MÉR BLÆÐIR | Blóð rennur ekki beina leið til sjávar

Ritstjórn
Höfundur: Ritstjórn

Blæðingar hefjast þegar stúlkur byrja á kynþroskaskeiði, allar erum við ólíkar og þroskumst á ólíkan hátt. Á meðan ein okkar byrjar á blæðingum á áttunda aldurs ári byrjar önnur ekki fyrr en á því sautjánda. Fyrstu blæðingar verða venjulega í kringum 11 til 15 ára aldur. Blæðingar eru mánaðarlega þar til tíðarhvörf byrja og vara í u.þ.b. 3 til 7 daga í hvert sinn. Tíðarhvörf hefjast oftast í kringum 45 til 50 ára. Misjafnt er hve mikið blæðir, en eðlilegt er að það sé í kringum 30 til 40 ml hverju sinni.

Stúlka sem byrjar á blæðingum 11 ára og hefur mánaðarlegar blæðingar til fimmtugs fer á blæðingar 468 sinnum og ef við gefum okkur að henni blæði 40 ml í hvert sinn eru það 18,72 lítrar. Stóra spurningin er hvert rennur allt þetta blóð? Það þykir ekki eðlilegt að það leki niður á milli læranna og leiðin liggur ekki beint til sjávar.

Eru tíðavörur nauðsyn?

Áður en konur hófu að vefja bindi notuðust þær ekki við neitt sérstakt heldur var einfaldlega leyft blóðinu að renna og það tíðkast enn í dag sumstaðar í heiminum. Í okkar samfélagi nú til dags eru blæðingar ákveðið feimnismál og túrblóð virðist snerta blygðunarkennd margra. Því má segja að samfélagsleg hefð sé fyrir því að konur noti dömubindi og túrtappa.

Eins og fram hefur komið eru blæðingar eðlilegur hlutur líkamstarfsemi okkar við kynþroska og ættu því alls ekki að vera feimnismál. Það kemur fyrir hjá okkur öllum að túrblóð leki meðfram og blettir myndist í föt og það ætti ekki að vera stórmál. Auðvitað er það leiðinlegt líkt og að sulla yfir sig kaffi en það vill gerast og því þá að skammast sín? En hvort sem þetta særir blygðunarkennd okkar eða annarra þá er málið það að tíðavörur gegna jafn mikilvægu hlutverki og salernipappír. Það vill enginn vera illa skeindur enda er salernispappír ókeypis á almennings salernum en hvað með dömubindi og túrtappa? Í það minnsta mættu þessar vörur vera aðgengilegri. Sjálf er ég ekki vön að ganga um með salernispappír á mér og það kemur fyrir að ég er hvorki með dömubindi né túrtappa þegar á þarf að halda. Sjálfsalar sem selja slíkar vörur eru þekkt dæmi sem mætti skoða að setja í skóla landsins og víðar, svona af því ríkið ætlar ekki að skaffa þær.

Dömubindi og túrtappar það eina?

Ráðlagt er að skipta um dömubindi á 2ja-3ja klukkustunda fresti upp á hreinlæti og slíkt hið sama gildir um túrtappa, einnig ef ekki er skipt reglulega um tappa getur það valdið sýkingarhættu. Þetta er ekki sérlega umhverfisvænt en hægt er að velja um önnur úrræði. Flestar konur nota dömubindi eða túrtappa en þeim fjölgar hratt sem nota hinn svokallaða álfabikar. Álfabikar er lítill margnota gúmmíbikar sem settur er upp í leggöng og blóðið safnast saman í hann. Hann má vera í allt að 12 klst. áður en hann er losaður. Fyrir þær sem eru með latex ofnæmi er einnig hægt að fá álfabikar úr silíkoni. Ef vel er farið með, ætti hann að endast í um 10 ár.

Margnota taubindi hafa einnig verið að ryðja sér til rúms hér á landi. Þau er bæði hægt að sauma eða versla á netinu og svo er til hópur á Facebook þar sem hægt er að versla bindin og þar er líka að finna alskyns umræður um þau. Þar sem álfabikarinn og taubindi eru margnota eru þau bæði umhverfisvænni og hagstæðari í innkaupum ef til lengri tíma er litið. Eins og segir, hagstæðara!
En út frá umhverfissjónarmiðum mætti hugsa það að gefa hverri ungri stúlku álfabikar. Sjálf hefði ég valið álfabikar fram yfir Nýja testamentið.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: