Þrjú ljóð eftir Arnór Stefánsson

Ritstjórn

Sól

Skuggarnir teygðu úr sér,
þreyttir eftir langan dag.
Með birtuna í augunum beið ég,
beið eftir að hún legðist til hvílu.
Er hún breiddi yfir sig dúnmjúkri sænginni,
þá hvíslaði ég til hennar með hrjúfum rómi.
Hvíslaði til hennar kveðju.
Og vonaðist til að sjá hana morguninn eftir.

Arfberar lífsins

Við sem fengum lífið í arf,
urðum arfberar sjálf.
Föst með sjúkdóminn hvílumst við ekki,
fyrr en lækning finnst.

Vitringurinn og barnið

Hæ hæ, litla barn. Ég kem til þín með vandamál sem ég vona að þú getir leyst. Ég var að forvitnast um hvort ég mætti fá hugsanir þínar að láni, ég hef nefnilega fengið leið á mínum eigin. Ég veit hversu afleit mín bón kann að virðast; hversvegna myndi ég vilja skilja við mína óviðjafnanlegu snilligáfu sem ofar flestum nær og í staðinn fá þinn einfalda, fábrotna hug? Það er vegna þess ég hef fengið nóg af þönkum sem eru of þungir til að bera. Ég hef fengið nóg af þeirri kvöl sem brennandi forvitnin kann mér að valda. Ég vil ei lengur þjást því ég veit að heimurinn er þjáður. Ég vil finna fyrir þeirri sælu sem sá glórulausi býr yfir; brosa með smælingjunum sem virðast ekkert skilja. Það þýðir víst ekkert að reyna að fá þig til að sjá hvar vandi minn liggur og getur þú þá seint hugarangur mitt sefjað. Því kveð ég að sinni, litla barn, ég óska þér alls hins besta. Og þú brosir á móti mér, út að eyrum, og sólin í augum þér glampar.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: