Ungfrú Ísland – og fleiri ljóð

Ritstjórn

Ungfrú Ísland

Stundvís og stéttvís og
stoð undir feðranna veldi,
alsæl hún espir í
anorexíunnar eldi.

Skammar þær skammsýnu:
Skammastu þín fyrir kroppinn.
Virðing og verðgildi
veita þér leið upp á toppinn.

Toppinn sem táningar
tilbiðja blindir og elta
ælandi undrandi
af hverju þeir skulu svelta.

Koss fyrir kappið fær
kapítalsmásálin drjúga:
Þú stendur þig vel og
þekkir hvað áfram skalt sjúga.

Enn trónir ungfrúin
uppi á plastpokafjalli.
Sér ekki samfélag
sem bíður eftir hún falli.

Vitundarvakningin
veltur á þeim sem að lifa.
Hvað gerir hver og einn?
Hvernig mun klukkan þín tifa?

Baldvin Flóki Bjarnason

 

Skúffuskáld

Eina leyndarmálið
í náttborðsskúffunni
er titrari.

Því ég er kona;
á ekki að hafa áhuga,
á ekki að njóta kynlífs,
á ekki að snerta klofið.
Það er ekki dömulegt
að láta sjálfri sér líða vel.

Og ekki tala um sjálfsfróun
við vinkonurnar,
né vinina
sem runkuðu sér alla helgina.

Leyndarmál,
undir sæng og ofaní skúffu.
Leyndarmál,
því ég er kona
og af einhverjum ástæðum,
þykir það feimnismál að ég
runki mér.

Eva Dröfn H. Guðmundsdóttir

 

 

Vissirðu
að konur
hrjást
af járnskorti
eingöngu vegna þess að
þeim blæðir
einusinni í mánuði?

Margrét Andrésdóttir

 

Þarfir mannsins

Það er mánudagsmorgunn.
Ég sit við matarborðið með stírur í augunum.
Ég fæ mér ekki hafragraut eða brauðsneið,
heldur fæ ég mér Amino og þunglyndislyf.
Er það kannski bara orðið að þörfum mannsins?

Katrín Rut Magnúsdóttir

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: