Yfirlýsing vegna fyrirhugaðrar yfirtöku Tækniskólans á Fjölbrautaskólanum við Ármúla

Framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn Sambands íslenskra framhaldsskólanema fordæmir þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við ráðgerða yfirtöku Tækniskólans á Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Yfirtakan virðist alfarið hafa verið ákveðin og skipulögð af menntamálaráðuneytinu og skólameisturum án samráðs við nemendur og kennara innan skólanna tveggja, en báðir hópar eiga mikilla hagsmuna að gæta. Þá hafa upplýsingar til þeirra aðila sem yfirtakan snertir sem og almennings verið mjög takmarkaðar og óskýrar.

Ljóst er að yfirtakan skapar óvissu í námi hjá þeim nemendum sem eru að sækja um skólavist næsta skólaár og ekki síst þeim sem nú stunda nám við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Val á framhaldsskóla snýst mikið um staðsetningu skólans. Nemandi sem stundar nám nálægt sínu heimili, í þessu tilfelli Fjölbrautaskólanum við Ármúla, gæti átt von á að þurfa sækja námið í Hafnarfjörð eða á Skólavörðuholtið. Einnig vita nemendur ekki hvernig námsbrautum verður háttað og óvissa ríkir um hvort einhverjar brautir verði lagðar niður og/eða sameinaðar milli skóla. Þá er við því að búast að nemendafjöldi innan brauta breytist.

Þá má einnig benda á að ef að yfirtökunni verður mun innritunargjald nemenda Fjölbrautaskólans við Ármúla hækka til muna. Það er nú 6.000.- kr auk 7.500.- kr efnis- og þjónustugjalds en samkvæmt heimasíðu Tækniskólans er skráningargjald flestra námsbrauta ýmist 33.670.- kr eða 43.350.- kr en skráningargjald í bóknámið kostar 20.200.- kr ef greitt er á gjalddaga (einstaka brautir eru dýrari/ódýrari).

Ákvarðanir á borð við þá sem hér um ræðir eiga eðlilega að vera í samræmi við ákveðna menntastefnu sem samþykkt hefur verið eftir lýðræðislega umræðu en ekki eftir hentugleika menntamálaráðherra hverju sinni. Enn hefur ekki farið fram umræða um stóru spurningarnar í þessu samhengi, sem eru: „Viljum við að allt ungt fólk á Íslandi eigi þess kost að fara í framhaldsskóla?“ og „viljum við að framhaldsskólar landsins séu opnir þeim sem eru eldri en 25 ára?“ Ef þjóðin er á þessari skoðun, þá þurfa að fylgja fjármunir til að framfylgja því. Augljóst er að ákvörðunin sem hér um ræðir er eingöngu tekin á rekstrarlegum forsendum til skamms tíma en ekki í stærra samhengi þar sem hugað er að hagsmunum ungs fólks og menntunarstigi þjóðarinnar til framtíðar.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: