#háskólaríhættu | Háskólinn á Akureyri

Ritstjórn
Höfundur: Ritstjórn

Helga Margrét Mason Jóhannesdóttir formaður stúdentaráðs Háskólans á Akureyri skrifar

 

Markmið okkar var að safna 20.000 undirskriftum til að vekja athygli á verulegri undirfjármögnun til háskóla landsins og til að skora á stjórnvöld að setja menntamál í forgang og framfylgja markmiðum Vísinda- og tækniráðs. Í dag, þremur mánuðum eftir áskorunina, hafa safnast tæplega 11.000 undirskriftir. Sú niðurstaða kemur mér mjög á óvart þar. Taldi ég að við myndum ná langt yfir markmið okkar þar sem að hver einasti Íslendingur hlyti að sjá hag sinn í að skrifa undir. Fjárskortur háskólanna er nefnilega málefni sem varðar samfélagið okkar í heild. Verði ekkert gert fer það svo að háskólarnir þurfa að fækka nemendum sínum og minnka námsframboðið. Það hefur ekki einungis áhrif á þá sem stunda háskólanám í dag heldur einnig kynslóðirnar sem á eftir okkur koma.

Fækkun nemenda hefur í för með sér að skortur verður á vinnuafli í samfélaginu þegar fram líða stundir. Það er sérstaklega alvarlegt mál þegar litið er til starfsstétta þar sem nú þegar er skortur á vinnuafli t.d. í stéttum lækna og hjúkrunarfræðinga.

Skortur á námsframboði mun leiða til þess að háskólanemar  þurfa í auknum mæli að sækja menntun sína út fyrir landsteinana menntun, sem þeir geta sótt hérlendis í dag. Rannsóknir hafa sýnt að búseta fólks fer að miklu leyti eftir því hvar það sækir menntun sína og byggt á því mun þessi þróun leiða til þess að við missum unga fólkið í auknum mæli úr landinu okkar.

Sem nemandi í Háskólanum á Akureyri horfi ég á þau áhrif sem þessi fjárskortur mun hafa á skólann minn og einnig þau áhrif sem hann mun hafa á bæjarfélög utan höfuðborgarsvæðisins. Ef Háskólinn á Akureyri getur ekki starfað áfram með sama hætti mun það hafa áhrif á landið allt því þar er boðið upp á fjarnám sem gerir nemendum kleift að stunda menntun í sinni heimabyggð. Það skiptir gríðalega miklu máli fyrir lítil bæjarfélög að halda í fólkið sem þar býr og það ætti að vera sjálfsagður hlutur að þurfa ekki að flytja frá fjölskyldu og vinum og staðnum þar sem maður elst upp ef maður kýs að gera það ekki.

Hér hef ég einungis stiklað á stóru yfir þau helstu vandamál sem fjárskortur háskólanna mun hafa í för með sér. Ég vona að ég hafi getað komið til skila með þessari litlu yfirferð hversu alvarlegt mál við glímum við og hvet alla eindregið til að skrifa undir á haskolarnir.is

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: