Eva Dröfn Guðmundsdóttir og Þórdís Dröfn Andrésdóttir skrifa

Þann 14. október 2016 hófst átakið #háskólaríhættu, í formi greinaskrifa, undirskriftasöfnunar og vitundarvakningu á samfélagsmiðlum. Markmið átaksins er að vekja athygli stjórnvalda á þeim slæmu kjörum sem ríkisreknir háskólar hérlendis þurfa að takast á við.

Núna erum við á okkar síðustu önnum í menntaskóla og spurningin hvað við ætlum að gera eftir útskrift hefur aldrei verið jafn raunveruleg, áþreifanleg og yfirþyrmandi. Núna þurfum við í alvöru að taka einhverja stefnu. Hundruð efnilegra og metnaðarfullra ungmenna útskrifast núna í vor, enn fleiri næsta vor og allir taka ákvörðun um hvað skuli gera eftir útskrift. Sumir taka sér tíma til að vinna eða ferðast, aðrir halda áfram í námi og fara í háskóla. Sumir fara erlendis í nám, aðrir halda sér á Íslandi og velja úr þeim háskólum sem okkur bjóðast hér. En afhverju að velja undirfjármagnað háskólanám á Íslandi þegar hægt er að fara erlendis?

Það er mikil synd að háskólarnir okkar fái ekki það fjármagn sem þarf til þess að halda í við löndin í kringum okkur. Háskólarnir eru stoðgrind atvinnulífsins á Íslandi og því er fátt smánarlegra fyrir ríkisstjórn en að vanrækja þarfir háskóla sinna. Útgjöld íslenska ríkisins á hvern háskólanema er einungis helmingur þess sem greitt er út á hvern nemanda á hinum norðurlöndunum. Mikilvægt er að stjórnvöld fjárfesti í framtíðinni og veiti háskólunum það fjármagn sem þeir þurfa á að halda.

Við hjá Framhaldsskólablaðinu höfðum samband við hina ýmsu nemendur háskólanna sem hafa látið til sín taka í #háskólaríhættu umræðunni til að fá nánari útskýringar á því hvernig ástandið sé innan þeirra skóla og þeirra sýn á hvert vandamálið sé.

Ef háskólarnir dragast aftur úr og visna vegna fjármagnsskorts mun atvinnulífið gera slíkt hið sama. Við getum ekki menntað lækna, hjúkrunarfræðinga, efnafræðinga, verkfræðinga, kennara og aðrar nauðsynlegar starfsstéttir til að vinna hér á landi ef nemendur finna fyrir fjármagnsskorti og fólksskorti um leið og nám þeirra hefst. Undirfjármögnun opinberra menntastofnanna hvetur íslensk ungmenni til að leita erlendis eftir menntun og starfsreynslu, sem skilur eftir sig undirmannað heilbrigðiskerfi, menntakerfi og almennt afllítið atvinnulíf.
Við megum ekki gleyma því hve heppin við erum að eiga háskóla sem bjóða upp á eins mikla möguleika fyrir smáa þjóð. Því er það okkar skylda að varðveita þessa skóla og sjá til þess að þeir fái að vaxa og dafna á næstu árum. Við sættum okkur ekki við að dragast aftur úr nágrannaþjóðum okkar, afleiðingar þess að vanrækja menntakerfið á þennan hátt getur haft verulegar afleiðingar fyrir samfélagið í heild sinni. Átakinu er ekki enn lokið. Við hvetjum alla lesendur til að taka þátt og skrifa undir á haskolarnir.is

 

Hér fyrir neðan er áskorunin sem gerð var til stjórnvalda. Hægt er að skrifa undir á http://haskolarnir.is/askorun

 

Áskorun til stjórnvalda


Meðalframlag íslenska ríkisins á hvern ársnema í háskóla er tæplega 1,3 milljónir króna. Ísland er þar langt á eftir nágrannaþjóðum sínum því framlagið nemur rúmlega 2,2 milljónum króna að meðaltali annars staðar á Norðurlöndum.

Í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs er markmiðið að styrkja fjármögnun háskólakerfisins hér á landi svo hún verði að minnsta kosti sambærileg við meðaltal annarra norrænna ríkja árið 2020. Ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2017-2021 sýnir hins vegar að engan veginn er komið til móts við ofangreint markmið.

Viðvarandi undirfjármögnun háskólanna dregur úr framþróun í samfélaginu og samkeppnishæfni landsins. Enn fremur er ljóst að ef ekki er lagt meira fé til reksturs háskólakerfisins þarf á endanum að fækka nemendum og draga úr fjölbreytileika í námsframboði.

Við undirrituð krefjumst þess að stjórnvöld setji menntamál í forgang og framfylgi fyrrgreindum markmiðum um fjármögnun háskólakerfisins með það að leiðarljósi að jafnmikið fjármagn fylgi hverjum háskólanema hér á landi og nemum annars staðar á Norðurlöndum árið 2020.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: