MÉR BLÆÐIR | Túrsögur

Ritstjórn

Ég var semsagt síðust af vinkonum mínum að byrja á túr og beið spennt eftir þeim degi þegar það myndi leka blóð úr leginu mínu. Þegar það loks gerðist einn sólríkan sumardag fór ég strax til mömmu og sagði henni gleðifréttirnar. Daginn eftir vorum við fjölskyldan að fara í útileigu á einkasvæði hjá frændfólki okkar. Það var mikið af skyldmennum þar og aðeins einn kamar fyrir alla. Eins og gengur og gerist þegar maður fer á túr þarf maður að skipta um dömubindi reglulega og ætlaði ég í sakleysi mínu að laumast á kamarinn og skipta þegar ég sé að það hefur lekið blóð í nærbuxurnar. Ég ákveð að fela nærbuxurnar bakvið klósettið. Allavega seinna um daginn fer litli frændi minn á klósettið og finnur auðvitað helvítis nærbuxurnar og hleypur með þær fram og spyr hvað þetta væri. Ekki líður langur tími þangað til frábæra mamma mín ákveður að tilkynna að ég ætti þessar nærbuxur og hefði verið að byrja á túr deginum áður. Allt kvöldið fór í að hlusta á gamlar frænkur óska mér til hamingju með áfangann.

Nafnlaus

Ég fer úr upphitunargallanum og stend á fimleikabolnum einum fata klukkutíma fyrir keppni. Ég hef samviskusamlega rakað mig að neðan því fimleikabolir eru efnislitlir en tek eftir því að það er eitthvað skrítið í gangi þarna samt… ég hef byrjað á blæðingum, og það í fyrsta skiptið. Gat nú skeð, líkaminn minn tók meira en 17 ár að drífa í þessu og velur góða tímasetningu. Ég hleyp heim og næ í eitthvað túrdót sem mamma átti og lifi keppnina af. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég átti að snúa mér í þessu þó ég væri 17 ára. Fræðsla takmörkuð og ekkert talað um blæðingar meðal vina og kunningja enda tabú. Ég hef oft hugsað hvað yngri stelpur gera, þetta var nógu erfitt fyrir mig sem ungling.

Mér gekk ekkert betur daginn eftir. Þá prófaði ég túrtappa og mistókst. Ég hélt að ég gæti ekki pissað með hann í svo ég tók hann út og hugsaði með mér að þetta myndi sleppa ef ég setti smá klósettpappír í nærbuxurnar mínar. Ég var staðsett í veislu sem ég yfirgaf fljótlega og fór til kærasta míns. Þetta voru fyrstu mánuðirnir af fyrsta alvarlega sambandinu mínu, svo það var viðkvæm staða. Ég fer á klósettið þegar ég kem til hans og tek eftir því að ég hef blætt í gegnum gallabuxurnar mínar og niður lærin, smekkleg í veislunni. Það voru kekkir í nærbuxunum mínum. Ég dró þá ályktun að það væri lifrin mín og ég væri að deyja. Blæðandi yfir klósettgólf stráks sem ég var ofboðslega skotin í. Eftir hálftíma grátkast tek ég mér taki og kalla á hann. Ég bjóst við að hann yrði reiður og fullur viðbjóðs, myndi henda mér út og aldrei vilja sjá mig. Viðbrögðin voru ekki svo dramatísk en hann vissi ekkert hvað var í gangi og spyr mömmu sína ráða. Hún á bara stráka og hefur aldrei rætt þetta við þá né þurft að útskýra fyrir táningsstelpu hvernig svona virkar. Hún lætur mig fá dömubindi og nærbuxur af sér, ég set bindið vitlaust á, kunni ekkert á þetta. Kærasti minn var nú krúttlegur samt, lánaði mér stuttbuxurnar sínar og sagði að það versta við þetta væri að hann þyrfti að passa sig hversu fast hann héldi utan um mig. Við vorum saman í þónokkur ár eftir þetta þrátt fyrir að ég væri svona ófullkomin manneskja sem blæðir úr reglulega. Eða óreglulega reyndar, ég fór ekki á blæðingar aftur eftir þetta fyrr en ári seinna.

Rósa/Fenrir, útskrifaður MR-ingur, nemi við HR og jafningjafræðari hjá Samtökunum ‘78

Sumarið sem ég varð fimmtán ára var mitt eina markmið að eignast einlæga og góða vini. Besta vinkona mín var nokkurskonar Blair Waldorf bæjarfélagsins og ég var Serena Van Der Woodsen á slæmum mánuði. Ég hafði nýlega kynnst tveimur stelpum sem voru að vinna með mér, einn daginn eftir vinnu buðu þær mér að koma með að vaða á Hvaleyrarvatni. Ég þáði að sjálfsögðu boðið því þetta var í fyrsta skiptið sem þær báðu mig um að hanga með sér utan vinnutíma. Áður en ég vissi af vorum við komnar að vatninu og a leiðinni út í, ég hafði lítið spáð í því að ég væri á túr, hvað þá með dömubindi á milli lappanna. Ég óð óhikandi út í vatnið í stuttbuxunum mínum. Þegar vatnið var farið að ná mér upp fyrir sníp fann ég eitthvað þrýstast upp að ytri skapabörmum mínum. Þegar ég var fimmtán ára vissi ég ekki hvað gerðist þegar dömubindi blotna með alvöru vatni, en nú veit ég að þau þrefaldast í stærð. Mér brá svo mikið að ég flýtti mér upp úr. Ég faldi mig bakvið runna, rykkti bindinu úr nærbuxunum og henti því í bakpokann minn. Ég sagði við nýju vinkonurnar að mér liði ekki vel og þyrfti að fara heim. Á meðan ég labbaði heim á stuttbuxum og peysu flæddi blóðið úr stuttbuxunum og niður fótleggina. Þessi lífsreynsla hjálpaði mér að finna kjarkinn til að hætta með vinkonunni og fór að lifa jákvæðari lífsstíl. Lífið er of stutt til að endurlifa söguþráðinn úr Gossip Girl.

XOXO, nafnlaus.

 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: