-það er ekkert smá mikið af dauðum fuglum á götunni, sagði hann eins og kjötætan sem hann var í sömu andrá og við keyrðum framhjá þriðja fuglshræinu sem hafði orðið á vegi okkar síðan við lögðum af stað úr bænum upp úr hálf tíu.

nokkrir dagar voru liðnir af ágústmánuði og sólin hafði verið óvenju vingjarnleg síðan hún fór fyrst að vera áberandi um mitt sumar. það var samt farið að dimma áberandi hraðar síðustu daga, og lagðist haustið á okkur með misjöfnum þunga eins og annað.

við vorum á leiðinni austur. við þurftum lítið að stoppa á leiðinni og vegurinn var að mestu malbikaður svo bílferðin var þægileg og fór mestöll í að skiptast á að velja tónlist og tala saman. það var ekki mikið um þagnir en þagnirnar voru engu óþægilegri en lætin. þetta finnst mér einkenna okkur sem hóp.

við komum í þorpið fyrir austan þegar langt var liðið á nóttina. einn okkar átti ættir að rekja þangað og hafði okkur verið lofaður aðgangur að rauðmáluðu húsi þar í tæpa viku til að vinna. þetta var skáldasetur, og nokkuð var um ummerki þess inni í húsinu, eins og við komumst að þegar við fórum að litast um og koma okkur fyrir. kjallarinn undir eldhúsinu var fullur af bókakössum,sem og svefnherbergin þrjú og í hverri skúffu mátti finna penna og skrifblokkir. fleiri veggir voru undir bókahillum en ekki og stór hluti af kjölum bókanna bar nafn alnafna og afa vinar okkar.

morguninn eftir var mildur, eins og allir dagarnir sem við áttum eftir að eyða í þessu afskekkta þorpi. þegar við stigum útfyrir, ég og vinur minn, eftir að hafa hellt upp á kaffi tókum við eftir því sem myrkrið hafði skýlt þegar við komum fyrst að húsinu, að garðurinn var fullur af trjám og runnum, og honum virtist haldið vel við þó enginn byggi lengur í húsinu allan ársins hring.

það var hlýtt þennan morgun og við fengum okkur sæti við borðið á stéttinni framan við útidyrahurðina. við helltum kaffi í bolla skáldsins og kveiktum okkur í sígarettu. drógum inn fyrsta reykinn samtímis. einmitt þá tróð morgunsólin sér yfir húsþakið svo hún skein beint í andlitið á vini mínum. við ákváðum því að að færa okkur um set og tilltum okkur í grasið undir trjánum fyrir aftan húsið. þar var bæði skjól og skuggi svo við létum okkur hafa það að blotna smávegis á rassinum.

-ég hef fengið minn skerf af sólskini, sagði vinur minn skáldlega eftir stutta umhugsun og hallaði sér aftur í grasinu, nú má alveg fara að rigna. hann hafði varla sleppt orðinu þegar við fundum fyrstu regndropa þessa sólríka dags þröngva sér í gegnum laufblöðin fyrir ofan og fleygja sér framan í okkur. ég fann strax á honum að hann sá eftir því sem hann hafði sagt. ég vissi líka að hann myndi aldrei segja það upphátt.

bjarni daníel

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: