MORFÍs | Morfístussan

Ritstjórn
Höfundur: Ritstjórn

Klara Óðinsdóttir skrifar

Ólíkt því sem við þekkjum núna þá hafa ekki alltaf verið fullt af stelpum í MORFÍs. Sú þróun tók langan tíma að hefjast en þegar hún tók loksins við sér varð hún ógnarhröð. Ræðuheimurinn vaknaði skyndilega úr dvala og sá af hverju hann hafði verið að missa. Stelpur eru nefnilega ekki aðeins jafn færir framsögumenn og strákar heldur líka ógeðslega fyndnar og góðar í að rífa kjaft. Í dag er það orðið svo sjálfgefið að það sé allt morandi í stelpum í MORFÍs að þjálfari sá sig knúinn til að afsaka sig við mig um daginn þegar hann var að segja mér frá því að liðið hans væri skipað fjórum strákum.

Þegar ég byrjaði í MORFÍs var töluvert minna um kvenkyns ræðumenn en ég var svo lánsöm að vera úr skóla þar sem engin hefð var fyrir MORFÍs og þar af leiðandi engin hefð fyrir því að ræðumenn væru af ákveðnu kyni. Í Menntaskólanum við Sund hafa stelpur verið meirihluti ræðumanna síðan MS fór að geta eitthvað aftur í MORFÍs eftir að hafa verið í dvala síðan bjórbanninu var aflétt. Árið 2010 sigraði ræðulið MS með jöfn kynjahlutföll ræðumanna og sjálf var ég í liði skipuðu þremur stelpum árið á eftir. Síðan þá hef ég þjálfað tvö stórkostleg ræðulið Menntaskólans við Sund og bæði hafa þau verið skipuð þremur stelpum og einum strák.

Þrátt fyrir að kynjahlutföllin séu komin í réttan farveg er ekki þar með sagt að björninn sé unnin. Þegar ég byrjaði að keppa var mikið rætt um „morfístussuna“ og stelpur varaðar við að verða ein slík. Stelpur máttu helst ekki æsa sig of mikið og alls ekki hækka röddina með þeim afleiðingum að hún yrði of skræk. Þrátt fyrir að margt hafi breyst eimir enn af þessum viðhorfum. Ég hef séð ógrynni af keppnum síðustu ár þar sem ræðustelpur eru látnar beita röddinni á þann hátt að hún dýpki líkt og við séum ekki fær um að meðtaka rök nema þau berist djúpt úr barkakýli karlmanns. Sem er auðvitað algjört kjaftæði.

MORFÍs líkt og samfélagið allt hefur uppgötvað að allt er skemmtilegra þegar stelpur fá að vera með og keppnin er fyrir löngu orðin stelpusport. Betur má þó ef duga skal og ég legg til að við byrjum á því að hætta að láta ræðustelpur líkja eftir strákum og gefa þeim þannig þau skilaboð að meira mark sé tekið á strákum.  Það er  úrelt, asnalegt og fullkomlega úr takti við þá staðreynd að morfístussan er fyrir löngu orðin morfísdrollan.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: