Framhaldsskólablaðið í heild sinni -þriðja tölublað (janúar 2016)

Eva Dröfn Hassell Guðmundsdóttir

Nýtt ár, gamlar klisjur

Eva Dröfn H. Guðmundsdóttir ritstýra Framhaldsskólablaðsins

 

Þó að við þurfum núna að venja okkur á annað ártal fyrir verkefnaskilin okkar hefur fátt annað breyst. Eða kannski mætti frekar segja að breytingarnar fylgi rútínunni. Ræktarstöðvar með megrunaráróður, tékk. Verslunarmiðstöðvar með janúarútsölur, tékk. Skólinn með tilheyrandi streitu, ójá, tékk. Óútskýrður vonarneisti fyrir nýju ári, tékk?

Því nýjum tímum og nýju upphafi fylgja breytingar. Það á líka við núna í ársbyrjun. Ef það er eitthvað sem er stöðugt og órjúfanlegur hluti af lífinu, þá eru það breytingar. Sama hvort lífið sé eins og þú vilt hafa það eða ekki, þá máttu treysta því að það breytist allt, alltaf. Svo ef lífið leikur við þig, lifðu þá í augnablikinu og þakkaðu fyrir. Ef ekki, þá engar áhyggjur, það mun líka breytast.

Framundan eru ef til vill ógnvekjandi breytingar en tökum þeim opnum örmum. Mér er sama hversu fyrirsjáanlegt það hljómar, en ég FINN að 2017 verður gott ár. Já, eins og Bowie heitinn sagði: „Turn and face the strange changes.“ Þetta er árið sem sum okkar útskrifast úr framhaldsskóla, önnur halda framhaldsskólagöngunni áfram, enn önnur munu segja skilið við menntaveginn og sækja í önnur verkefni.

Spennandi ár, 2017.

Þess vegna skulum við ekki gleyma að njóta þess. Við skulum passa upp á okkur sjálf og fara inn í nýja árið róleg og slök. Okkur liggur ekkert á, þvert á móti. Fögnum nýjum verkefnum en leyfum okkur líka stundum að vera löt. Það er ekki alltaf hægt að gera allt og gera það vel á sama tíma. Við þurfum líka að gera vel við okkur sjálf! Hvort sem það er að fara í göngutúr, elda næringarríkan kvöldmat, horfa á allar seríurnar af SKAM í einum rykk, eða allt ofantalið, þá er nauðsynlegt í amstri dagsins að stoppa og gefa sér tíma fyrir sjálfið.

Þrátt fyrir fullt af breytingum, nýjum verkefnum og tilhlökkunar fyrir fjórðu seríu SKAM fylgir nýju ári líka sama rútínan – og okkar kærkomna Framhaldsskólablað.  Það mun vonandi aldrei breytast. Fyrsta útgáfa ársins 2017 er hér. Við óskum ykkur gleðilegs árs og vonum að þið njótið blaðsins. Gleðilegar breytingar kæru lesendur!

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: