MORFÍs | MORFÍs karlaklúbburinn

Sólrún Freyja Sen

Ég tók viðtal við Arnar Má Eyfells, en hann keppti fyrir hönd FS í fjögur ár á árunum 2009 til 2013. Eftir það hefur hann þjálfað FS liðið í þrjú ár, frá 2013 til vors 2016. Arnar er oft fenginn til að vera dómari í MORFÍs, og eins og svo margir þá kemst hann ekki frá því að vera fenginn til að hjálpa við undirbúning fyrir keppnir.

Ég hitti Arnar á kaffistofu NOVA í Ármúla, þar sem hann vinnur. Mæli með uppáhellta kaffinu þar. Alveg frábært. Kaffið var sötrað og Eyfells spurður spjörunum úr.

Ég byrjaði á því að spyrja um kynjahlutföllin. Það hafa orðið aldeilis miklar breytingar á þeim á síðustu árum. Þetta var rosalega mikið ‘karlaklúbburinn’, það má kalla hann “MORFÍs karlaklúbbinn”. Þeir töluðu um það sem ímyndarbót að vera með kannski eina stelpu í liðinu. Þegar að ég var fyrst í kringum MORFÍs, þá heyrði maður að keppnin væri mjög karllæg, strákarnir vildu bara vera með kvenmann í liðinu til þess að fá auka rokkstig.

Það er klárlega rosa mikill munur þegar kemur að kynjahlutföllum. Þetta er orðið miklu jafnara finnst mér, kannski meira að segja fleiri stelpur heldur en strákar. Ég er búinn að vera að dæma keppnir og að þjálfa lið þar sem eru bara stelpur eða stelpur í meirihluta, og svo kannski einn strákur í liðstjóra eða frumma. Þetta er eitthvað sem maður hefði ekki séð til dæmis bara fyrir fjórum árum. Þegar ég var að keppa árið 2012 þá sá maður miklu minna af kvenfólki. Ég man bara eftir Sölku Vals í MORFÍs þegar ég var að keppa. Jú og Siggu Maríu.

Maður getur pinpointað hvaða stelpur voru að keppa þá. Sigga María, Salka Vals, Eva Fanney var í Verzló liðinu líka, Guðrún Sóley…” Meinar þú þá að stelpurnar hafi verið svo fáar að maður gæti munað þær allar með nafni? Já ég get í alvöru tekið frá 1990 til 2013-14, og pinpointað hvaða stelpur voru. Sem segir okkur að landslagið er búið að breytast ótrúlega mikið hvað varðar kynjamun.”

 

Skotið á byssuna

Ég spurði Arnar út í hneykslismál þar sem grín í ræðu gengur of langt eða einhver var óréttilega niðraður. Hann talaði um Byssuna” svokölluðu, en svo var kallaður mjög umdeildur MORFÍs þjálfari sem var að þjálfa fyrir nokkrum árum. Hann sem þjálfari lét liðið birta nektarmynd af stelpu í hinu liðinu. Þú sérð ekkert svona í dag. Fólk er skynsamara, ef við getum orðað það svo.” Arnar segir að það sé ekkert frekar útaf því að stelpur eru að taka meiri þátt. Ég held að það hafi orðið vitundarvakning. Eða ég ætla rétt að vona það, þú sérð allavega ekki fólk eins og Byssuna þjálfa lið í dag, og það er ástæða fyrir því. Hann er risaeðla í nútímasamfélagi.”

En var grínið í MORFÍs almennt grófara? Gekk það of langt? Já klárlega. Oft á tíðum þá var þetta orðið rosalega gróft. Ég man samt bara eftir svona þremur dæmum. Eiginlega öll frá því þegar ég var framkvæmdarstjóri MORFÍs stjórnarinnar. Þá komu upp þrjú svona stór mál, öll tengd vini okkar Byssunni”. Hann kunni sér engin mörk.”

Nú var Arnar að þjálfa FS liðið skólaárið 2014-15. Þá var einn ræðumaður sem talaði í bundnu máli en það þykir heldur óvanalegt í MORFÍs. Mig langaði bara að breyta umræðuhefðinni aðeins. Þetta er alltaf sama fasta formatið. Þú veist, fundarstjóri, dómarar, andmælendur og góðir gestir, til þess að þessi rökræða geti átt sér stað þurfum við að gera okkur grein fyrir nokkrum grundvallar staðreyndum….” þetta fasta format. Mig langaði bara aðeins að fokkast í kerfinu og leika mér eitthvað. Gera eitthvað nýtt. Þetta var samt gert líka árið 2002, þá var ein ræða hjá Flensborg sem var þá bara með drasl lið þannig að það mundi enginn eftir þessu. Þannig að ég reyndi bara að eigna mér þetta.”

Af hverju heldur þú að það sé lítið af því að gera eitthvað svona flippað, eru morfísarar íhaldsamir í gamla ræðustílinn og gömlu klisjurnar? Ég held það séu bara ákveðnir skólar sem hafa tamið sér ákveðin vinnubrögð sem virðast vera að virka. Ég er mikill flippkisi. Ef að umræðan er málefnaleg en fyndin, þá eðlilega finnst mér að maður ætti að taka þann vinkil. Í staðinn fyrir að vera með sama djöfulsins take frá því 1980-og eitthvað.”

Arnar Már Eyfells

Ekkert glimmer, glans og gleði

Þegar Bergur Ebbi, Dóri, Ari Eldjárn, allar þær sleggjur, voru í MORFÍs var keppnin ógeðslega skemmtileg. Björn Bragi og co. Það var glimmer, það var glans, það var gleði. En rökræðan var samt alltaf til staðar. Mér finnst bara eins og það þori enginn að vera spútnik liðið lengur. Ég reyndi að gera það með FS á tímabili, gekk ágætlega, en ég fór samt aldrei í confettíið. Mér fannst það alltaf vera aðeins of mikið, af því ég var ekki með Verzló. Ef ég hefði verið með Verzló þá hefði ég verið í öllu bullinu sko. En mér finnst vanta pínu kick. Það er alveg pottþétt vegna þess að það er einhver föst formúla sem hefur virkað fyrir skóla eins og til dæmis MR og Verzló. MR-ingar og Verzlingar eru sigurvegarar inn að beini og vilja frekar vinna heldur en aukið skemmtanagildi. Ég var bara í þessu til að gleðja og brjóta upp.”

Í fyrra varstu bara með stelpur í liði, Eyfellsdæturnar svokölluðu. Almennt hafa stelpur komið sterkt inn í keppnina undanfarin ár. Hvernig er það, finnst þér vera einhver munur á stelpum og strákum sem ræðumönnum? Já og nei. Þegar ég sæki í liðið mitt þá er ég alltaf með ákveðnar hugmyndir um hvernig flutningsmennirnir eiga að vera. Ég niðurnjörva ákveðna karaktera í kringum liðið mitt. Ef við tökum Sólborgu sem dæmi sem var stuðningsmaðurinn í FS-liðinu í fyrra. Ég var bara að leita að þessari týpu. Einhvern vélbyssukjaft sem getur talað ógeðslega hratt, en samt verið skýr. Það er ekkert bundið við strák eða stelpu. Hún var bara eini einstaklingurinn sem fittaði í þetta hlutverk. Sama átti við um meðmælandann. Ég var að vinna rosa mikið með kaldhæðnisþáttinn. Enn og aftur, ekkert bundið við strák eða stelpu. Ef að ég heyri að talandinn er eins og ég vil hafa hann og ég sé að ég get unnið með hann, þá skiptir engu máli hvort það sé strákur eða stelpa. Sama með frummælandann. Ég byggi liðið á ákveðnum týpum og keyri á því.”

Heyrst hefur að kvenkyns ræðumenn hafa verið beðnir um að dýpka eða breyta röddinni. Arnar segir að hann hafi ekki verið í þeim hópi. Ég þoli ekki að sjá að ákveðin lið tileinka sér þann stíl. Þú tekur flutningsmanninn inn á þeim forsendum að hann sé góður flytjandi og síðan vinnur þú bara efnið í kringum hann. En aldrei færi ég í að reyna að dýpka röddina eða hækka röddina hjá ræðumanninum. Ég fer ekkert að reyna að útsetja röddina hjá ræðumanninum.”

En er samt einhver munur á því hvað þú lætur stelpu ræðumenn segja og hvað þú lætur stráka ræðumenn segja? Ég hugsa þetta út frá því hvað er relatable. Ef að karlmaður fer að tala um barneignir þá getur hann aldrei sett sig í það hlutverk 100% af því að hann mun aldrei koma til með að fæða barn. Ef það er eitthvað sem tengist beint inná það að vera kvenmaður þá finnst mér það ekkert verra að það komi þá frá kvenmanni, og þá sérstaklega ef hún getur tengt við það að einhverju leyti.” FS keppti á móti MS í undanúrslitum 2014-15, og umræðuefnið var “Íslenska Djammsenan”. Í þeirri keppni var mikið talað lyfjabyrlanir. Það var ein manneskja í liðinu sem átti vinkonu sem hafði verið byrlað. Stelpan í liðinu þá var næstum því búin að lenda í því líka. Mér fannst það sterkara að punkturinn um lyfjabyrlanir kæmi frá einhverjum sem hafði beina tengingu við lyfjabyrlanir. Mér hefur verið byrlað og ef ég hefði verið að keppa þá hefði ég farið sjálfur og uppí pontu að tala um lyfjabyrlanir. Það er ekkert sterkara þó að ræða um lyfjabyrlanir komi frá kvenmanni en þarna var tengingin bara svo skýr. Hún hafði verið í þessum aðstæðum með vinkonu sinni og upplifði allt sem var að gerast. Þannig að jújú, auðvitað aðlagar maður ræður að týpunni eða kyninu, en ég reyni meira að tengja þetta við aðstæður. Ef að ræðumaðurinn getur sett sig í ákveðnar aðstæður út frá hugsunum eins og: já hvernig verður þetta þegar ég lendi í þessu” eða ég hef lent í þessu” eða jafnvel ég hef verið í kringum einhvern sem hefur lent í þessu.”

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: