Hollywood er hvít á litinn

Það er þekkt staðreynd að meirihluti skrifaðra persóna eru hvítar á hörund og leikararnir valdir eftir því. Einföld úttekt á aðalhlutverkum seinasta áratuginn sýnir að hátt í 80% voru leikin af kákasísku fólki. Svipaða sögu er að segja af aukahlutverkum en þá sjaldan sem aðrir kynþættir stigu í sviðsljósið var það til að draga upp mynd af lötum innflytjanda, reiðri blökkukonu eða klikkuðum Asíubúa. Á skjánum sjást Arabar nánast undantekningalaust sem hryðjuverkamenn. Allt eru þetta skaðlegar staðalímyndir til að byrja með og misnotkun í gróðaskyni bætir einungis gráu ofan á svart (eða hvítt í þessu tilfelli).

Hvítir leika hvíta og alla aðra líka

En hvað gerist þegar persónurnar eru óumflýjanlega af öðrum kynþætti en hvítum? Til dæmis þegar sagan á sér stað í Asíu eða Egyptalandi til forna? Ráðning leikara af umræddum bakgrunni hlýtur að vera eini möguleikinn í stöðunni? En aftur og aftur sjáum við Hollywood annað hvort breyta sögunni þannig að ráðning hvítra leikara sé réttlætanleg eða að hvítir leikarar fá hlutverkin á þeim forsendum að lítilsháttar útlitsbreyting geri þá sannfærandi í hlutverki sínu. Ef við skoðum áðurnefnt ,negragervi‘ í sögulegu samhengi má sjá ýmsar hliðstæður. Leikhús- eða kvikmyndasenur sem fjölluðu um blökkumenn voru túlkaðar af hvítum leikurum með svert andlit vegna þess að blökkufólkið sjálft þótti ekki nógu mennskt til að taka þátt í menningunni. Leikurinn fólst oft í því að mála þau fáfróð og villimannsleg í hegðun ásamt því að taka mikilvæga hluta úr menningu þeirra og smána þá. Í dag fá brúnir leikarar ekki tækifæri til þess að túlka raunir og fögnuð fólks úr eigin menningu en sjá hins vegar hvíta leikara gera það eftir að líkamar þeirra hafa verið málaðir með brúnkukremi og andlitið sólarpúðrað. Þessir leikarar skipta um kynþátt eftir hentugleika meðan þeir sem raunverulega hafa lit í húðinni sitja hjá.

Litum tjaldið

Um þessar mundir eiga sér stað straumhvörf í Hollywood sem og annars staðar í heiminum þegar kemur að fjölbreytileika. Æ fleiri auglýsendur og umboðsskrifstofur leggja sig fram við að sýna þverskurð af samfélaginu til þess að tryggja að allir geti samsvarað sig við einhvern. Rannsóknir sýna að þessi þróun hefur í för með sér jákvæðari sjálfsmynd fólks af ólíkum uppruna og aukið sjálfstraust hjá fólki í mismunandi stöðum. Einnig mun þetta minnka fordóma í garð þeirra jaðarhópa sem hingað til hafa ekki notið sanngjarnrar framsetningar í kvikmyndum. Jafnrétti þýðir að allir vinna. En til þess að rífa niður núverandi uppbyggingu leikaravals í Hollywood þarf róttækar aðgerðir. Flestir kannast við Bechdel prófið sem skoðar sýnileika kvenna í kvikmyndum. Sömuleiðis á Kvikmyndasjóður Íslands að styrkja stöðu kvenleikstjóra eða sögur um konur. Ein hugmynd til umbóta í kynþáttamálum Hollywood væri svipaður mælikvarði á þátttöku fólks af öðrum kynþætti en hvítum. Handrit sem legðu áherslu á reynsluheim þeirra hefðu ákveðið vægi í ákvörðunum um fjárúthlutanir og almannaálit myndi þrýsta á valdhafa að velja leikara sem ættu við. Hver og einn einstaklingur ætti að fræða sig um þetta mikilvæga málefni. Því það er einungis með sameiginlegu átaki allra viðkomandi, allt frá framleiðendum til áhorfendans, sem við getum opnað fyrir litadýrð í hingað til hvítþvegnu Hollywood.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: