#háskólaríhættu | Undirfjármögnun hjúkrunarfræðideildar

Elísabet Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðinemi við Háskóla Íslands skrifar

Breytt aldurssamsetning þjóðar og skortur á hjúkrunarfræðingum er alvarlegt vandamál sem íslenskt heilbrigðiskerfi stendur meðal annars frammi fyrir. Vandamálið er fjölþætt, ljóst er að margt spilar inn í en tvenn mikilvægustu atriðin eru undirfjármögnun Hjúkrunarfræðideildar og skortur á hjúkrunarfræðingum. Um helmingur fastráðinna kennara Hjúkrunarfræðideildar mun fara á eftirlaun á næstu 10 árum. Á Landspítalanum starfa um 1800 hjúkrunarfræðingar og hátt í 300 af þeim eru eldri en 60 ára og fara því á eftirlaun á næstu árum. Sem stendur útskrifast um 120 hjúkrunarfræðingar úr háskólum landsins á hverju ári en þeir skila sér ekki allir í heilbrigðiskerfið. Skortur á hjúkrunarfræðingum til starfa í háskólum og á klínískum vettvangi er alþjóðlegt vandamál. Það þarf að sjá til þess að nægjanlegur fjöldi sé starfandi til þess að heilbrigðiskerfið starfi eðlilega.


Undirfjármögnun háskólans er veruleg en ef litið er sérstaklega til Hjúkrunarfræðideildarinnar þá dróst fjárveiting til starfsemi hennar saman um þriðjung frá 2007 til 2012. Fjárveitingar til hjúkrunarfræðináms á Íslandi hafa alla tíð verið minni en fjárveitingar til sambærilegs náms, bæði í innlendum og erlendum samanburði. Nýlegar tölur sýna að greinar Heilbrigðisvísindasviðs eru reknar fyrir brot af því sem sambærilegar greinar kosta annars staðar á Norðurlöndunum, þrátt fyrir að hér á landi eru oft fjöldatakmarkanir. Framlög á hvern nemenda í hjúkrunarfræði á Íslandi nemur aðeins 45% af framlögum á hvern nemenda í Danmörku samkvæmt skýrslu sem háskólar í Danmörku gáfu út. Benda má á að í Danmörku fá sjúkrahús greitt frá háskólunum fyrir það að taka við nemendum í klínískt nám. Það er ekki gert á Íslandi þar sem spítalinn sjálfur er verulega undirfjármagnaður og því verður vandinn enn meiri fyrir vikið. Fastráðnum kennurum við deildina hefur einnig fækkað og er nú hlutfall nemenda á fastráðinn kennara í grunnámi 23 í hjúkrunarfræðideild, til samanburðar er hlutfallið 10 í læknadeild og 16 í sjúkraþjálfun.

Undirfjármögnun hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands birtist greinilega í alvarlegri stöðu klínískrar kennslu í grunnnámi. Hjúkrunafræðinemar eyða stórum hluta af námi sínu í klínísku verknámi á spítalanum. Þar sjá svokallaðir deildarkennarar um kennsluna en þeir sjá um skipulagningu náms á spítalanum frá degi til dags. Upphaflega fengu deildarkennarar laun fyrir starfið frá hjúkrunarfræðideild en því varð að hætta í sparnaðarskyni. Á meðan deildarkennarar þáðu laun fyrir starfið leiðbeindu þeir nemendum umfram aðra hjúkrunarfræðinga á deildunum. Eftir að greiðslur lögðust af eiga allir hjúkrunarfræðingar á spítalanum að deila ábyrgð á leiðsögn nemenda í samræmi við skyldur þeirra sem starfsmanna á háskólasjúkrahúsi. Þannig bætist leiðsögn nemenda ofan á dagleg störf hvers og eins hjúkrunarfræðings þar sem mikið álag ríkir og er því ástæða til að óttast að nemendur fái ekki nægilega kennslu og eftirlit á klínískum vettvangi.

Fleiri vandamál steðja að hjúkrunarfræðideildinni en aðstaða fyrir nema hefur verið mikið í umræðunni. Myglusveppur hefur komið upp í húsnæði hjúkrunarfræðinema og er nú verið að ráðast í framkvæmdir þar. Á sama tíma er búið að stækka árganga í hjúkrunarfræði og auka fjölda þeirra sem komast inn á hverju ári. Ljóst er að húsnæðið mun ekki lengi standa undir þessum aukna fjölda eins og staðan er núna. Mögulega þarf að dreifa árgöngunum um háskólasvæðið sem er raunin nú og það veldur miklum óþægindum fyrir nemendur og kemur niður á félagslífi þeirra. Einfaldast væri að Hjúkrunarfræðideild fengi allt Eirberg til umráða en svo er ekki núna þar sem Landspítalinn hefur heila hæð í B-álmu.

Ljóst er að huga þarf að ýmsum atriðum þegar það kemur að menntun hjúkrunarfræðinga. Rótin að flestum vandamálum deildarinnar er undirfjármögnun hennar. Gera þarf grundvallarbreytingar á fjárveitingu til námsins. Fjárveiting til náms í hjúkrunarfræði þarf einfaldlega að miðast við eðli klínísks náms í starfsmiðaðri fræðigrein. Það hefur óhjákvæmilega áhrif á upplifun nemenda þegar það ríkir mikið álag á spítalanum og lítill tími gefst til að sinna þeim. Jafnvel er hægt að velta því fyrir sér hvort gæði klínísks náms hafi áhrif á hvert hjúkrunarfræðingar fara að vinna eftir útskrift.

Heimild:
Helga Jónsdóttir, Þóra Jenný Gunnarsdóttir, Birna G. Glygenring, Auður Ketilsdóttir, Marianne E. Klinke og Þorbjörg Sóley Ingadóttir. (2013). Framtíð klínískrar kennslu í grunnnámi í hjúkrunarfræði. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 3(89), 8-11.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: