Mig langar að vera frávik – Jóhannes Bjarki Bjarkason er Skoffín

Eva Dröfn Hassell Guðmundsdóttir

Eva Dröfn H. Guðmundsdóttir skrifar

Þann 5. janúar settist ég niður með Jóhannesi Bjarka Bjarkasyni, eða Jóa eins og hann er oftast kallaður. Hann er á sínu 21. aldursári og er lífsreyndur drengur að læra stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann segir mér frá sér sem tónlistarmanni en undanfarið hefur hann komið fram undir listamannanafninu Skoffín. Við ræðum um tilveruna, tónlistarsenu Íslands og tónlist í félagslegu samhengi. Líf Jóhannesar hefur alltaf verið litað af tónlistinni á einn eða annan máta;  hann hefur stundað tónlistarnám frá barnsaldri, veit furðulega mikið um tónlistarstefnur síðari tíma og að ógleymdu David Bowie tattúinu á vinstri hendi hans. Jóhannes hefur spilað í mörgum hljómsveitum gegnum tíðina en fyrir um það bil ári tók hann krappa beygju og lagði drögin að sínu eigin tónlistarverkefni, Skoffín. „Ástæðan fyrir því að ég ákvað að gera þetta sjálfur er sú að mér fannst eins og ekkert sem ég gæti gert sem kæmi frá sjálfum mér, því sem mig langar að gera listrænt séð, myndi verða til í hljómsveitum – í föstu samstarfi með öðru fólki. Ég var búinn að vera í hljómsveit með prýðisgóðu liði haustið 2015 og fyrstu mánuði 2016 þegar við tókum þátt í Músíktilraunum. Okkur kom vel saman. Það var ekkert vesen og gaman að spila.“ Hann segir mér frá því að þau hafi ekki komist lengra en undankvöldið, líkt og hin fimm skiptin sem Jói hafði tekið þátt í keppninni. „Ég myndi ekki segja að ég væri beint tapsár en þá fannst mér eins og ég hefði klikkað á einhverju, ekki verið nógu fastur á því sem mér fannst mega betur fara. Ég var viss um að við ættum ekki að gera ákveðna hluti svona og hinsegin. Ég vissi alveg hvað við þurftum að gera en það komst ekki í gegn útaf málamiðlunum sem maður þarf að gera.“

Ég veit nákvæmlega hvað ég vil!

Það var í kjölfar þessara síðustu Músíktilrauna sem hann hugsaði með sér að eigin sögn: „Fokk this! Ég er hættur. Ég nenni þessu ekki. Ég ætla bara að gera þetta sjálfur því ég veit nákvæmlega hvað ég vil!“ Þá lá fyrir hvert förinni var heitið. Hann hafði samband við bróður sinn sem er líka tónlistarmaður og er búsettur í London. Jóhannes ferðaðist til London og tók upp litla smáskífu í stúdíói bróður síns. Sú smáskífa inniheldur fjögur lög og heitir „Í Hallargarðinum“. Hana er hægt að nálgast á Bandcamp og Soundcloud. Síðan hefur hann reynt að vera virkur og komið fram á tvennum tónleikum! „Á menningarnótt í sumar kom ég fram á tónleikum með nokkrum hljómsveitum, þar á meðal Váru en strákarnir í Váru spiluðu einmitt undir hjá mér þar. Ég kom aftur fram um daginn sem hluti af setti sem Brilliantinus var með. Kormákur Jarl, maðurinn á bakvið Brilliantinus, heyrði í mér því hann vantaði uppfyllingarefni fyrir settið. Kormákur, Andrés Þór úr Milkhouse og Bjarni Daníel úr Váru spiluðu með mér á þeim tónleikum. Skoffín er bara ég en til að koma fram hef ég fengið vini mína til að spila með mér. Þetta er allt saman rosa náið samskiptanet tónlistarmanna og allt sama liðið sem er í þessari grasrót.“

Megas, Bowie og Botnleðja

Eitt lagið á smáskífunni sem kom út í sumar heitir „Ég er innblásinn af Magnúsi Þór Jónssyni“, sem er dagssatt! Jóhannes minnist á innblásturinn frá Megasi, Botnleðju sem og öllu í kringum hann. Talið berst að David Bowie en á tíma viðtals styttist í fæðingardag hans, þann 8. janúar. „Mér finnst ég aldrei geta sagt að Bowie sé áhrifavaldur því hann er bara svo mikill listamaður. Hann er svo mikill hugsuður og hugsjónamaður. Mér finnst ég smækka ef ég líki sjálfum mér við hann, sem ég mun aldrei gera og finnst mjög óþægilegt þegar aðrir gera það.“ segir hann og hlær. „Ég er vissulega mjög innblásinn af honum. Aðallega þá af fagurfræðinni og stílnum hans. Ég get ekki sagt af tónlistinni hans því Bowie daðraði við svo margar ólíkar tónlistarstefnur. Það sem ég tek frá honum er aðallega viðhorf hans til listsköpunnar, myndi ég segja. Að auki var hann ekki bara tónlistarmaður heldur líka myndlistamaður, leikari og náði að snerta á svo mörgum hliðum mannlegs lífs! Svona svipað eins og Megas. Það eru margir sem halda að Megas hafi bara verið tónlistarmaður en hann var náttúrulega líka einfaldlega ljóðskáld, handritshöfundur og myndlistamaður. Kannski ástæðan fyrir því að ég laðast að svona solo-karlkyns-listamönnum sé einfaldlega því ég vil líkjast þeim. Mig langar að geta gert þetta og mig langar ekki að þurfa bakland af hljómsveit til að geta gert það sem ég vil.“
Við gefum okkur smá tíma til að hugsa til stjörnumannsins: „Mínútu þögn. 5 mínútur takk.“

List, ekki áhugamál

Eins og áður kom fram er Jóhannes háskólanemi en tónlistin er langt frá því að vera bara áhugamál með skólanum. „Þetta er náttúrulega bara það sem maður elskar að gera. Þú myndir aldrei segja við myndlistarmann „Þetta er bara hobbí hjá þér, að mála myndir“. Mér finnst þessi umræða um hvað gerir listamenn að listamönnum vera svo föst í skilgreiningum. Um leið og þú gerir svona þá ertu listamaður, um leið og þú gerir svona þá ertu það ekki. Fyrir mér er þetta bara list, þetta er ekki áhugamál. Þetta er það sem mig langar að gera, það sem ég ætla að gera.“ Undanfarið haust hefur hann verið upptekinn og ekki haft mikinn tíma fyrir Skoffín. Hann kippir sér samt lítið upp við það. „Ég ætla að leyfa þessu bara að fljóta af sjálfu sér. Mér finnst þetta vera önnur hlið af lífi mínu, svona alter ego. Núna í haust hef ég ekkert haft tíma til að stússast í einhverjum gaur sem finnst gaman að vera með læti, þá er ég að tala um þetta Skoffín.“

Ekki fast listform

Önnur ástæða sem Jóhannes nefnir fyrir því að hafa ekki mikið unnið að Skoffín í haust er að það er engin föst hljómsveitaskipan. Það hefur helst áhrif á æfingarnar og tónleika en leyfir Jóhannesi að framkvæma á sínum eigin hraða. Hann er hinsvegar heppinn með vini sem styðja hann í tónlistinni og æfa með honum. „Þetta er ekki hljómsveit í þeim skilningi að það eru fastir hljómsveitameðlimir sem koma saman og æfa. Það er alltaf pláss fyrir minnkun eða stækkun. Núna í dag er þetta fast fjögurra til fimm manna band en ég er alveg að sjá fram á að minnka þetta niður í einn, stækka uppí tuttugu manns, vera með stærri útsetningar, halda þessu í ekki föstu listformi. Kannski tek ég uppá því einn daginn á tónleikum að bara lesa ljóð eða gefa út ljóðabók, sýna kvikmyndir eða myndbönd uppá sviði! Það er ekkert ritað í steininn.“ Aðspurður hvort þessi útfærsla sé ádeila á það hefðbundna við tónlistarheiminn segir Jói að svo sé ekki. Fremur mætti segja að hann væri að reyna að brjóta upp þetta hefðbundna. „Eins og við sjáum í dag þá er tónlist öll að brotna. Ekki brotna niður heldur brotna upp, ef ég mætti svo að orði komast. Mikil áhersla er lögð á einstaklinginn sem tónlistarmann.“ Hann nefnir sem dæmi hip-hop stjörnur á Íslandi í dag, Emmsjé Gauta og Aron Can, sem eru þekktir sem einstaklingstónlistarmenn. „Þess vegna er þetta ekki ádeila, mér finnst bara kominn tími á að koma þessu fyrir í öðrum tónlistarstefnum. Rokktónlistin hefur alltaf verið lituð af svona föstum fjögurra manna böndum. Mig langar að vera frávik, mig langar ekki að vera hluti af norminu.“

Láttu það vera þess virði

Nafn verkefnisins, Skoffín, vísar til dýrs sem kemur fyrir í þjóðsögum Jóns Árnasonar. „Það er afkvæmi refs og kattalæðu. Ástæðan fyrir því að ég valdi það er að mér fannst það líta vel út og hljóma vel, til að byrja með. Síðan fór ég að pæla hvernig hægt er að draga tengsl á milli skoffínsins og tónlistarinnar minnar. Það er eins og tónlistin mín sé afkvæmi ólíkra tónlistarstefna. Þetta er blanda af pönkframkomu, lagasmíðin er rosa poppuð með grípandi laglínu og síðan þessi eða þjóðlagaþáttur, sem litar textana.“ Textana skrifar hann sjálfur og hefur líka skrifað svolítið af ljóðum sem eru oft hluti af textasmíðinni. „Sum ljóð verða að lögum, önnur verða bara áfram ljóð.“ Við ræðum #ljóðafimmtudagar á Twitter og segist hann hafa verið duglegur að taka þátt í þeim. „Ég veit ekki af hverju, en mig langaði bara að gera eitthvað við ljóðin í staðinn fyrir að halda þeim fyrir sjálfan mig. Ég er aldrei eitthvað spéhræddur varðandi listina mína. Ég veit að ég er ekkert besta ljóðskáld í heimi, besti gítarleikari í heimi eða besti söngvari í heimi en það skiptir mig engu máli; Það skiptir ekki máli hvað þú getur, heldur hvað þú gerir!“ segir Jói og vitnar í Einar Örn úr Purrki Pillnikk. „Það hefur alltaf verið mín mantra í lífinu. Það er líka alveg rétt! Það skiptir ekki máli hvað þú getur, heldur hvað þú gerir. En jafnvel þótt þú gerir eitthvað, láttu það vera þess virði. Ekki gera eitthvað bara til þess eins að að gera það. Gerðu eitthvað af því að þér finnst þú þurfa að koma einhverju á framfæri. Ég er ekki að tala um að þú þurfir að hafa eitthvað æðra markmið eða tilgang. Hvort sem það sé bara að þér finnist þetta vera skemmtilegt, stjórnist af tilfinningum, svo lengi sem þú hefur ástæðu þá er það strax farið að verða betra en að gera eitthvað bara til að gera það.“

Auðveldara að kaupa tölvu en að finna húsnæði?

Íslenska tónlistarsenan hefur alltaf verið opin fyrir nýsköpun samkvæmt Jóhannesi Bjarka og það mun ekki breytast. Sömuleiðis er hægt að sjá tónlistarsenuna í dag og tengja við tónlistarsenur fortíðar „Tónlistarsenan á Íslandi í dag er mikið lituð af hip-hopi. Ég er ekki mikill aðdáandi en jújú, hún er góð. Þetta er flott sena. Þetta svipar alveg til frægu pönksenunnar á Íslandi, Rokk í Reykjavík, níunda áratugs dæmi – sem er geggjað.“ Tónlistarsenan litast af mörgum mismunandi þáttum og margt sem er hægt að lesa úr henni í samhengi við ýmis mál. Sem dæmi segir Jói að honum finnist gaman að tengja tónlistarsköpun við samfélagið og félagslega þætti dagsins í dag. Upp úr þeim pælingum leggur hann fram áhugaverða kenningu: „Ég hef lengi pælt í því hvað verður til þess að sumar tónlistarstefnur verði vinsælli en aðrar. Er hægt að útskýra það með því hvernig samfélagið lítur út? Af hverju leita fleiri einstaklingar út í raftónlistarstefnurnar en að mynda bílskúrsband með vinum sínum. Hvað er það sem fær fólk til að vilja frekar skapa tónlist í tölvu en í bílskúrsrými? Ég hef allavega haldið því fram að vegna skorts á húsnæði fyrir hljómsveitir finnst fólki auðveldara að kaupa sér tölvu og stússast inní herbergi hjá sér en að fara að kaupa sér hljóðfæri, kaupa sér magnara, finna félaga til að spila með sér og finna húsnæði til að æfa í, sem ég tel vera mikilvægasta þáttinn. Húsnæði í Reykjavík er af svo skornum skammti yfir höfuð, og því kannski ekki furða að tónlistarsenan breytist í takt við aðstæður.“

Þetta má vel vera en við látum aðra um að pæla nánar í þessu. Stóra spurningin er samt sem áður: Í samfélagi þar sem húsnæði er af skornum skammti og raftónlistin blómstrar, gæti það gerst að rokkið myndi deyja út? „Það er alltaf grundvöllur fyrir rokktónlist og pönk, svo lengi sem það eru til rafmagnsgítarar þá er fólk að fara semja rokktónlist. Hversu oft hefur fólk haldið því fram að rokkið sé dautt? Vissulega hefur rokktónlist séð betri daga, en faktískt séð held ég að hún sé ekki á förum. The rock is not dead, as long as I‘m living. Djók. Ekki skrifa þetta síðasta.“

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: