MÉR BLÆÐIR | Til hamingju! Nú ertu orðin kona

Ritstjórn

Blæðingar eru tengdar við það að ,,verða kona. Rauður blettur í nærbuxunum og þá geta stúlkur loks farið að uppfylla hlutverk sitt. Til marks um þetta eru fjölmargar misvandræðalegar kvikmyndasenur þar sem stórfjölskyldan fær að heyra um þennan merka viðburð, e.t.v. í óþökk stúlkunnar, og svo tíðkast einnig í sumum menningum að halda upp á það þegar stúlka hefur fengið sínar fyrstu blæðingar.

 

En hvað um þær konur sem hafa ekki blæðingar? Það eru nefnilega ekki allar stelpur og konur sem gera svo. Það getur orsakast af fjölmörgum ástæðum, svo sem sjúkdómum, lyfja-og hormónameðferðum, mikilli þjálfun, vannæringu, streitu og mörgum öðrum þáttum. Hvað með transkonur og intersex manneskjur? Hættu allar þessar konur og stelpur að vera konur þegar blæðingarnar stoppuðu eða urðu þær aldrei konur þegar blæðingarnar hófust ekki?

 

Ég lenti sjálf í því fyrir nokkrum árum þegar ég æfði mikið fimleika að einn mánuðinn fór ég ekki á túr, svo ekki heldur þann næsta eða þann þarnæsta og þannig liðu svo fimmtán mánuðir. Þar sem allt í kringum blæðingar var hálfgert tabú og feimnismál var ég ekki mikið að nefna þetta og vissi þess vegna ekki hvort einhverjar aðrar stelpur í kringum mig væru ef til vill líka að upplifa það sama. Þrátt fyrir að mér fyndist það frekar þægilegt að vera laus við vesenið sem fylgdi því að fara á túr fannst mér það samt einnig þýða að það væri eitthvað að líkamanum mínum og eitthvað að mér. Í þau fáu skipti sem þetta kom til tals fékk ég líka að heyra mjög undarlega hluti, t.d. að legið í mér gæti þornað upp eða skorpnað.

Þegar ég talaði við kvensjúkdómalækni sagði hún mér hins vegar að það væri ekkert hættulegt að fara ekki á blæðingar í einhverja mánuði og að það myndi ekkert koma fyrir legið út af því. Hugmyndir á borð við þessar sýna einungis hversu mikil fáfræði er ríkjandi um málefni varðandi blæðingar og fordómana gegn þeim, bæði þegar þær eru til staðar og þegar þær eru það ekki ekki.

 

Nú á ég ekki við að það sé ákjósanlegt líkamlegt ástand þegar líkaminn framkallar ekki blæðingar hjá stelpum og konum á barnseignaraldri heldur frekar að það sé ekki ástand sem sé eitthvað sérstaklega ókvenlegt. Að fara á blæðingar gerir mig ekki að konu. Það að transkona fari ekki á blæðingar gerir hana ekki heldur að minni konu en mömmu hennar eða vinkonur hennar. Þegar konur fara á breytingarskeiðið og hætta að hafa blæðingar hætta þær ekki heldur sjálfkrafa að vera konur eða missa kvenleika sinn.

 

Það viðhorf að blæðingar séu kvennamál – bæði að þær sé eitthvað hvimleitt sem þeim beri að dylja og að þær ,,marki stúlkur á einhvern hátt sem konur hefur alið af sér fátt annað en fordóma og e.t.v. ,,lúxus“tíðavörur. Egglos og blæðingar eru bara kerfi í líkamanum, hvorki merkilegri né ómerkilegri en kerfi eins og meltingarvegurinn og ættu ekki að vera álitin einhvers konar merkimiði frekar en hann.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: