Er túrismi á Íslandi tískubóla?

Sara Mansour

Sara Mansour skrifar

„Það er bara ekki hægt að þverfóta fyrir túristum lengur!“
„Ég nennti bara ekkert að bíða eftir afgreiðslu á Bæjarins bestu – það var endalaus röð af túristum!“
„Ég held barasta að það séu fleiri túristar en Íslendingar hérna!“

Flest okkar hafa heyrt þessar setningar hér um bil orðrétt og þær eru ekki svo fjarri sannleikanum. Hvort sem það var pólitískur fréttaflutningur erlendra fjölmiðla, tónlistarmyndband frá Justin Bieber eða víkingaklapp karlalandsliðsins í fótbolta, þá hefur ferðamennska á Íslandi aukist svo að margir telja fulla ástæðu til þess að setja á fót sérstakt ferðamálaráðuneyti. Túrismi er stærsta tekjulind landsins um þessar mundir og stór hluti þjóðarinnar hefur af honum atvinnu. Hótel, gistiheimili og minjagripabúðir rísa án afláts í miðborg Reykjavíkur sem og á landsbyggðinni. Fjöldi fólks hefur tekið upp á því að leigja út herbergi eða íbúðir með skjótum gróða án mikillar fyrirhafnar. Innkoma erlends gjaldeyris og almennur hagvöxtur hlýtur að vera af hinu góða.  Sömuleiðis halda Íslendingar erlendis nokkrum sinnum á ári til þess að djamma, versla og upplifa öðruvísi menningu á viðráðanlegu verði.

Ferðamennska er auðlind sem þjóðin öll getur notið og allir eru voða sáttir (tja, fyrir utan að túristar eiga helst ekki að sjást eða fá sér Bæjarins bestu). En hvað gerist þegar þessi auðlind verður þurrausin? Mun Ísland einhvern tíma hætta að vera í tísku. Um þessar mundir sér ekki fyrir endann á túrisma; opinberlega eru engin óveðursský á lofti. Fólk kemur aðallega til landsins af tveimur ástæðum; annars vegar til þess að skoða stórbrotna náttúruna og hins vegar til þess að njóta menningarinnar. Fjöllin eru ekki á förum og tónlistarhátíðir hafa fest sér sess í íslensku samfélagi. Hins vegar má víða heyra útlendinga segja frá upplifun sinni af landinu og við ættum kannski að líta á það sem varnaðarorð. Ísland er dýrt land: allt kostar og það kostar mikið. Algengast er að fólk hneykslist á bjórverði (höfundur vill meina að það sé vegna þess að sá kostnaður bitni helst á þessari drykkfelldu þjóð), en raunar er önnur þjónusta líka á uppsprengdu verði sem við Íslendingar verðum einfaldlega ekki vör við, t.a.m. hótelgisting, bílaleiga og minjagripir. Þetta er fljótt að safnast saman og því fylgir mikil hætta á að fólk komi einfaldlega ekki aftur. Útlendir vinir og vandamenn minnast títt á ferðir sínar hingað en syrgja jafnframt að þeir sjái sér ekki fært að endurtaka þær, þó viljinn sé sannarlega fyrir hendi. Þeir lofsyngja landið en eru tregir til að mæla með áfangastaðnum við aðstandendur. Jökulsárlón er fallegt, en það er varla þess virði að verða gjaldþrota yfir því. Jafnframt er mikilvægt að peningurinn sem túristar borgi, renni í rétta sjóði, s.s. sveitafélög og ríkisskatt.

Ferðalög eru mikilvægur, og jafnvel nauðsynlegur, partur af þroska flestra. Það er silfurrönd að hagnast efnahagslega á túrisma. En það er spurning hvort gróðinn sé skammvinnur; bundinn við tímabil, tísku eða trend? Hvað gerist þegar hægist um? Munu hótelin standa auð? Mun hópur fólks standa uppi atvinnulaus? Munum við sakna túristanna?

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: