Ungt fólk í tónlist

Sólrún Freyja Sen

Sólrún Freyja Sen skrifar
Nú hafa ýmsar íslenskar hljómsveitir og tónlistarfólk á við Sigurrós, Björk, Of Monsters and Men og Kaleo vakið mikla athygli og öðlast miklar vinsældir um allan heim. Þar með hefur aukist áhugi fyrir íslenskri tónlist og nú blómstrar tónlistarmenning hér heima, þá sérstaklega meðal unga fólksins. Við spjölluðum við ungt tónlistarfólk og fengum sýn í heim þeirra sem eru að feta sín fyrstu skref í tónlistarheiminum. Við ræddum við Steinþór Bjarna Gíslason og Arnald Inga Jónsson í Lucy In Blue; Örn Gauta Jóhannsson í Hórmónum; Hafstein Þráinsson úr Ceasetone; og Hrafnhildi Magneu Ingólfsdóttur úr Náttsól.

Hormónar

Hvað eruð þið búin að spila saman lengi?

Ekki nema frá því í desember í fyrra! Við vorum bara geðveikt svöng og pirruð þann daginn, gleymdum að borða, vorum að keyra heim frá einhverri búllu þar sem við fengum að éta, og Brynhildur söngkonan okkar sagði: „afhverju erum við ekki hljómsveit?” Þannig ég sagði bara að ég væri með hljóðfæri í skúrnum og að það væri ekkert mál að búa til hljómsveit! Þannig urðum við til, on the spot! Svo skráðum við okkur klukkutíma fyrir skilafrest í Músíktilraunir.

Nú unnuð þið Músíktilraunir síðast. Hafði það mikil áhrif á tónlistarferilinn ykkar?

Algjörlega, ég veit ekki hvort að einhver hefði bókað okkur hefðum við ekki unnið, eða það er allavega búið að gefa okkur einstaklega mikið forskot að hafa fengið fyrsta sætið!

Hvernig leggst í ykkur að spila á Airwaves?

Ég er allavega búinn að fara á Airwaves hvert einasta ár frá því ég var 16 ára og fæ loksins að spila á hátíðinni. Það er bara draumur.

Má búast við plötu frá ykkur einhverntímann á næstunni?

Við erum búin að nýta okkur alla hljóðverstímana sem við fengum í verðlaun, tókum upp smáskífu sem er í mixi núna, og kemur vonandi út fyrir Airwaves. Vonandi.

 

Náttsól

Viðtal við Hrafnhildi Magneu úr Náttsól

 

Hvenær varð hljómsveitin til?

Hún varð til síðasta sumar og þá sóttum við um að vera listhópur hjá Hinu Húsinu, sem er svona sumarstarf. Við vorum fyrst bara tvær en við Guðrún höfðum verið í hljómsveit saman áður og vildum gera eitthvað nýtt. Okkur vantaði hinsvegar þriðju manneskju, svo við heyrðum í Elínu og þannig varð hljómsveitin Náttsól til.

 

Hvernig virka listhópar Hin Hússins?

Virkar í rauninni eins og styrkur, þú ert að vinna á eigin forsendum frá 9-17 í júni og júlí. Það senda allir inn formlega umsókn og útskýra hvað þeir ætla að gera í sumar og afhverju þeir ættu að fá styrkinn. Okkar verkefni var að endurútsetja lög eftir íslenskar konur. Þrisvar sinnum yfir sumarið var síðan viðburður sem hét Föstudagsfiðrildi”, þar sem allir hóparnir sýndu það sem þeir voru komnir með. Að lokum var lokasýning sem hét Vængjaslátturinn”.

Þetta eru ekki allt tónlistarhópar heldur líka myndlistarhópar og í rauninni hvaða hópar sem er! Þessir hópar gera líka eitthvað niðrí bæ á 17. júní og á menningarnótt. Þetta er ótrúlega skemmtilegt og algjör draumavinna.

Höfðuð þið reynslu í að koma fram, fyrir stofnun hljómsveitarinnar?

Já. Elín var í söngvakeppni sjónvarpsins og hefur alltaf eitthvað verið að spila og semja. Við Guðrún vorum saman í hljómsveit sem hét White Signal.

Núna náðuð þið mjög langt í Söngkeppni framhaldsskólana og hafið verið í Músíktilraunum. Finnst ykkur þessar keppnir vera góður vettvangur fyrir ungt fólk?

Já þetta er náttúrulega ótrulega góð leið til að koma sér á framfæri. Músíktilraunir eru gömul keppni sem gefur manni mikla reynslu og það er ótrúlega gaman að taka þátt. Maður fær að spila á flottu sviði í góðu kerfi, og hitta krakka sem eru að gera nákvæmlega það sama og þú. Það er mjög auðvelt að mynda tengsl við aðra keppendur, sem er náttúrulega mjög mikilvægt í þessum bransa.

Söngkeppni framhaldsskólana er náttúrulega sjónvörpuð en við vorum á báðum keppnum sömu helgi og vorum að hlaupa þarna á milli.

Eruð þið að fara gefa út plötu á næstunni?

Það er megin markmiðið að lokum, en núna ætlum við að taka upp eitt lag og gefa út og sjá hvernig verður tekið í það. Tónlistin snýst mikið um að gefa út eitt og eitt lag, halda tónleika, og gefa út plötu þegar ákveðið mikið efni er komið og ákveðinn tónn kominn í bandið. Við erum að vinna í einu lagi núna sem kemur vonandi út sem fyrst.

Lucy in Blue

Viðtal við Steinþór Bjarna og Arnald Inga úr Lucy In Blue

Hvernig varð hljómsveitin til?

Addi: Góð spurning, sko ég hitti Matta, bassaleikarann, þegar ég byrjaði í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Hann þekkti Steina og við Matti ákváðum að spila eitthvað saman, fengum Steina til að koma líka, þá vantaði bara trommara og ég var með Kolla í popphljómsveit. Matti sá okkur spila á kaffihúsi og fékk Kolla til að koma. Þá byrjuðum við að djamma bara eitthvað saman í svona mánuð, og svo fórum við í Músíktilraunir!

Voruð þið allir búnir að vera mikið í tónlist og að koma fram áður en þið byrjuðuð að spila saman?

Steini : Ég segi ekki mikið, en alveg eitthvað.

Addi: ég var bara í popphljómsveit í grunnskóla og við spiluðum fyrir svona mesta lagi fimmtíu manns, þannig ég var ekkert mikið að koma fram. Vorum algjörir nýgræðingar.

Hvernig varð nafnið til?

Maður sem að vinur okkar þekkir átti víst að hafa komið til Íslands og „trippað” á LSD (Lucy er þekkt sem LSD í undirheimum). Hann hitti einhverja gellu með blátt hár og þau héldu einhverja tónleika, (fyrstu tónleikarnir sem við Steini fórum á saman), svo var þessi gella reyndar ekkert með blátt hár.

Hvernig mynduð þið lýsa tónlistinni ykkar fyrir einhverjum sem veit ekkert hvernig framsækið sýrurokk er?

Kannski: „metnaðarfull heimsókn í 7 áratuginn”, eða segja þessari manneskju að líta inná við og finna sjálfa sig, eða segja henni að hlusta bara á hljómsveitina.

Nú lentuð þið í 2. sæti í Músíktilraunum 2014. Teljið þið að það hafi haft mikil áhrif á ykkar tónlistarferil?

Það var náttúrulega mjög skemmtilegt að taka þátt og komast svona langt. Mesta sem það hefur gert fyrir okkur er að gefa okkur metnað til að halda áfram, veita okkur reynslu, og svo kynntumst við líka fullt af fólki.

Annars fengum við í verðlaun tíma í hljóðveri og gjafakort, það voru ágætis verðlaun, en höfðu ekki svo mikil áhrif á ferilinn.

Nú eruð þið búnir að koma töluvert fram uppá síðkastið. Finnst ykkur auðvelt að fá gigg”?

Já, við höfum alltaf bara verið beðnir um að koma fram, aldrei haft eitthvað fyrir því. Aðal vesenið er kannski að róta upp öllum hljóðfærunum.

Talað hefur verið um að skemmtistaðir borgi lítið eða hreinlega ekki þegar óþekktara og yngra tónlistarfólk spilar. Hver er ykkar upplifun á því?

Það er bara mjög satt. Við viljum helst hætta að stunda það að spila á skemmtistöðum. Þetta er samt ákveðin æfing útaf fyrir sig, bara að koma fram. Það er náttúrulega ekki það sama að spila fyrir framan fólk á skemmtistað og að spila í æfingarhúsnæði. Þetta er eiginlega eins og annað æfingarhúsnæði! Gott að þetta sé vettvangur fyrir æfinguna, en þetta ætti að vera vettvangur sem vinna líka. Tónlistarmenn á Íslandi þurfa að vera orðnir virtir til að þeir geti krafist þess að fá borgað í peningum, ekki bara bjór.

Er eitthvað á næstunni hjá Lucy In Blue?

Við erum að fara að gefa út fyrstu plötuna okkar! Núna erum við á síðustu skrefunum að hljóðblanda hana og finna rétta hljóminn. Allar upptökunar eru semsagt komnar. Við erum byrjaðir að semja efni fyrir nýja plötu, þannig það eru eiginlega tvær plötur á leiðinni. Svo spilum við örugglega eitthvað í haust.

 

Ceasetone

Hvenær var hljómsveitin stofnuð?

Þetta byrjaði sem sólóverkefni hjá mér, árið 2013, þar sem ég var einn á kassagítar. Ég hef alltaf verið með vítt tónsvið sem mig langar að spila svo ég endaði á því að þurfa að stækka við mig til að geta spilað það sem mig langaði að spila. Kveikjan að hljómsveitinni var þegar ég kynntist henni Sólrúnu sem var að taka þátt í Músíktilraunum á sama tíma og ég 2013. Við byrjuðum að spila saman árið 2014, og hinir krakkarnir líka. Þeir eru félagar mínir úr Setbergi í Hafnafirðinum.

Hvaðan kemur nafnið Ceasetone?

Sko. Ég heiti Hafsteinn og var að gæla við þá hugmynd að hafa beina þýðingu á nafninu mínu á ensku, en fannst það of plebbalegt. Þannig ég breytti Sea-stone yfir í Cease-tone.

Nú eruð þið nýbúin að gefa út plötuna „Two Strangers.“ Sumir segja að það borgi sig ekki lengur að gefa út plötur og sumt tónlistarfólk gefur einungis út tónlistina sína á netinu. Hvað finnst þér um þessa þróun?

Kannski að það borgi sig ekki lengur að gefa út plötur á sama mælikvarða og áður, en það borgar sig alltaf að vera með eitthvað til að selja. Sérstaklega ef þú ert að fara út í tónleikaferðalög, því fólk er alveg ennþá til í að kaupa geisladiska úti í útlöndum. Ef þú framleiðir t.d. 500-1000 stykki, átt þau, ert mikið að spila og þar með, með tækifæri til að selja þau, muntu á endanum koma út í plús. Það er gróft að segja að það borgi sig ekki lengur, þó þú getir ekki reytt þig á það sem megininnkomu.

Vínyl sala fer hækkandi, það er miklu betri gripur til að eiga. Geisladiska formið er svo ómerkilegt og í rauninni bara ljótt fyrirbæri. Svo hljóma þeir nákvæmlega eins og tónlist á netinu. Þannig það er engin ástæða til að kaupa geisladiska, nema þetta sé eina framsetningin á tónlistinni eða að þú viljir styrkja tónlistarfólkið.

Hver er þín skoðun á Músíktilraunum og sambærilegum keppnum fyrir ungt fólk?

Það fer á báða vegu. Músíktilraunir eru svolítið einar á báti, því viðhorfið er alltaf jákvætt. Keppnin sjálf er í rauninni bara bónusatriði, það sem skiptir mestu máli er að kynnast fólki. Hinsvegar ef við skoðum keppnir eins og X-factor eða The Voice, þar sem keppnin er bara keppnin, finnst mér það ekki meika sens. Þú ert bara að segja einhverjum að hann sé ekki góður þó hann gæti orðið góður einhverntíman. Dómarar eru ekki beint að segja við keppendur að gefast upp en það er líklegra að keppandi geri það. David Grohl talaði eitt sinn um að Nirvana hafi tekið þátt í Idol eða einhverri svipaðri keppni. Þeir voru víst alveg ömurlegir og héldu bara áfram að vera ömurlegir þangað til þeir urðu fínir. Svona keppnir setja listina í ramma, það er ekkert rétt eða rangt listform, og mér finnst þessar keppnir mjög yfirborðskenndar.

Músíktilraunir hinsvegar eru góðar, því þær eru með jákvæðari nálgun á tónlistina.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: