Að búa á heimavist: Þetta snýst bara um hugarfarið

Ritstjórn

Rebekka Hekla Halldórsdóttir skrifar

Ég ólst upp í einni afskekktustu sveit landsins sem ber nafnið Fljótin og heitir grunnskólinn þar Sólgarðaskóli. Á meðan á skólgöngu minni stóð fór nemendafjöldi skólans aldrei yfir 20 börn. Í dag sækja einungis sex börn skólann. Þegar ég lauk 7. bekk í Sólgarðaskóla fór ég til Hofsósar, eins og vaninn var þá, en þar voru um fimmtíu nemendur í skólanum. Haustið 2013 hóf ég nám við Menntaskólann á Akureyri eftir að hafa lokið 9. bekk og því aðeins fimmtán ára gömul. Þá flutti ég á heimavistina Lund. Þar sem ég kom úr svona litlu samfélagi hafði ég búið mig undir að verða fyrir einhverskonar menningarsjokki, enda ekki auðvelt að aðlagast þrjúhundruð manna heimili eftir að hafa verið flest öll grunnskólaárin í þriggja til fjögurra manna bekk. Ég gerði mér þó ekki grein fyrir viðbrigðunum sem myndu fylgja því að fara á Akureyri yfir veturinn og búa með svona mörgum krökkum. Heimavistin sjálf olli mér ekki vonbrigðum, allt var mjög heimilislegt og hægt að nálgast allt sem maður þarfnast, (nema kannski eldhúskrók, en það sleppur því mötuneytið á vistinni sér um að gefa manni að borða). Mötuneyti, eða mötuneytismatur hljómar að vísu ekki heillandi, en þau útbúa ágætan heimilismat sem er oft á tíðum ljúffengur. Starfsfólkið á vistinni er allt yndislegt og á það stóran hlut í góðu andrúmslofti vistarinnar. Mötuneytisstarfsfólkið sem sér um að næra mann, næturverðirnir, skrifstofustarfsfólkið, þvottakonurnar sem þrífa fötin manns og eru alltaf brosandi, ásamt öllum hinum. Það eru auðvitað gallar sem fylgja því að búa á heimavist. Til að nefna dæmi fer maður sjaldan heim, stundum týnir maður fötunum sínum, maður getur ekki prentað eftir átta á kvöldin og að auki er ekki hægt að fara í bað. Það er samt vel hægt að lifa með því. Allir bregðast misvel við því að flytja í burtu frá fjölskyldu og vinum. Ég hef samt aldrei séð eftir þessu.

Maður getur ekki prentað eftir átta á kvöldin og að auki er ekki hægt að fara í bað. Það er samt vel hægt að lifa með því.

Ég vissi alltaf að ég myndi þurfa að flytja til að fara í framhaldsskóla, þess vegna var þetta auðveldara fyrir mig. Samt læðist að manni heimþráin en það er tilfinning sem þú lærir að lifa með. Hún á ekki að stoppa þig í að njóta lífsins. Með því að koma með opinn hug inn um dyrnar og með því að vera tilbúin í að læra nýja hluti og takast á við alls kyns aðstæður er vistarlífið draumur. Þú eignast vini til frambúðar og herbergisfélaginn gæti gert gæfumuninn því það er manneskjan sem þú munt búa með allt árið. Ef þið náið ekki saman gerir starfsfólkið allt í sínu valdi til að bæta úr því. Ég var mjög heppin með minn en hún kom með mér upp úr Hofsósi, við þekktumst samt ekki mikið þar. Í dag er hún er ein af mínum bestu vinkonum.

Fyrsta árið er alltaf mest spennandi og aldrei dauður tími því það er svo margt að gerast, ef maður bara leyfir því að gerast. Það er líka hægt að upplifa ekkert nýtt og kynnast fáum sem engum. Þetta snýst bara um hugarfarið! Nú bjó ég fyrstu tvö skólaárin mín á vistinni, þriðja árið ákvað ég að leigja og núna fjórða árið mitt er ég komin aftur á vistina. Ástæðan er einföld. Það tekur mig sjötíu og sex skref að labba í skólann. Án alls gríns, það tekur mig mjög stuttan tíma og í þokkabót er gangvegurinn upphitaður. Það eru að sjálfsögðu ótal aðrar ástæður fyrir því að ég er fór aftur á vistina, þó það hafi verið gaman að leigja. Ég er nú að fara leigja alla mína ævi eftir framhaldsskólaárin, svo afhverju ætti ég að flýta því? Það er einnig hagstæðara, trúið mér.

Næstu fimm mánuði ætla ég að njóta síðustu nátta minna í þessum mjúku rúmum, fara í þvottahúsið með bros á vör að sækja samanbrotna þvottinn minn og vona ég að þeir sem hafa þann kost að geta verið á heimavist nýti sér þann möguleika, þetta er í boði til þess að auðvelda okkur lífið.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: