MORFÍs | MORFÍs speglar samfélagið

Stefán Snær Stefánsson skrifar

Stemningin

Þetta byggist auðvitað allt á „…þegar ég var að keppa í MORFÍs fyrir nokkrum árum“ fortíðardýrkun en mér finnst vanta heilmikið upp á stemninguna. Þetta helst pottþétt í hendur við vandamálin sem keppnin stendur frammi fyrir: tímalengdina á hverju kvöldi og hversu grautleiðinlegar sumar keppnir geta verið.

Auðvitað er ekki hægt að segja þetta um allar stuðningssveitir. Inn á milli koma upp keppnir þar sem báðir skólar fylla vel í sætafjöldann hverju sinni og láta vel í sér heyra alla keppnina. Fjölbrautaskólinn á Suðurnesjum finnst mér eiga mesta creditið skilið hingað til. Bjóða upp á læti allan tímann, mæta vel á heimavelli og voru fjölmennari heldur en Verzlingar á undanúrslitaviðureign skólanna síðasta vor.

Þarna eru 4-5 krakkar sem leggja mikinn tíma í heila viku, langt fram eftir nóttu, í að skrifa ræður, skrifa svör, æfa flutning og hvaðeina annað, og maður þarf eiginlega að fara fram á það að skólasystkini þeirra fjölmenni og láti vel í sér heyra. Taka upp trommurnar, vera í skólabolum og öskra úr sér vitið eftir hverja ræðu.

Góður salur getur breytt daufri keppni í stórkostlegt kvöld í alla staði.

 

Mæting

Það er engum blöðum um það að fletta að mætingin hefur ekkert verið rosalega góð í gegnum árin og þetta kristallast í úrslitakeppnum sem farið hafa fram í Háskólabíói síðustu ár. Árin 2012 og 2013 voru úrslitin í Hörpu og í bæði skiptin var Eldborg nánast troðfull, ef ekki bara alveg gjörsamlega full. Og ölvuð. Árin 2011, 2014, 2015 og 2016 þar sem úrslitin fóru fram í Háskólabíó hefur salurinn aldrei verið fullur. Hann hefur ekki einu sinni verið þéttsetinn upp að efstu 5-6 röðunum. Það er algjörlega skammarlegt. Síðast þegar Háskólabíó stóð undir nafni sínu sem gryfjan, var árið 2010 þegar MS og Verzló mættust. Þá sat fólk í stiganum því öll sætin voru upptekin. Öll.

Enn og aftur þá spilar þetta vesen með tímalengd keppninnar inn í málið. Og sömuleiðis hversu leiðinlegar sumar keppnir eru, lítið um fyndnar ræður og mikið um endurnýtingu á sömu gömlu leiðinlegu umræðuefnunum. Þetta skrifast á liðin og þá sérstaklega þjálfarana kannski.

Á tímabilunum 2014-2015 og 2015-2016 voru mikið af keppnum í beinni útsendingu. Frábært framtak og virkilega vel unnið af hálfu Jóhanns Hinriks sem sá um tæknimálin. Virkilega gott að geta farið á YouTube og séð keppnina í beinni og nálgast síðan upptökuna að henni lokinni. Þetta gæti hins vegar hafa spilað inn í mætingarleysið. Ég tel að svo sé. Að einhverju leyti. Og það er kannski eðlilegt. Með því að horfa á MORFÍs á Youtube heima við tölvuna þá geturðu gert eitthvað á meðan þú bíður eftir næsta ræðumanni. Stundum var líka einhver að lýsa keppninni inn á milli á streaminu og það hefði mátt vera enn meira af því. Með því að horfa heima þá gastu sloppið frá því að sitja á rassinum í 5-6 mínútur bara til þess eins að bíða eftir næstu ræðu. Og þá var sú ræða kannski bara mjög leiðinleg. Þá er bara hægt að slökkva á hljóðinu og gera eitthvað annað næstu mínúturnar. Eins frábært og það var að hafa beinar útsendingar þá hafa þær eitthvað með mætingarleysið að gera.

MORFÍsstjórn mætti allavega setja sér markmið um að fara að auglýsa MORFÍs betur. „Make MORFÍs great again“ og allt það. Nýta Facebook, Twitter, Instagram og Snapchat meira. Heyra í fjölmiðlum. Jafnvel gera könnun meðal áhorfenda (nemenda keppnisskólanna) og skoða hvað það er sem veldur því af hverju fólk nennir ekki að mæta á keppnir lengur.

 

 

Lengd keppninnar

Þessi 7 mínútna regla í fyrra var algjört klúður en það var mikilvægur lærdómur dreginn af henni. Núna er 4 mínútna regla, sem þjálfari og áhorfandi finnst mér hún virka mjög vel. Ræðumenn liðanna eru líka nokkuð ánægðir, skilst mér. Keppnirnar rúlla betur.

Mér finnst að það ætti einnig að vera tímamark á hléinu sem aðskilur fyrri og seinni umferð. Láta fundarstjórann taka 15 mínútur og byrja síðan keppnina. Ná í liðin og keyra þetta áfram.

Stærsta vandamálið hingað til hefur hins vegar verið það að byrja keppnina. Ég fæ bara aulahroll við tilhugsunina um hversu illa það gengur alltaf. Ef MORFÍs væri flugfélag væri það eitt mjög seint og lélegt flugfélag. Engir afþreyingarskjáir. Rukkað fyrir vatnsflöskuna.

Oftast má skella skuldinni á þjálfara. Hiklaust. Þeir eiga að vera búnir að semja um dómara áður en keppnin á að hefjast. Enginn vafi um það. Oft getur það verið þannig að erfitt sé að sannfæra fólk sem er útskrifað úr menntaskóla um að eyða heillri kvöldstund í það að dæma ræðukeppnir sem taka langan tíma, eru ekkert alltof góðar eða skemmtilegar og það eru engar veitingar í boði. Mér finnst rosa óskýrt með reglurnar hvenær MORFÍsstjórn á og má grípa inn í dómaramál hverju sinni. Kannski væri best ef MORFÍsstjórn væri búin að heyra í 2-3 dómurum á keppnisdegi ef allt stefnir í að liðin komi sér ekki saman um dómara eða það sem verra er, að enginn dómari komist. Þá væri hægt, kannski 2 tímum fyrir keppni, að grípa inn í. Ég veit það ekki.

Kannski væri best að þjálfarar beggja liða og fundarstjóri reyni að keyra keppnina í gang sem allra fyrst. Stundum eru allir mættir og ekkert gerist. Það finnst mér algjörlega óskiljanlegt. Dómarar sestir. Fundarstjóri tilbúinn með nöfnin. Liðin mætt og græjuð. Þá geta oft liðið 10-20 mínútur út af engu. Óskiljanlegt. Þegar allir eru mættir á bara að segja: „Inngöngulög eftir 5 mínútur.“ Þjálfarar segja síðustu hvatningarorðin við keppnislið, dómarar tilbúnir með dómblöð og fundarstjórinn tilbúinn að ganga upp í pontu. Það er í alvörunni hægt að skafa rosalegan tíma af hverju kvöldi bara með því að hafa alla á tánum. Þetta ætti að vera krafa, ekki bara eitthvað sem sumir tileinka sér.

 

Staða stúlkna í keppninni

Við Sólrún töluðum um það í símann að stelpur eru komnar til að vera í þessum bransa. Sem er vel. Þær eru bara ótrúlega flottir ræðumenn og eins og ég minntist á þá finnst mér besta „stelputýpan“ vera ákveðni stuðningsmaðurinn. Rökföst, ákveðin og sér um að pakka keppninni saman. Smá hroki líka. Þetta höfum við séð rosa mikið síðustu 3-4 ár.

Þegar ég var að keppa voru einstaka stelpur. Mátti alltaf reikna með svona einni stúlku í hverju liði. Það var ekki eitthvað upp á puntið heldur meira bara það að með fyrirmyndum í MORFÍs þorðu fleiri stelpur að sækja um að komast í MORFÍs. Eva Fanney var til dæmis eina stelpan í úrslitum MORFÍs 2009. Það ár þurftir þú að bakka 3 ár aftur í tímann til að finna stelpu á sviðinu.

Árið 2010 voru síðan 3 stelpur í úrslitum. 2011 3 stelpur. 2012 2 stelpur. 2013 2 stelpur. 2014 4 stelpur. 2015 5 stelpur. 2016 5 stelpur. Við erum að breyta þessum bransa, hægt og bítandi. Sem dæmi um hversu mikið stelpur eru að rokka þetta allt saman tók ég saman ræðumenn kvöldsins árið 2014 til að skoða hlut kvenna í keppninni. 18 keppnir fóru fram. 13 sinnum var stelpa ræðumaður kvöldsins. Ræðumaður Íslands var einnig stelpa. 72% tilvika var það stelpa sem var stigahæst í keppninni. Það er fáránlega gott.

 

Hefur eitthvað breyst með innkomu stelpna?

Fleiri – feminísk – umræðuefni.

Fleiri – feminískar – ræður.

Þegar þú ferð á keppni nú til dags eru talsverðar líkur á því að staða kvenna í samfélaginu verður rædd. Það má varla stinga upp á umræðuefninu „Íslenska djammsenan“ án þess að feðraveldið sé í umræðunni. Báðar undanúrslitakeppnirnar árið 2015 snerust mjög mikið um konur. MORFÍs speglar líka samfélagið ansi oft. Það sem er verið að ræða í samfélaginu. Mér finnst það oft vera bestu keppnirnar. Alvöru deila sem á sér stað og menntaskólakrakkar láta ekki sitt eftir liggja. Það er verið að ræða kynbundinn launamun, það er verið að ræða kynbundið ofbeldi, það er verið að ræða kynjakvóta.

Það er oft sem stelpur sjá um að flytja ræður um stelpur. Reynsluheim kvenna. Það flýgur rosa oft. Enda líka eitthvað sem er kannski ekki beint fyrirframskrifað og einhver póll sem þú þykist vera rosa skotinn í. Þetta er alvörugefið dæmi. Atriði og baráttumál sem skipta máli. Þess vegna finn ég það oft þegar ég sé svona ótrúlega góðar ræður í flutningi að viðkomandi er að meina hvert einasta orð sem hún flytur.

 

Finnst þér vera einhver munur á stelpu og stráka ræðumönnum?

Ég held bara það fari eftir inntaki ræðunnar og umræðuefninu hverju sinni. Bæði kyn geta sinnt ólíkum hlutverkum býsna vel. Strákur getur verið rólegur, yfirvegaður og sanngjarn í flutningi  og stelpa getur verið hvöss, reið og heimtað svör með því að hækka róminn. Og öfugt. Rosa erfitt að alhæfa held ég miðað við hversu fjölbreyttir krakkarnir geta verið í þeim hlutverkum sem þeim er ætlað af þjálfurum.

 

Er öðruvísi að þjálfa stelpur heldur en stráka?

Já og nei. Það að vera fastur með sama fólkinu í 8 daga í röð getur verið mjög súrt. Á hverju kvöldi, langt fram eftir nóttu. Það myndast stemning, það eru brandarar sem fljúga og fólk gerir hrekki á Facebooksíðum hjá hvort öðru.

Æ, ég veit það ekki. Eiginlega ekki þegar öllu er á botninn hvolft. Í lok dags þá eru þetta bara ræðumenn sem flytja ræður og það fer eiginlega eftir því hvert inntak ræðunnar er, hvernig flutningur á að vera og hvernig viðkomandi á að vera.

 

Taktík

Það er þrennt í þessu. Við þurfum:

  1. Skemmtilegri umræðuefni
  2. Skemmtilegri ræður
  3. (Reyna að forðast að rífast um forsendur eins mikið og við getum (samt ómögulegt(samt ekki)))

Húmor hefur vikið fyrir rökum. Ég til dæmis hætti ekki að hlæja að einu tísti sem einhver nemandi úr FS samdi í fyrra á meðan keppni FS og Verzló stóð: „Getur Verzló ekki bara komið með hrein rök í stað þess að koma með videó og söngleik?“ Tíðarandinn núna í MORFÍs er þessi. Alvarlegar ræður. Möööörg svör. Mikið af spurningum. Lítið af húmor og léttleika. Allt of lítið af banter.

MORFÍs þjálfarar þurfa bara að gjöra svo vel og semja skemmtilegra efni. Taka sénsa. Flestir eru kannski hræddir við að taka áhættu, skrifa frekar staðlað efni sem mun skora ágætlega í stað þess að veðja á eitthvað viðbjóðslega fyndið. Í fyrra fannst mér ágætis jafnvægi í þessu hjá MR og Verzló í úrslitum. Lög undir ræðum, videó upp á skjá, leikarar á sviðinu. Það þarf að vera meira af þessu. Krydda aðeins sýninguna.
Gagnrýnin er sú að keppnirnar séu leiðinlegar og þurrar. Það er bara nokkuð réttmæt gagnrýni. Fleiri skólar þurfa bara að setja sér það markmið að gera léttara efni. Bjóða upp á hlæ-hlæ í poka. Brjóta rammann.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: