Framhaldsskólablaðið í heild sinni – 4. tbl 2016-2017

Eva Dröfn Hassell Guðmundsdóttir

Ég er kona. Ég er með píku. Því fylgir ýmislegt

Mér blæðir einu sinni í mánuði. Það þýðir að ég borgi aukalega fyrir lúxusvörur til að takast á við náttúrulega starfsemi líkama míns. Ég þarf að passa upp á að verða ekki ólétt og tek inn hormóna einu sinni á dag sem koma í veg fyrir það. Að vísu með ýmsum fylgikvillum.

Ég þarf að umbera það að kynfæri mín séu notuð í niðrandi tilgangi sem skammyrði. Sumum finnst í lagi að áreita mig – af því ég er kona. Sumir taka ekki alveg jafn mikið mark á mér – af því ég er kona. Sumum finnst ég eiga að haga mér öðruvísi en ég geri – af því ég er kona. Ég er kona og sem kona er eins og ég sé ekki alveg jafn mikils virði og karl, ekki alveg.

Sem kona í nútímasamfélagi hef ég alist upp við það að eiga að vera dömuleg og prúð. Snyrtileg, fín og sæt. Ég hef aldrei getað ropað, prumpað né kúkað í kringum annað fólk. Ég hef þurft að fela blæðingar mínar og forðast að tala um þær á meðan þeim stendur. Passað upp á að blóðið fari ekki í buxurnar og að enginn sjá þær tíðavörur sem ég nota. Ég hef ekki getað talað opinskátt um sjálfsfróun annað en vinir mínir sem eru með typpi. Ég hef verið skömmuð fyrir að vera hávær og fyrir að láta mikið fyrir mér fara. Ég hef verið þögguð og niðurlægð á þeim grundvelli að ég sé kona, og sem kona á ég að vera hógvær, dömuleg og prúð.

Að lifa í bleiku boxi kvenleika og kvenlægra eiginleika er ekki einfalt. Bleika boxinu fylgja ýmsar skyldur, óskrifaðar reglur og harður veruleiki. Kynjaði nútíminn er áhrifameiri en fólk virðist vera tilbúið að viðurkenna. Konur eru jafnar körlum að lögum, en jafnar til fulls? Alls ekki. Kvenfyrirlitning nær nefnilega dýpra en lög. Kvenfyrirlitning er falin í hugmyndum, viðhorfum, orðræðu, hegðun og kerfinu öllu. Kvenfyrirlitning er byggð inn í samfélagið og hefur áhrif á alla, öll kyn, allar kynvitundir, allan aldur, allar stéttir og öll samfélög. Þar með talið okkar.

Vissulega hefur mikil vitundarvakning verið undanfarin ár og áratugi. Rosalega mikil og í ljósi þess er ótrúlega sorglegt hvað það er samt mikið eftir. Það er í okkar höndum að gera eitthvað í málinu. Að því sögðu … þú hefur í höndunum fjórðu útgáfu Framhaldsskólablaðsins. Í þessari útgáfu könnuðum við ýmsa kima kvenfyrirlitningar og daglegs lífs framhaldsskólanema.

Sem áminning um að við erum öll mennsk. Flóttafólki blæðir, píkum blæðir og bankakallar blæða peningum.

Njótið blaðsins.

Framhaldsskólablaðið, febrúar-mars 2017

Framhaldsskólablaðið, febrúar-mars 2017

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

Mér Blæðir
%d bloggers like this: