Ég hata fólk. Markmiðið mitt í lífinu er að eiga í sem minnstum mannlegum samskiptum. Ég er ómannblendin eða ,introvert‘ sem er gjarnan þýtt á íslensku sem innhverfur persónuleiki. Orðið skiptir svo sem ekki meginmáli. Aðalatriðið er að ég hata fólk.

Mynd tekin af Sólborgu Birgisdóttur.

Hvað er innhverfur persónuleiki?

Samkvæmt skilgreiningu er innhverfur aðili hneigður til einveru og sjálfsskoðunar. Áhugamál hans eru alla jafna friðsæl og krefjast þroska, t.d. lestur, listir, lærdómur og útivera. Á hinn bóginn dregur innhverfur einstaklingur sig í hlé meðal ókunnugra eða í margmenni. Það þýðir ekki að samskiptahæfni okkar sé léleg, heldur að við erum vandlát á hverja við opnum okkur fyrir. Úthverf manneskja, ,extrovert‘, blómstrar aftur á móti í stærri hópum eða við samkomur. Munurinn á innhverfingum og úthverfingum felst einnig í áherslum þeirra. Úthverft fólk einblínir á hið veraldlega og hagnýta meðan innhverft fólk er gjarnt á að halda sér í skýjunum, þar sem hugsjónir trompa raunveruleikann. Það er hægt að ímynda sér hverfurnar tvær sem skala þar sem innhverfur persónuleiki er á öðrum endanum og úthverfur persónuleiki á hinum. Enginn er fastur öðru hvoru megin – öll erum við flöktandi á rófinu og veljum okkur staðsetningu eftir aðstæðum og hentugleika – en sumir eru óneitanlega nær endunum.

Algengar ranghugmyndir um innhverfinginnn

Ekki má rugla ómannblendnum einstaklingum saman við einfara eða ,lónera‘. Lónerismi er geðsjúkdómur, oftast rakinn til yfirgengilegs tölvuleikjaspils, og kemur fram sem skortur á hæfni til að umgangast aðra eða taka þátt í samfélagi manna. Staðalímyndin er slánalegur unglingsstrákur í öllu svörtu, með sígarettu í munnvikinu og hníf í vasanum. Eða gömul kona með hárflóka í stíl við kattarhræksnin sem hún tók að sér og ann eins og börnunum sem hún eignaðist aldrei af því enginn gat hugsað sér að leggja lag sitt við hana. En þegar kemur að innhverfingum er ekki um að ræða andfélagslega eða ofbeldisfulla hegðun. Innhverft fólk er fullkomlega fært um að taka þátt ef þess er þörf. Það er líka algengur misskilningur að innhverfingar séu endilega feimnir, vansælir eða „ekki að lifa lífinu til fulls“. Hugmyndir okkar um tilveruna byggjast á djúpri sjálfsvitund og viðamikilli þekkingu á heiminum umhverfis okkur. Að mínu mati er ekkert nær lífsfyllingu en það.

Allt er betra þegar maður er einn

Þetta snýst ekki um að annað fólk sé pirrandi (sem það er) eða að ég sé betri en þau (sem ég er). Mér finnst einfaldlega tilhugsunin um að fara ein í bíó, labba ein á fjall eða vera ein heima meira aðlaðandi en að deila tíma mínum með öðrum. Þegar ég er ein er aldrei neitt drama og ég fæ að taka allar ákvarðanir. Hversu æðislegt fyrirkomulag? Það ætti þess vegna ekki að koma neinum á óvart að innhverfingar forðast hópavinnu og starfa best einir síns liðs. Veislur eða stærri hittingar verða okkur leiðigjarnir því við fáum ekki frið frá utanaðkomandi áreiti. Oftar en einu sinni hef ég haldið partý heima hjá mér en læðst upp á aðra hæð um miðbik kvöldsins til þess að leika við kisuna mína (við innhverfingar erum að sjálfsögðu kattarmanneskjur). Það er ákveðinn lífstíll að sitja uppábúin á gólfinu með gæludýrinu sínu meðan félagar manns skemmta sér herbergisbreidd frá. Eða að vera ekki alveg viss hvað allir í vinahópnum manns heita. Eitthvað K? Karen? Klara? Eða var það kannski M?

Við brjótum gegn kröfum samfélagsins

Ég hef alltaf verið svona, þ.e.a.s. liðið best með sjálfri mér. Sem barn var ég mjög einræn og undi mér best langt frá jafnöldrum mínum. Foreldrar mínir fylgdust áhyggjufullir með því þegar önnur börn reyndu að nálgast mig, en ég horfði með samúð á þau áður en ég útskýrði að „það gæti bara verið einn í þessum leik“. Ég skildi aldrei af hverju Palli varð svona leiður þegar hann varð einn í heiminum. Það er ekki þar með sagt að ég verði aldrei einmana eða vinarþurfi… en það er veikleiki sem líður alltaf hjá. Mér finnst að allir innhverfingar ættu að taka þessum persónuleika opnum örmum og hætta að hlusta á fólk sem stimplar okkur „skrítin“. Við þurfum hvort eð er ekki á þeim að halda því við höfum okkur sjálf.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: