Úr sveit í borg

Ritstjórn

Sunneva Guðrún Þórðardóttir skrifar

Mikið af fólki þarf að flytja á einhverjum tímapunkti í lífi sínu og það eru margar ástæður fyrir því. Hvort sem það sé vegna vinnu, skóla, eða að hafa ekki efni á húsinu sínu lengur. Ef til vill hafa rottur náð yfirráðum á heimilinu, kannski er draugur á háaloftinu og það vill engin trúa þér! Allavega, þá flytur fólk af ýmsum ástæðum.

Ég hinsvegar er ekkert flutt.  Ég á bara einn annan stað til að búa á.

Ég fór til Reykjavíkur með mömmu minni til að fara í Fjölbrautarskólann í Breiðholti og læra myndlist.  Reyndar líka íslensku, ensku og allt þannig, sem mér finnst í alvöru vera óþarfi. Ég er svo heppin að vita uppá hár hvað ég ætla að vinna við, og það kemur málfræði ekkert við. En auðvitað verður bara að hafa það.

Framhaldsskóli er jú líka besti tími nútíma unglingsins. Þar eignast maður alla vini sína, gerir heimanámið með þeim, fer á skólaböll, djammið og kyssir kannski  sætt fólk. Allt fylgir þetta framhaldsnáminu, svo hver myndi vilja missa af þessu? Tja, að mínu leyti hef ég hef lítinn sem engan áhuga á þessu. Ég er mjög einföld manneskja með einfaldar þarfir. Ég kem úr Ísarfjarðardjúpinu, bý í afskekktum dal umkringd fjöllum. Svo það er svolítið mikið öðruvísi að búa í Reykjavík. Ég vil hafa náttúruna í kringum mig, geta sloppið uppá fjall og dansað og sungið hvar sem er, heyra í fullkominni þögn. Ég er hér í Reykjavík til að sækja menntun sem listamaður. Þegar það er búið er ég farin.

Svo ég er ekki flutt.

Hönnuð fyrir sveit

Ég er ekki hönnuð fyrir borgina. Margir eru það samt. Margir búa í sveit en eru hannaðir fyrir borg. Einhverjir geta lifað af að búa í borg en vilja vera í sveit frekar. Svo eru sumir sem geta verið á báðum stöðum og liðið vel allstaðar! Hinsvegar þá er það sem er í gangi með mig að fólk er að rugla mér saman við þá sem taka borgina í sátt en vilja frekar vera í sveit.

Mjög skiljanlegur misskilningur, en ég vil koma því á hreint að ég er HÖNNUÐ. FYRIR. SVEIT.

Ég er pirruð annan hvern dag hérna! Fyrstu nóttina mína í borginni þurfti ég að halda tveimur koddum við eyrun til að sofa! Bílarnir hættu ekki að keyra!  Það eru fólk fyrir utan að öskra og ég veit ekki hvort þau séu drukkin eða að drepa hvort annað.

Allavega þá hefur þetta lagast svolítið. Ég tek borgina aldrei í sátt sem heimili, en ég hef komið mér nógu mikið fyrir til að hafa það gott. Ég fann mér nýtt áhugamál, LARP (live action role playing). Það krefst þess að hanga með fólki sem ég á mikið sameiginlegt með. Ég er m.a. að eignast alvöru vini. Svo það hefur veitt mér mikla hamingju. Reyndar þegar ég tala um þetta nýja áhugamál horfir fólk á mig með ákveðnum svip: „Ó guð blessi hana, hún er loksins að eignast vini, vonandi hættir hún að tala um það samt…” En “that is but a small price to pay.”

Ég hef alltaf þessa löngun til að komast heim í sveitina. Mér finnst ég alltaf vera svolítið föst. Eins og ég geti ekki farið neitt til að vera í friði. Ég kann ekki að keyra, og það er fólk hvert sem maður fer. Eitt það skemmtilegasta sem ég geri heima, er að fara inn í dal með bók og lesa hana upphátt. Ég kemst í karakter og allt. Svo legg ég hana frá mér stundum og tala við sjálfan mig. Því það er það sem ég geri líka mjög mikið. Tala við sjálfa mig. Ég hef farið í tveggja klukkutíma gönguferð upp á fjall með bara sjálfri mér. Því ég er góður félagskapur og það sem mér dettur í hug líka! Svo gat ég bara skipt um persónuleika og talað við einhvern allt annan. Einu sinni lék ég heilan landnámshóp! Heil halarófa af fólki sem gekk á eftir mér. Ég var leiðtogi þeirra, Zakkarín og líka traustur vinur minn og lögreglustjóri, Bjartmar. Ég dó reyndar á endanum og allir voru mjög leiðir.

Nægur félagsskapur fyrir sjálfa mig

Svo já. Ég er alveg nægur félagskapur fyrir sjálfa mig. Ég vil bara ljúka náminu mínu, komast burt úr Reykjavík, verða sjálfstæður listamaður, búa í sveitinni minni kannski með aðstöðu á Hólmavík. Ég verð auðvitað ekki alveg vinalaus að eilífu. Svo það er mitt líf.

Hver sá sem segir mér að sækja listnám í Ameríku eða Þýskalandi, stíga út fyrir þægindaramman, eignast börn eða flytja til útlanda til að fá betri vinnu hefur greinilega ekki verið að fylgjast með… ÉG HEF ÞAÐ GOTT SVONA! Ég er fyrir utan þægindarammann með því að vera í Reykjavík!

Það þarf ekkert að hjálpa mér að móta framtíðina mína. Ég vil bara vera svona. Ég tek ekki borgir í sátt, hætti ekki að lesa svona mikið og fer meira að hanga með lifandi fólki, hætti ekki að loka mig af og hætti ekki við drauminn um það að búa ein á fallegum, afskekktum stað þangað til ég dey hamingjusöm ekkja, (þessi bráðheppni gæi sem ég giftist, skal gjöra svo vel að drepast á undan mér). Ég vil fá að vera í friði mínar síðustu stundir á jörðinni. Ég er ekki með einhver stórkostleg örlög sem ég þarf hjálp við að uppgötva. Ég er ekki blind manneskja sem þarf hjálp til að finna minn veg í lífinu.

Því ég er svolítið sjaldgæf persóna. Ég veit alveg hvað ég vil. Ég hef vitað það í mörg ár. Ég er róleg. Ég er ánægð. Ég á mér fullkomlega fínan veg! Já, hann er lítill og ómerkilegur fyrir sumum, en ég þarf ekki meira.

Svo þetta er sagan mín. Sveitastelpa sem flytur í borgina.  

Ég er ekki gott dæmi ef ég á að segja eins og er. Ég er er ekki alveg geðhraustasta manneskja í heimi. Ég er sérvitur og er innhverfari en öfug peysa. Þið hefðuð allt eins getað tekið viðtal við Gísla í Uppsölum.

Ég er samt bara eins og ég er.

Takk fyrir mig.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: