Bækur sem breyttu lífi mínu

Ég veit um fátt annað sem hefur mótað mig á sama hátt og bækur. Bókmenntir hafa verið mótunarafl í mínu lífi síðan ég las heila bók í fyrsta skiptið. Bæði í samskiptum við aðra og sjálfa mig.

Ég ímynda mér að lífið sé fullt af litlum götum sem þarf að fylla með eigin vitneskju, svo tilgangur lífsins gangi upp og samsvari sig við lífssýn hvers og eins. Þær bækur sem ég hef lesið í gegnum tíðina hafa hjálpað mér að komast að því hvaða gildum ég vil fylgja í eigin lífi. Hvort bækur séu virtar og verðlaunaðar skiptir mig í raun ekki máli. Fyrir mér eru bækur til þess að næra hjartað og hjartalag hvers og eins er einstakt.

Stundum hafa bækur hjálpað mér að græða mín eigin sár, verið mér félagsskapur á þeim tímum sem ég hef staðið eins míns liðs gegn erfiðum áskorunum og verið mér gluggi inn í annan, fallegri heim í gráum hversdagsleika lífsins. Orð og setningar geta verið gott veganesti fyrir sálina því stundum þarf ekki nema setningu skrifaða af ókunnugum penna í ókunnugu landi, til að lækna öll okkar mein.

Harry Potter seríurnar

Fyrsta bókin sem ég las kenndi mér að lesa. Ég var nýbúin með þriðja bekk og sumarið beið mín þegar mamma kom heim með fyrstu bókina í Harry Potter seríunni. Ég hafði allan veturinn barist við hægan lestur og var að verða aftur úr jafnöldrum mínum. Mamma sagði að ég hefði þrjá mánuði til að koma mér í gegnum bókina og að hún og pabbi myndu hjálpa mér. Til þess að hvetja mig enn meira sagði hún að ef ég gæti klárað bókina mætti ég sjá myndina.

Viti menn, einni viku seinna hafði ég klárað fyrstu bókina og á tveimur dögum kláraði ég þá næstu, Harry Potter og Leyniklefinn. Lestrarævintýri mitt hófst með ævintýrinu um galdrastrákinn Harry Potter. Þegar ég kláraði síðustu bókina varð ég miður mín, sem betur fer gat ég huggað mig við það að ég átti þá og á enn margt eftir ólesið.

Anne Frank

Ég man ekki nákvæmlega hvenær ég las Anne Frank, en sagan hefur setið í mér síðan. Anne Frank er dagbók ungrar stelpu sem fór í felur ásamt fjölskyldu sinni í seinni heimsstyrjöldinni. Þau áttu að vera send í útrýmingarbúðir að sökum þess að þau voru gyðingatrúar, en fóru í felur árum saman. Meira segi ég ekki, ef þú hefur ekki lesið Anne Frank þarft þú kæri lesandi að gera þér ferð á bókasafnið undir eins.

Halldór Laxness

Heimsljós er ein fallegasta bók sem ég hef nokkurn tíma lesið. Hver lífsspekin á eftir annarri kemur úr þessu verki. Ég hef unnið á öldrunarheimili í næstum ár. Það sem ég lærði í gegnum söguna um Ólaf Kárason Ljósvíking gagnast mér á hverri einustu vakt. „Gamla konan gekk sjálf á eyrina og tíndi upp beinin, og það voru önnur lítil bein. Hún saumaði utanum þau öll og lagði þau í kistustokk og fylgdi þeim til grafar og gekk síðan aftur heim til að elska þá sem lifðu.“ (Heimsljós). Bækur sem veita hjálparhönd í hversdagslegum verkum eins og helgar vinnunni eru auðvitað ómetanlegar. En stundum koma tímabil þar sem verðleiki bókmennta og listar liggur í eiginleika þeirra til að koma okkur í gegnum ástarsorg. Því ætla ég að enda frásögn mína um Heimsljós á eftirfarandi tilvitnun: „Sá dagur kemur að maður gleymir þeim sem maður hefur elskað. Þann dag getur maður dáið rólegur. Dýpstu sárin gróa svo lítið ber á.“ (Heimsljós)

Ég og þú – Jónína Leósdóttir

Í gegnum tíðina mun unglingsstúlka reka sig á margar ástarsögur sem dásema óheilbrigða hegðun og framkomu í sambandi. Ég og þú er ekki ein af þeim sögum. Bókin segir frá ævintýralegu ástarsambandi tveggja ungra kvenna. 

 

Einn dagur – David Nicholis

Ég lánaði einu sinni góðum vini þessa bók í von um það að hann myndi átta sig á því að hann væri að gera mikil mistök. Ég fór í gegnum alla bókina aftur og merkti við mikilvægar tilvitnanir og skrifaði sjálf inn í bókina til útskýringar. Þessi vinur las bókina aldrei. Opnaði hana ekki einu sinni. Síðan þá höfum við ekki verið miklir vinir, mér fannst það hreinlega karakterleysi að fletta ekki einusinni í gegnum lánsbók. Enn þann dag í dag ímynda ég mér stundum hvernig líf hans væri ef hann hefði bara flett í gegnum bókina. En kannski hefði ég ekki átt að vera svona tilgerðarleg, bara sagt vininum til syndanna og þá hefði allt farið á annan veg. Boðskapur sögunnar: Bækur skipta máli, hvort sem þær eru lesnar af þér eða kunningja sem notar bókina til að vara þig við.

Einn Dagur fjallar um vináttu, ást, uppvaxtarár og tímasetningu. Hins vegar er það þemað en ekki umfjöllunarefnið sem skiptir máli í þessari bók. Þemað er í raun staða okkar á mismunandi tímum í lífinu. Stundum upplifum við skelfileg ár, en við megum ekki láta þau ár skemma fyrir þeim sem á eftir koma. Lífið er eins og íslenskt veður, við verðum að hafa með okkur föt til skiptanna.

 

Kæri framhaldsskólanemi, ef þú hefur ekki enn uppgötvað fegurð lestursins þá hvet ég þig til þess að nýta sumarið sem nú nálgast. Það skiptir ekki máli hversu mikið eða hversu hratt þú lest. Það skiptir heldur ekki máli hvort þú lesir afþreyingar bókmenntir eða fagurfræðilegar bókmenntir. Virtar bækur eða lítið þekktar bækur. Það eina sem skiptir raunverulega máli er hvernig þú nýtir þau orð sem höfundurinn hefur gefið þér til að auðga eigin líf.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: