Streita: Hvaða áhrif hefur of mikið álag á líf unglinga?

Sara Mansour

Katrín Rut Magnúsdóttir og Sara Mansour skrifa

Streita tengd tímaskorti

Frá því að við hófum skólagöngu okkar hafa ákveðnar væntingar verið gerðar til okkar; að standa okkur vel, að gera okkar besta og að sýna samviskusemi. Skólinn þarf að vera númer eitt, tvö og þrjú í forgangsröðinni – en hvar á okkar eigin geðheilsa að koma í þessari blessuðu röð? Ég las einu sinni heilræði sem hafði þó nokkur áhrif á mig: „Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag þá hefurðu ekki heilsuna fyrir tímann á morgun“. Það er margt til í þessu! Hvernig í ósköpunum eigum við að hafa orku og heilsu í öll verkefni sem verða á vegi okkar ef við höfum ekki orku og tíma til að hugsa um sjálf okkur. Við höfum öll misþykkan skráp, eðlilega, en við höfum líka öll okkar mæli sem fyllist á endanum af álagi og streitu.

Í sólarhring eru 24 klukkustundir. Mælt er með að unglingar fái um 8-10 tíma svefn. Skóladagur er á bilinu 6-8 klukkustundir og eftir skóla bíður heimavinnan sem er mismikil. Mælt er með að hreyfa sig í að minnsta kosti klukkutíma á dag. Rúmir 3 klukkutímar fara í að borða og það er ætlast til að unglingar eyði um klukkustund með fjölskyldu sinni á degi hverjum. Hér á landi eru nær allir á framhaldsskólaaldri í vinnu með skóla. Ef við setjum þessar upplýsingar upp í einfalda jöfnu er niðurstaðan sú að við klukkutímarnir í sólahringnum eru einfaldlega ekki nógu margir til að hugsa um okkur sjálf, til að hitta vini okkar og sinna okkar helstu áhugamálum.

Flestir eiga í frekar stormasömu sambandi við sína eigin rútínu… einskonar ástar-haturs samband. Rútína er góð og nauðsynleg en oft verður hún þreytandi og einsleit. Sérstaklega hérna á Íslandi þar sem veturinn er langur og dagarnir stuttir. Þá læðist að okkur þessi einstaki leiði og að okkur safnast streita sem er næstum óhjákvæmileg.

Streita tengd efnislegum gildum

Samkvæmt nýjustu tölum UNICEF á Íslandi líða alls „9,1% barna hér á landi efnislegan skort“. Það þýðir að í einum grunnskólabekk lifa rúmlega 2 nemendur undir fátæktarmörkum.

Samfélagið sem börn og unglingar þekkja í dag er allt annað en það sem eldri kynslóðir, jafnvel fólk sem er einungis hálfum áratug eldri, kannast við. Auglýsingabransinn hefur aldrei verið jafn góðvænlegur og helsta markmið samfélagsmiðla er að selja sem mest á sem stystum tíma. Til þess að ná því er nauðsynlegt að breyta því sem er „inni og úti“ mjög hratt. Tískustraumar stoppa stutt og hlutir verða úreltir strax og þeir hafa selst nægilega mikið. Gott dæmi um þetta eru símar sem hætta að virka með tilkomu nýrri tegunda.

Þetta endalausa kapphlaup í átt að því sem „skiptir máli“ hverju sinni er lýjandi. Þetta bitnar sérstaklega á stelpum þar sem markaðurinn beinir athygli sinni skammarlaust að óöryggi kvenna og verðleggur þær vörur almennt hærra, sbr. „bleiki skatturinn“. Allur peningurinn sem fer árlega í fatnað, snyrtivörur, tölvuleiki, tæknidót, útlandaferðir, viðburði o.s.frv. nemur mörghundruð þúsundum – mun meira en flestir gera sér grein fyrir og mun meira en þessi 9,1% hafa ráð á. En efnislegur skortur er ekki endilega sjáanlegur utan frá og bekkjarsystkinin tvö ganga líklega í sömu 66°norður úlpu og Timberland skóm og restin af krökkunum. Það þýðir að þau eru að fórna einhverju öðru. Eftir að hafa rætt við krakka á aldrinum 10-18 ára er höfundum ljóst að börn og unglingar myndu nær undantekningarlaust velja vinsæla hluti fram yfir atriði sem skipta máli fyrir líkamlega og andlega heilsu þeirra:
Sleppa kvöldmat í viku fyrir iPhone 7 plus? – „Ein vika er ekkert mál!“
Vaka alla nóttina fyrir Kylie Jenner lip kit? – „Svefn er ofmetinn!“
Meiðast fyrir miða á Justin Bieber tónleika? – „Upplifunin er alveg þess virði!“

Með snaraukinni áherslu á veraldlegar eignir er misskipting auðs augljósari en nokkru sinni fyrr. Þessu fylgir gríðarleg hætta á útskúfun efnaminni barna sem auðvitað bætir á streitu sem fjárhagsörðugleikar skapa. Auk þess afskræmir kapítalisminn gildismat ungmenna og blindar þau fyrir því sem raunverulega skiptir máli, t.a.m. gæðatími með fjölskyldu og vinum og rækt við áhugamál. Þetta er afar hættuleg þróun og mun valda brestum á siðferði og mikilli vanlíðan.

Streita tengd samfélagsmiðlum

Netið og tækninýjungar hafa aldrei spilað jafn stórt hlutverk í lífi mannkynsins og það er alltaf að stækka. Vísindamenn telja víst að atvinnugreinar á borð við þjónustu, muni alfarið leggjast út og verða sjálfvirkar, og sömuleiðis að miklir atvinnumöguleikar séu í samfélagsmiðlum. Það er því óhætt að segja að netið muni breyta legu lands og þjóðar til frambúðar.

Flestöll börn og nánast allir unglingar hafa aðgang að og nota vinsælustu samfélagsmiðlana, s.s. Facebook, Instagram, Twitter og Snapchat. Þau stofna reikning og búa til persónu sem þau fá að vera þegar þau eru skráð inn á þessa reikninga. Nýlega hefur orðið mikil vitundarvakning um muninn á samfélagsmiðlum og raunveruleikanum. Það er reynt að hamra á því hvernig myndin sem við gefum af okkur er ekki alltaf lýsandi fyrir líf okkar. Tökum sem dæmi Instagram-aðgang stelpu sem við lítum upp til. Þar má finna mynd af henni fyrir ball (ótrúlega falleg), henni í ræktinni (ótrúlega dugleg), herberginu hennar (ótrúlega hreint), gæludýrinu hennar (ótrúlega sætt), fjölskyldunni hennar (ótrúlega hamingjusöm), kærastanum hennar (ótrúlega ástfangin) o.s.frv. En kannski er þetta allt svona ótrúlegt vegna þess að þessar myndir birta bara eina hlið af lífinu. Hinum megin er hún kannski að gretta sig eða sveitt eftir æfingar – við lítum ekki alltaf vel út – stundum er rusl í herberginu okkar og stundum eru gæludýrin okkar óþæg, allar fjölskyldur rífast og ekkert ástarsamband er fullkomið. En það eru ekki andartökin sem við festum á filmu. Þeir sem skoða okkar instagram fá það kannski á tilfinninguna að við eigum bara merkjaföt og séum alltaf í sólarlandaferðum, því það er parturinn af lífinu okkar sem við sýnum umheiminum.

Samfélagsmiðlar hafa líka öðlast hlutverk sem mælikvarði á vinsældir og jafnvel verið til marks um meint virði manneskjunnar sem um ræðir. Allir geta séð hversu margir eru að fylgjast með (follow) einhverjum og hversu margir eru að fíla þá (like). Börn og unglingar sjá beinharðar tölur og líta á þær sem algildan sannleika um hver sé fallegastur, fyndnastur eða aumkunarverðastur. Sjálfsálit okkar fer ósjálfrátt að verða háð þessum viðbrögðum á netinu. Við sækjumst í athyglina til þess að staðfesta hvernig við teljum að aðrir sjái okkur. Þetta er skaðlegt fyrir þá sem ná ekki „nægu“ fylgi, en líka streituvaldandi fyrir þá sem þurfa að viðhalda því. Fyrir utan að mörg ,,like” tákna ekki endilega vinmergð og netvinsældir eru ekki ávísun á vellíðan.

Streita tengd útlitskröfum

„5-10% kvenna þjást af átröskun. 40-60% kvenna hefur áhyggjur af þyngd sinni.“ Átröskunum fylgja yfirleitt þunglyndi, kvíði, áfallastreituröskun eða aðrir sambærilegir geðsjúkdómar. Af þeim öllum er átröskun með hæstu dánartíðnina.

Fjölmiðlar hafa sætt mikilli gagnrýni fyrir einhæfni þegar kemur að líkamsgerðum og útliti. Dagsdaglega birtast okkur auglýsingar og sjónvarpsefni með hlutgerðum mannslíkömum; lokaútkoman oft fjarri raunveruleikanum. Á síðustu árum hafa samfélagsmiðlar einnig lagt sitt af mörkum. Þessi stöðugi þrýstingur á að líta vel út veldur unglingum mikilli vanlíðan. Þá er ekki átt við að regluleg hreyfing og heilsusamlegar matarvenjur séu af hinu slæmu, heldur að samanburðurinn við glamúrmyndir getur auðveldlega leitt til öfga. Það að segja börnum og unglingum að þau séu ekki nógu góð, sér í lagi þegar kemur að hlutum sem þau ráða ekki við, er hættuleg leið að fara fyrir samfélagið í heild.

Stöðutogstreita og umönnun sjálfsins

Stöðutogstreita er þegar einstaklingur lendir í aðstæðum þar sem væntingar tveggja staða stangast á. Gott dæmi um þetta er þegar nemandi vill standa sig vel í náminu og sinna því vel en vill einnig taka virkan þátt í félagslífi. Skipulag er ótrúlega mikilvægt ef mikið er um að vera í kringum okkur og við höfum mörg verkefni sem við þurfum að sinna. En sumir hafa einfaldlega ekki þetta „skipulagsgen“ meðfætt. (Síðan er líka hægt að hafa þetta umdeilda gen en hafa einfaldlega of mikið að gera til þess að hægt sé að raða öllu skipulega saman).

Stundum þurfum við muna eftir að taka frá tíma fyrir okkur sjálf.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: