„Kynslóðin sem kýs ekki” – #ÉgKýs

Inger Erla Thomsen

Undanfarin ár hefur Samband íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, unnið að undirbúningi skuggakosninga í framhaldsskólum ásamt Landssambandi æskulýðsfélaga, LÆF.  Í sveitarstjórnarkosningunum árið 2014 var kjörsókn eftir aldri, skrásett í fyrsta sinn. Niðurstöðurnar voru sláandi þar sem aðeins helmingur fólks undir 30 ára aldri sótti kjörstað. Kosningar eru lykillinn að lýðræði. Þegar kjörsókn er svona dræm virkar lykillinn ekki eins og hann á að gera. Þess vegna þurfum við að sinna okkar lýðræðislegu skyldu og mæta á kjörstað. Með dræmri þátttöku í kosningum erum við unga fólkið ekki virkir þátttakendur í lýðræðinu og til verður lýðræðislegur halli á milli kynslóða. Það ógnar bæði samfélagsstöðu ungu kynslóðarinnar og lýðræðinu í heild sinni. Það er því löngu tímabært að grípa í taumana.

Jenný Mikaelsdóttir

„Við viljum auka lýðræðisvitund, skapa þekkingu um kosningahegðun ungs fólks og veita þeim rödd sem ekki hafa aldur til að kjósa,” segir Tinna Isebarn, framkvæmdastjóri LÆF, en hún er verkefnastjóri verkefnisins #ÉgKýs ásamt Hildi Björgvinsdóttur, framkvæmdastjóra SÍF. Þær hafa unnið hörðum höndum að undirbúningi og framkvæmd verkefnisins #ÉgKýs sem er  lýðræðisátak og felst í því að auka kosningaþátttöku og lýðræðisvitund ungs fólks. Rannsóknir hafa sýnt að ungt fólk  kýs síður en eldra fólk og virðist sem það sé alþjóðlegt mynstur. Í nágrannaríkjunum hefur það sýnt sig og sannað að sambærileg verkefni #ÉgKýs hafa aukið lýðræðislega þátttöku ungs fólks og borið mikinn árangur. Við unga fólkið þurfum að gera okkur grein fyrir því að lýðræðið skiptir okkur máli, ef við viljum lifa í samfélagi sem byggist á okkar kröfum. Með því að kjósa ekki kýs einhver önnur kynslóð fyrir okkur. Tinna og Hildur segjast því vona að verkefnið og skuggakosningarnar beri árangur, að kjörsókn ungs fólks muni verða góð þann 29.október, svo lýðræðið fái að blómstra.

Til þess að sporna við dræmri þátttöku ungs fólks var haldin lýðræðisvika 10. – 13. október í 22 framhaldsskólum landsins sem endaði á skuggakosningum þann 13. október. Hver skóli hélt sína útgáfu af lýðræðisvikunni þar sem ýmist voru haldnar pallborðsumræður eða fulltrúum flokkana boðið að kynna stefnuskrár flokkanna í básum. Lýðræðisvikan virðist hafa haft góð áhrif, mæting og þátttaka nemenda og kennara í skólunum var til fyrirmyndar og umræður góðar. Það verður því áhugavert að sjá bæði kjörsókn og niðurstöður skuggakosninganna þegar þær verða gerðar opinberar eftir að kjörstöðum Alþingiskosninga hefur verið lokað þann 29. október.

JennÝ

Dræm þátttaka okkar unga fólksins í lýðræðinu er áhyggjuefni. Við vitum öll að hvert atkvæði skiptir máli og því verðum við að sýna áhuga á samfélagi okkar og framtíð þess. Við erum alin upp í vanþróuðu lýðræði þar sem eldri kynslóðirnar ráða. Þörf er á breytingu sem krefst þátttöku ungs fólks. Við, stór hluti þjóðarinnar, getum ekki setið þegjandi og hljóðlaust hjá. Mætum á kjörstað og sýnum hvað í okkur býr. Komum málefnum okkar í sviðsljós pólitískrar umræðu og látum í okkur heyra, rétti tíminn til þess er akkúrat núna. Kynnum okkur málin á egkys.is og kjósum eftir að taka upplýsta ákvörðun 29. október.

#ÉgKýs því við erum framtíðin.
#ÉgKýs því mér er ekki sama.

 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: