#háskólaríhættu | Háskóli Íslands

Ritstjórn
Höfundur: Ritstjórn

Kristófer Már Maronsson formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands skrifar
Það hafa eflaust margir orðið varir við átakið Háskólar í hættu sem rektorar allra háskóla á Íslandi settu af stað síðastliðið haust. Þar bentu þeir á að í fjármálaáætlun hins opinbera fyrir árin 2017-2021 virðist hafa gleymst að gera ráð fyrir uppbyggingu háskóla á Íslandi, sem hafa um árabil verið fjársveltir ef staðan er borin saman við þau lönd sem liggja næst okkur í Skandinavíu. Það var ekki af ástæðulausu sem horft var til þeirra landa, en vísinda- og tækniráð hafði það að markmiði að ná sambærilegum framlögum á hvern nemenda árið 2020 og í öðrum norrænum ríkjum. Það kom öllum á óvart þegar Alþingi samþykkti fjármálaáætlun hins opinbera því forsætisráðherra er formaður vísinda- og tækniráðs en þar sitja einnig fjármála- og efnahagsráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Þau voru því líklega öll meðvituð um að þarna væru þau að stefna langt undir eigin markmið, sem getur ekki talist til sóma þegar um eina af grunnstoðum samfélagsins er að ræða. Af þeim sökum fóru rektorarnir af stað með átakið Háskólar í hættu og nemendur standa fast við bakið á þeim, enda eru þetta sameiginlegir hagsmunir allra í samfélaginu sem um ræðir.

Forsvarsmenn stúdentafélaga allra háskólanna tóku sig saman og hófu undirskriftasöfnun á www.haskolarnir.is til þess að safna undirskriftum og hafa tæplega 11 þúsund undiskriftir safnast þegar þetta er skrifað, en það samsvarar um það bil helming meðlima háskólasamfélagsins.

Hvort sem það var barátta stúdenta, rektora, undirskriftasöfnun eða hvað annað – þá jukust framlög til háskólastigsins um 1.3 milljarð í fjáraukalögum, sem er skref í átt að markmiðinum en samt ekki nægilega mikið til þess að brúa bilið og því ljóst að nauðsyn er til þess að halda áfram baráttunni. Það er vonandi að ný ríkisstjórn taki ákvörðun um að uppfylla markmið Vísinda- og tækniráðs, á borði en ekki bara í orði.

Baráttan sem við stöndum í er fyrst og fremst fyrir samfélagið í heild sinni að njóta góðs af, en einnig fyrir nemendur framtíðarinnar. Við sem erum í háskóla í dag njótum hægt og rólega góðs af auknu fjármagni, en við erum í langtímabaráttu fyrir framtíðarkynslóðir – sem núverandi leik-, grunn- og framhaldsskólanemendur munu vonandi finna fyrir á komandi árum, kjósi þessir nemendur að fara í háskóla. Það er þessvegna sem ég vona að þeir sem lesi þetta hafi skrifað undir á www.haskolarnir.is og standi við bakið á þeim sem heyja baráttuna, eða blandi sér í hana sjálfir.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: