Um markmið og megrunaráróður

Ritstjórn

Katrín Rut Magnúsdóttir skrifar

Áramótaheit eru hefð um allan heim. Þetta eru ákveðin markmið sem sett eru í byrjun árs og þeim á að ná á komandi ári. Fólk ætlar að verða besta útgáfan af sjálfum sér, komast í sitt besta form, borða hollt og lesa helling af bókum eða eitthvað í þeim dúr. „Nú verður sko árið mitt, ég mun mæta í ræktina fimm sinnum í viku, hafa spilakvöld þrisvar í mánuði með fjölskyldunni, heimsækja ömmu allar helgar og ég ætla að hætta að borða nammi og drekka gos.” Svo ári seinna erum við einhvernveginn komin á sama stað og áunnum ekkert nema vonbrygði.

Blessaður janúarmánuður er genginn í garð. Mánuðurinn þar sem allar líkamsræktarstöðvar fyllast og önnur hver manneskja er komin í átak. Mánuðurinn þar sem Solla á Gló dælir út safakúrum í almúginn og sælgætisbarir haldast varla í „business“. Mánuðurinn þar sem reykingarmenn leggja niður rettuna og detta alveg úr jafnvægi vegna nikótínskorts. Finnst þér ekkert ganga upp hjá þér? Ekki örvænta, meirihlutinn af fólki, eða um 80% sem setja sér markmið í byrjun árs ná því miður ekki að láta markmið sína verða að veruleika. Af hverju skildi það vera? Eru þessi markmið svona ótrúlega óraunhæf eða erum við einfaldlega bara misheppnuð?

Markmiðasetning er góð og nauðsynleg. Eitt af lykilatriðunum til að ná velgengni er að setja sér markmið jafnt og þétt. Ljósaperan var ekki fundin upp á einni nóttu heldur tók þrautseigju, þolinmæði og mikla vinnu til að fullkomna verkið. Það sama á við þegar markmiðum er fylgt. Við getum allt sem við ætlum okkur en ef við setjum okkur óraunhæfar væntingar geta markmiðin farið í vaskinn. Áramótaheit eru oft himinhá og ná yfir svo langt tímaskeið. Meira að segja stundum allt árið! Áramótaheit eru oft sett á röngum forsendum t.d þegar ætlað er að ná útlitslegum breytingum.

Hreyfing er mikilvæg. Hún er góð fyrir bæði líkamlega og andlega heilsu. Það eru til óteljandi útgáfur af hreyfingu svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Um leið og hreyfing er orðin að refsingu er erfitt að halda áfram að stunda hana. Að mæta í ræktina bara til þess að brenna kaloríunum sem þú borðaðir daginn áður er ekkert skemmtilegt. Útlitsleg markmið, t.d. að fá flatan maga eða bil á milli læranna eru óraunhæf markmið sem fylgja útlitsdýrkun samfélagsins. Hamingja er ekki falin í holdafari og hitaeiningum, svo einfalt er það.

Markmið sem eru sett í flýti, án aga og vilja, eru mjög líkleg til að fjara út. Ekki er til ein örugg leið til að tryggja velgengni en jákvætt hugafar og skipulag er ótrúlega mikilvægt. Að segja einhverjum öðrum frá hver markmið manns eru eða skrifa þau niður er mikil hvatning. Að taka lítil en örugg skref í rétta átt er einnig mikilvægt og ef eitthvað gengur ekki upp þarf ekkert að gefast upp. Áskoranir eru til að yfirstíga!

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: