#háskólaríhættu | Röskva

Ragna Sigurðardóttir, Stúdentaráðsliði í Röskvu og fulltrúi nemenda í háskólaráði Háskóla Íslands skrifar.
Staða háskólanna á Íslandi er grafalvarleg. Framlög á hvern háskólanema í íslenskum háskólum er helmingi lægri en framlög á hvern nemanda á Norðurlöndunum og Ísland er undir meðaltali OECD þegar kemur að framlögum til háskólakerfisins miðað við fjölda nemenda. Háskólanemar á Íslandi eru þó ekki hlutfallslega fleiri en háskólanemar á hinum Norðurlöndunum. Við erum því hálfdrættingar á við önnur Norðurlönd þegar kemur að fjármögnun háskólakerfisins.

Áhrifanna gætir víða. Heilbrigðisgreinar við Háskóla Íslands, sem dæmi, eru reknar fyrir brot af því sem sambærilegt nám kostar á öðrum Norðurlöndum. Greinar eins og sjúkraþjálfun, læknisfræði og sálfræði eru reknar fyrir minna en þriðjung af því opinbera fé sem sömu greinar fá í dönskum háskólum.

Menntun, hvort sem hún er á sviði lista, verkfræði- og náttúruvísinda, landbúnaðar, ferðamála, hug-, félags-, mennta- eða heilbrigðisvísinda – gagnast samfélaginu, sérstaklega þegar hún er aðgengileg öllum sem hafa burði til þess að læra. Vísindi og nýsköpun gagnast líka samfélaginu í heild; aukin þekking og nýjar lausnir við vandamálum nútímans eru okkur til gagns. Það er borðleggjandi.

Af hverju eru háskólar Íslands þá í hættu? Undanfarna áratugi hafa ráðamenn sleppt því að fjárfesta í menntun. Árangur í niðurskurði hefur verið verðlaunaður með meiri niðurskurði, uns ekkert er eftir til að skera úr. Stjórnmálamenn lofa fögru fyrir kosningar, endurhæfingu og endurreisn, en orðunum fylgja ekki gjörðir.

Fyrir síðustu kosningar sögðu fulltrúar allra flokka að yrðu þeir kosnir myndu þeir leggja sig fram við að ná meðaltali OECD ríkjanna í framlögum til íslenskra háskóla strax á næsta kjörtímabili. Fylgja ætti því eftir og ná átti meðaltali Norðurlandanna í framlögum á hvern háskólanema.

Nú er næsta kjörtímabil hafið. Staðan sem blasir við er sú að Háskóli Íslands fær framlög frá ríkinu sem duga honum ekki til reksturs í núverandi mynd. Háskóli Íslands sætir niðurskurði á meðan ráðamenn lofuðu eflingu. Engin efling felst í því að skera inn að beini. Það er því okkar barátta – barátta stúdenta – að krefjast raunverulegrar eflingar og endurreisnar íslenskra háskóla.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: