Að brosa í gegnum Bell’s Palsy

Saga Karítas Björnsdóttir skrifar

Alla mína ævi hefur minn allra stærsti eiginleiki verið brosið mitt, ég hef alltaf verið kennd við það að vera alltaf brosandi og voða næs. En ég vann bros Laugalækjarskóla í 10. bekk og bros bekkjarins fyrsta árið mitt í Menntaskólanum við Sund, árið þar á eftir var ég kjörin beauty. Fyrir mér hefur persónuleiki alltaf verið mjög mikilvægur þáttur í fari allra og sérstaklega minnar sjálfrar. Lengi hef ég haft áhuga á sjálfsmynd ungra stúlkna og bölvað óraunverulegum staðalmyndum kvenna.

Allt sem ég nefni hér á undan er fullkominn sannleikur en ég byrjaði að efast um gildi minnar eigin sjálfsmyndar fyrir tveimur dögum. Ég fór með vinkonu minni á bleikan dag í Kringlunni, einhverntíma í september, eftir að hafa sofnað eftir skóla í ábyggilega 4 eða 5 tíma. Mér sveið ólýsanlega í hægra auganu og þar sem ég nota linsur taldi ég þetta bara vera enn eina augnsýkinguna. Klukkan var um 9 á fimmtudagskvöldið þegar minn eðlilegasti eiginleiki varð hinn óeðlilegasti. Ég fann fyrir eins og deyfingu hægra megin á andlitinu og eitt munnvikið vildi ekki lyftast eins og það gerði alltaf áður. Vinkonur mínar þekkja brosið mitt langar leiðir en þegar ein spurði hvort ég væri deyfð fattaði ég að þetta væri ekkert grín. Í fyrsta skipti um ævina gat ég ómögulega kallað fram bros.

Ég fann fyrir óvenju miklum höfuðverk í byrjun sömu viku en tengdi þetta í rauninni ekkert, mamma var sofnuð þannig ég nefndi þetta aðeins við pabba. Mig langaði alls ekki að stressa mig yfir þessu og hvort að það hafi verið afneitun sem sannfærði mig um að allt væri í lagi eða bara óskynsemi þá fór ég að sofa sallaróleg þetta sama kvöld.

Morguninn eftir vaknaði ég um 8:20 og eins og flesta morgna byrjaði ég á því að bursta, ég skirpti í vaskinn eins og svo oft áður. Munnurinn vildi ekki beita sér eins og er eðlilegt fyrir hann að gera og það var þá sem ég fattaði að það væri eitthvað mikið að, ég fékk þá fyrsta pannikkið” mitt og hljóp grátandi til mömmu. Mamma sagði mér seinna að það hafi verið eins og ég hafi fengið vægt heilablóðfall. Við brunuðum á bráðamóttökuna snemma þennan föstudagsmorgun, það var smá bið á biðstofunni en eftir það fórum við beint í gegn, ég fékk dálitla skoðun hjá lækni sem sagði öll einkenni benda til að þetta væri Bells Palsy. Bells er ástand eða condition” á ensku og ákveðin taug sem fer úr heilanum í andlitið hefur skaddast, ég fékk lyf og er núna að vona það allra besta. Þetta gæti í besta falli verið farið eftir 2-3 vikur, það er nú ekki svo slæmt.

Eins og staðan er núna næ ég ekki að hrukka hægri hliðina á enninu, ég get ómögulega fitjað upp á nefið og varla sagt bókstafinn B. Ég á mjög erfitt með að borða morgunkorn og ég get alls ekki lokað hægra auganu nema að loka hinu, það lokast ekki alveg og skýrir þess vegna sviðann í auganu. En fyrst og fremst missti ég einkenni mitt, mín fyrstu viðbrögð þegar ég finn að ég sé að fara að brosa er að fela það, annaðhvort bakvið símann eða hendina. Brosið mitt, sem ég var svo stolt af því að hafa er núna eitthvað sem mig langar alls ekki að þurfa að sýna. Eðlilegasti hlutur minnar veraldar varð óeðlilegur á einu kvöldi.

Ég veit og fagna því að þetta sé tímabundið ástand sem gæti að sjálfsögðu verið verra en ég skammast mín samt. Í gær fór ég út að borða með vinkonum mínum og mig langaði ekki að láta taka neina sætamynd af mér af því ég vissi vel að ég gæti ekki verið sæt. Húmorinn fer samt ekki langt og ég er þess vegna bara að gera grín að þessu, ég held að það sé miklu auðveldara. En ég missti ákveðinn hluta af mér svo skyndilega og tek eftir öðruvísi viðmóti frá fólki sem veit ekki betur. Það eru ákveðin viðbrigði og tilfinningar sem myndast þegar ég lít í spegil og álíka, mig langar ekki sérstaklega út og ég hugsa stanslaust um að snúa ekki lömuðu hliðinni að fólki þegar ég tala við það.

Mér finnst svo ótrúlegt að vera ánægð með mig einn fimmtudagsmorgun en svo gerist eitthvað sama dag sem fær mig til að vilja fela mig. Af því ég brosi öðruvísi? Af hverju er ég ekki nógu ánægð með mig til að standa á sama hvað öðrum finnst um eitthvað sem ætti ekki að skipta mig neinu máli? Hvenær myndaðist samasem merki á milli þess að vera ánægð með mig og þess hvernig ég brosi eða hversu mörg kíló ég er?

 

Fyrsti skóladagurinn

Þetta er ekki eins hræðilegt og ég hélt. Ég fann hvernig ég varð svo berskjölduð eftir að hafa misst þennan skjöld sem ég hafði myndað mér. En á einhverjum tímapunkti í dag áttaði ég mig á því að stríðsmaður missir ekki allan mátt við það að týna skyldinum sínum. Hann hefur í raun aðeins fengið tækifæri til að blómstra, en þetta er tækifæri sem er mjög auðvelt að missa af. En er stríðsmaður í alvörunni ekkert meira en maður bakvið skjöld? Er ég ekkert meira en stelpa með fallegt bros? Brosið mitt er mér í fyrsta skipti ekki til varnar en er þá tími til að gefast upp?

 

Það gerði mig reiða eða pirraða að hugsa um hvernig svo margir gætu lifað eðlilega þrátt fyrir þessi veikindi. Að ég hafi gert eitthvað eins og brosið mitt svona einstakt að heimurinn gæti hrunið ef ég missi það. Er ég hugsa til baka um slæmu sjálfmyndina mína sem myndaðist í lok grunnskóla, um kvöldin fyrir árshátíð þar sem ég horfði í spegilinn og bölvaði sjálfri mér, átta ég mig á hvernig titillinn brosið” gerði mig stolta af sjálfri mér í allavega eitt kvöld. Sama má segja um árshátíðirnar í MS, en ég hef alltof lengi verið með slæma sjálfsmynd og brosið mitt hefur alltaf verið eins og svona áminning um að ég hafi eitthvað sem er einhvers virði. Mér þykir greinilega ekki mikið meira til mín komið. En að hugsa um liðin ár og hugsa hvernig þau hefðu verið án þessa stuttu augnablika þar sem ég horfði stolt í spegilinn er mjög erfitt. Þrátt fyrir að þetta hafi verið lítil augnablik þá eiga þau merkan stað í hjarta mínu og hver ég væri án þeirra er eitthvað sem mig langar aldrei að þurfa að svara.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: