Ég keyrði Sæbrautina í rigningu og myrkri.
Enginn á ferð, bara ég í draugaborginni, Reykjavík.
Ég lagði fyrir utan gamla uppáhaldsstaðinn okkar. Óviss um afhverju ég væri komin hingað hlustaði ég á regnið og rúðuþurrkurnar, hljóð sem fyllir mig af þáþrá. Skyndilega bregður fyrir andliti þínu, eins og málverk frosið í hugarheimi mínum. Frosin mynd af andliti þínu frá síðasta skiptinu sem ég sá þig. Með hárið í snúð og smeðjulega glottið sem faðir minn hataði. Hljóðið í rúðuþurrkunum verður óbærilegt. Ég drap á bílnum, gekk af stað í átt að gamla staðnum okkar.

Úr rigningunni inn um hurðina. Inni á staðnum höfðu greinilega verið einhverjar framkvæmdir. Steypuryk þakti gólfið og plastdúkar voru yfir flestum borðunum. Barinn var ennþá á sínum stað, á miðju gólfinu á móti hurðinni. Ólíkt borðunum virtist barinn aðeins hafa verið skilinn eftir í nokkra daga. Rykfallinn en í góðu standi. Ég fann fyrir ónotatilfinningu í brjóstkassanum. Þarna inni var örvæntingafullur fugl í búri að blaka vængjunum.

Í einu horninu hægramegin við barinn er borðið okkar. Loftljósið yfir því virkaðr ennþá eftir öll þessi ár. Hve gömul er ég í kvöld? Hugsa ég með mér þegar ég tek eftir þér, þú sast þarna við borðið okkar og snerir bakinu í mig. Ég þekki þig strax á síðu brúnu lokkunum og slæmu líkamsstöðunni. Án þess að hika geng ég til þín og sest andspænis þér. Að sjá andlitið þitt róar mig. Stöðugi öldugangurinn sem hafði átt fastan stað í sál minni síðustu árin þagnar og allt varð hljóðlátt í örskamma stund. Ég treysti þér. En ég veit að það er vegna þín sem ég treysti engum. Fyrir framan mig er diskur, fullur af frönskum og einn hamborgari sem skorinn er í tvennt.
Ertu týnd? Röddin þín hás, líklega eftir langa nótt af tónleikastandi.
Hef ég ekki alltaf verið það? Sagði ég án þess að ætla mér það með gömlu stælunum mínum. Líkami minn tilheyrir ekki mér. Yngri, stjórnlausari ég er komin aftur við það eitt að heyra röddina þína. Ég lyfti höndunum að hausnum til að strjúka hárið frá andlitinu. Hárið á mér nær langt niður fyrir axlir, það hefur ekki verið svona sítt síðan áður en ég kláraði menntaskóla.
Ég er farin að heyra í rúðuþurrkunum í hausnum á mér aftur.
Á meðan ég fann fyrir mér tala við þig, hlæja, og brosa, var ég samt ekki meðvituð um hvað ég væri að gera. Dýrið í brjóstkassanum var ennþá að reyna að komast út.
Þú brostir skakkt og dróst annað augað saman eins og þú gerðir alltaf þegar eitthvað pirraði þig og gladdi á sama tíma.
Er það frelsisáráttan?
Frelsisáráttan, aldrei gæti ég nokkurn tímann gleymt henni. Ár eftir ár horfðir þú upp á mig með nýjum og nýjum dreng. Alltaf skildi ég þá eftir í molum þegar ég ákvað að ég þyrfti að vera frjáls.
Nei, sagði ég. Engin frelsisárátta í þetta skiptið. Ég brosti sannfærandi brosi.
Þú tókst þá hálfan borgarann af disknum mínum og lagðir á þinn disk.
Ætti ég að setja síróp á hann?
Ég hló og man þá hvað mér hefur alltaf þótt vænt um þig. Nóvembervinurinn sem kemur með hverju hausti.
Þú hlærð líka.
Þú veist ég elska þig.
Ég hika, brosi, kyngi,
Auðvitað,
.
.
ég elska þig líka.
Þú horfðir á mig eins og þú hafir allt í einu munað eitthvað.
Þú hefur alltaf átt erfitt með að segjast elska.
Ég hlæ og dýrið í brjóstkassanum hlær með.
Viltu halda þessu áfram? Spurðirðu óöruggur.
Að borða? Sagði ég og brosti.
Nei, við.
Dýrið í brjóstkassanum blakar vængjunum tryllingslega.
Ég veit ekki hvort ég hafi efni á því. Segi ég ískaldri röddu.
Þú verður að vita það. Segir þú ákveðinn.
Ég horfi í kringum mig. Hljóðið í rúðuþurrkunum hefur hljóðnað. Fuglinn í brjóstkassanum berst um. Loksins brjótast vængirnir í gegnum rifbeinin mín.
.
Ég sé blátt
.
Ég vakna í frosti og kulda. Ég skima herbergið varlega, hreint gólf, mínar bækur, tómt rúm, mitt herbergi. Mér er létt. Ég er ein hér. Ein og frjáls. Ég elska þig ekki. Ég elska þig ekki. Ég er frjáls og mér er kalt. Eins og ég vil hafa það.

~L.L~

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: