Fötlun mín hindrar mig ekki félagslega

Ritstjórn

Ég tók á dögunum viðtal við Söndru Sif Gunnarsdóttur sundkonu í landsliði fatlaðra. Sandra stundar nám á félagsfræðibraut í Borgarholtsskóla og hefur meira en nóg á prjónunum. Hún hefur verið sjónskert frá fæðingu en lætur það alls ekki stoppa sig.

Lýstu týpískum degi hjá þér.
Ég vakna um kl.7:00 og geri mig tilbúna fyrir skólann. Ég er í skólanum frá 8-16:30 næstum alla daga því ég er að taka námið hraðar. Eftir skóla tek ég strætó eða leigubíl í Laugardalslaugina og fer á sundæfingu sem er um tveir tímar. Ég kem heim um 19:00-20:00. Á lengsta degi vikunnar er æfing til 20:30 og þá kem ég ekki heim fyrr en 21:30. Þá á ég eftir að læra og það tekur einhvern tíma. Eftir svona langa daga væri ég alveg til í að fara bara heim að sofa.

Hvaða nám stundar þú?
Ég byrjaði á listnámsbraut í Borgó og stefndi á að verða leikari en færði mig síðan yfir á félagsfræði. Mér fannst leiklistin snúast mun meira um hæfileika heldur en nám. Ég stefni nú á að verða sálfræðingur. Mér fannst mjög erfitt að fara yfir á félagsfræðibraut og byrja aftur í bóklegu námi eftir eins og hálfs árs pásu. Ég kynntist mikið af fólki á listnámsbrautinni og held miklu sambandi við þau.

Hvenær byrjaðir þú í sundinu?
Í byrjun 6.bekkjar fór ég á mína fyrstu sundæfingu. Mér hafði alltaf langað að prófa og elskaði þetta strax. Held að þetta hafi verið í genunum því pabbi var sundmaður.

Hvaða tækifæri hafa opnast fyrir þér í gegnum sundið?
Ég hef farið til Noregs og Svíþjóðar með landsliði fatlaðra. Svo hef ég líka farið til Tenerife með Fjölni. Ógeðslega skemmtilegt og hefur mótað líf mitt. Hérna heima keppi ég og æfi allan ársins hring nema yfir hásumartímann.

 

Sandra Sif Gunnarsdóttir

Hefur þú orðið fyrir fordómum eða aðkasti?
Aðallega þegar ég var yngri og krakkar voru óþroskaðir og algörir kjánar, þá var mér strítt en nú í dag er fólk þroskaðra og ég get ekki sagt að ég verði fyrir fordómum.

Hver er þín helsta hindrun?
Ekkert hindrar mig í mannlegum samskiptum, en auðvitað vinn ég hægar og les hægar en aðrir og þarf að leggja mig tvöfalt fram í skólanum. Ég má helst ekki vera veik þá missi ég af svo miklu.

Hver eru þín framtíðarplön?
Ég stefni á sálfræði í HR, líst vel á námið og svoleiðis. Það eru svo ótal margir staðir sem sálfræðingar vinna á til dæmis á flugvöllum! Ég ætla að halda stöðugt áfram í sundinu og stefni á að fara á Ólympíuleikana í Tókíó árið 2020.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: